Frændi á afmæli

fraendi_i_stigaHann frændi minn á eins og allir aðrir afmæli einu sinni á ári. En ekki er hægt að segja að hann gleðjist yfir þeim tímamótum í lífi sínu og verður hann því heldur kvumpinn á þessum merkis degi.
Oft hefur hann boðið okkur hjónum til sín á þessum píningardegi móður sinnar, eins og hann kallar fæðingardag sinn og þá reyni ég ávalt að færa honum eitthvað smálegt að gjöf. Og þegar hann tekur við þessum gjöfum mínum brosir hann ávalt þessu sérstaka og elskulega brosi sínu og segir;
„Frændi sæll, mikill snillingur ertu að kaupa svo litlar gjafir að þú getur falið í þínum litla lófa“.
En það segi ég satt að ekki er það vandræðalaust að færa honum gjafir, því þær verða að vera þeim eiginleikum búnar að þær valdi honum ekki óvart og af tilefnislausu skaða og þar vandast nú málið.
Einu sinni var mér það á að færa honum mjög svo fagran og hárbeittan bókahníf að gjöf. En hnífur þessi fór síðan á einhvern óskiljanlegan hátt eins og hann orðaði það, upp í munn hans og olli stórskaða á tungunni svo sauma varð í með þeim afleiðingum, að hann gat ekki mælt neina speki í nokkrar vikur án kvala.

Á þessum hátíðisdegi sínum drekkur frændi aldrei annað en te, því það er einhver versti og ómerkilegasti drykkur sem hann þekkir og þetta gerir hann að eigin sögn, eingöngu til friðþægingar vegna fæðingar sinnar.

Svo var það eitt sinnið þegar hann bauð okkur hjónum til afmælistedrykkju og við stóðum uppábúinn og vel tilhöfð fyrir framan útidyrnar á heimili hans að þar blasti við okkur miði með svohljóðandi orðsendingu ;


„Kæri frændi.
Minningartedrykkja móður minnar er frestað- en komdu á stofu 209 á handlækningardeild Landspítalans.

Þinn frændi“.

Þarna stóðum við og ég horfði á þessi skilaboð og vissi ekkert hvað gera skildi. Hafði eitthvað komið fyrir þenna langa og sérstæða mann. Var þetta eitthvað grín. Var hann að hrekkja mig einu sinni enn. Stóð hann kannske hinum meginn við dyrnar og hló af aulalegu andliti mínu þegar ég las á miðann. Var hann að hafa mig að fífli? En það skildi aldrei verða og hringdi ég því dyrabjöllunni án afláts á meðan konan togaði í mig og sagði mér að láta ekki eins og óþekkur krakki, við færum upp á spítala því hver vissi hvað hefði komið fyrir frænda.
„Ég fer ekkert upp á neinn spítala. Ég veit hann stendur fyrir innan dyrnar og brosir þessu bjánalega brosi sínu“, segi ég svo hátt að nágranakonur frænda opna hvern glugga eins og ókeypis skemmtun væri framundan.
„Ég fer heim“ segi ég við konuna þegar ég verð úrkula vonar um að frændi komi til dyra. Og svo legg ég af stað löngum þungum skrefum.
„Hvað er þetta maður“, hrópar konan á eftir mér; „ætlarðu að skilja bílinn eftir. Er allt vit farið úr kollinum á þér“, segir hún um leið og hún stöðvar göngu mína með því að hanga í frakka mínum.

Þegar við komum inná stofu 209 var ekki laust við að ég fengi kökk í hálsinn þegar ég horfði á þetta allt of langa og granna góðmenni, með sitt langa og mjóa andlit sem nú var jafn hvítt og sængurverin sem hann hvíldi undir. Það eina sem færði lit á hvítt rúmið var hár hans, sem er rautt á litin eins og nælonstrákústur og þar að auki jafnt strítt og gisið. En frændi var hressari en hann sýndist vera og heilsaði mér án þess að opna augun og sagði;

„Sæll frændi - það vissi ég að þú stæðir ekki við útidyrnar í allt kvöld. En hvíldu mig nú á einhverju heimskutali, eins og þér einum er lagið. Ég er orðinn svo þreyttur á gáfumönnum.“

Mér rann í skap við þessar aðdróttanir hans að gáfnafari mínu og spurði því nokkuð hvasst hvort hann gæti ekki opnað glyrnurnar þegar hann talaði við heiðarlega menn.
„Jú frændi“, sagði ´ann; „En maður má láta sig dreyma um einhverja fegurð en það er útilokað horfi maður á þig.“ Og svo breiddist þetta yndislega bros hans langt útfyrir andlitið og það var eins og stofan fylltist af sólskini við þetta sérstæða og skakka bros.

Þegar við frændurnir höfðum þagað í drjúga stund setti ég upp heiðarlegt andlit með öngvri forvitni í og spurði eins og út í loftið, hvað komið hefði fyrir, hvursvegna hann væri hér á þessum tedrykkjudegi.

„Ég lenti undir konunni“, sagði hann og opnaði nú fyrst þessi himinbláu og stóru augu sín.
„En gallinn var bara sá að hún stóð efst í lausa stiganum upp á geymsluloft þegar hún hrundi niður. Að vísu studdi ég við stigann svo ekkert ólán gæti hent konu mina, en þá hóf atburðarrás ferð sína og varð ekki stöðvuð. Og þar sem ég stóð og horfði upp til konunnar og bað hana að fara gætilega - duttu gleraugun af andliti mín og fóru innfyrir stigan. Nú get ég ekki gleraugnalaus verið svo ég ég fór innfyrir þessa uppfinningu og reyndi að ná til gleraugnanna en það mistókst - þar til ég sleppti stiganum sem ég átti alls ekki að gera. Og gerðist nú margt í einu. Þar sem ég beygði mig eftir andlitsprýði mínu heyrði ég ógurlegt öskur í konunni og skruðningar miklir fylgdu á eftir og áður en ég vissi skall stiginn með konunni í á baki mér svo ég flattist einhvernveginn út á gólfið og undir hvoru tveggju. En það varð mér til bjargar hversu mjór ég er, því ég passaði nokkurnveginn undir flatann stigann. En mikið getur konan öskrað hátt.“

Aldrei hafði ég heyrt frænda segja jafn mörg orð í einu og þagði því í nokkra stund áður en ég spurði hvort hann væri illa slasaður.
„Einhver himnalitur er á bakinu, gleraugun brotinn og annað eyrað virðist hafa tekið einhvert vaxtaræði. En óslasaður er ég að öðru leiti. Ég bara bíð hérna meðan þeir gera við handleggsbrot konunnar. Það er nú meira ólánið á þessarri konu að vera gift mér“, bætti hann við og úr augum hans skein öll hans ást og virðing sem hann bar til konunnar.

„En hvers vegna fórstu ekki sjálfur upp í stigan og lést konunna halda við, var það ekki gáfulegra“, sagði ég og þóttist hafa náð mér niður á honum vegna orða hans um gáfnafar annarra.
„Frændi sæll, ekki er hægt að segja að vit þitt sé það mikið, að það drjúpi út úr eyrum þér. Þetta kemur alls ekkert gáfum við heldur stálvilja konunnar. En hún heimtaði að fara sjálf í stigan því hún óttaðist eins og hún sagði, að ég færi mér að voða“.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband