Færsluflokkur: Frændi

Er maðurinn api?

apiEitt að því sem ég þoli illa er þegar fólk hringir í mig og kynnir sig ekki. Slíkt er að mínu áliti hreinn dónaskapur og tillitsleysi gagnvart heiðarlegu fólki sem í mesta grandaleysi svarar í þetta tæki og fær þá umbúðalaust yfir sig einhverja sögu um einhverja heimska Jónu frænku sem er orðin ólétt einu sinni enn eftir einhvern heimskan Palla í næsta húsi, sem hún vill ekkert hafa með að gera því hann er svo ljótur og leiðinlegur.

Og þegar maður öskrar í símann að maður þekki enga Jónu og því síður nokkurn Pál sem væri svo vitlaus að fara að barna einhverja Jónu, þá er bara sagt - fyrirgefðu - ég er að tala við vitlausan mann. Og síst af öllu þoli ég þetta tæki þegar það hringir á fréttatíma sjónvarpsins - þegar ég sit í makindum og gegni húsbóndaskildu minni á heimilinu. Þó hef ég margt reynt og laumast til að taka símann úr sambandi á þessum tíma húsbóndans, en einhverveginn veit konan alltaf af slíku og stingur öllu draslinu í samband aftur og þá með svip sem segir að svona geri maður ekki.

Svo var það eitt sinnið að þetta skaðræðis tól hringdi á umræddum fréttatíma og þar sem Davíð allsherjargoði var að segja eitthvað miður gáfulegt um að menn gerðu ekki svona, heldur framkvæma þeir aðeins helminginn af óréttlætinu í fyrsta skrefi, var skap mitt ekki gott svo ég þaut upp úr húsbóndastólnum og hljóp að símanum. En þá varð ég fyrir því óláni að detta um stólkoll sem lá á gólfinu svo andlit mitt- sem ekki má við miklu, skall í gólfið og hálf vankaður tók ég upp símtólið og það fyrsta sem ég heyrði var;
„Sæll frændi, segðu mér er maðurinn api?“
Og þótt ég þekkti strax vinalega og sérstæða rödd frænda mín,þess manns sem ég dái umfram aðra menn var mér nóg boðið við þessa asnalegu og ótímabæru spurningu hans og svaraði ég því með röddu sem sagði allt um skaplyndi mitt þá stundina;
„Að ef hann væri að leita sér fræðilegrar skýringa á atferli sínu eða útliti skildi hann hringja í Náttúrufræðistofnun en ekki mig.“
Síðan skellti ég á - en eftir augnablik gall hvell hringing við aftur og ég reif tækið upp og þessi dæmalausi maður hann frændi sagði eins og ekkert hefði í skorist;
„Það þýðir ekkert frændi, það yrði bara fræðilegt tal en engin niðurstaða. Það fæst aldrei niðurstaða ræði maður við fræðimenn, því þeir fara alltaf að tala um líkurnar á hinu og þessu. Nei, best er að hugleiða svona flókin mál við þann sem hefur einfaldan hugsunargang líkt og þú. Mann sem lætur ekki gáfur sínar flækjast fyrir sér að óþörfu og þess vegna spyr ég frændi, er maðurinn api?“
„Hverslags spurning er þetta um miðja nótt,“ öskra ég inn í tólið og í eyra hans og bæti við; „Fékkstu einhverja tilfinningu fyrir uppruna þínum þegar þú hékkst á löppunum í gálganum uppi á spítala. Fannstu fyrir einhverjum skyldleika með þér og apa?“
„Taktu tímaskyn þitt til góðrar endurskoðunar frændi“, segir rödd hans. „Því ekki er nótt heldur er snemma kvelds. En það er aldeilis að það liggur illa á okkur Selfossbúum“ segir hann og ég heyri glettnina sjóða í hálsi hans. Hann segir alltaf "okkur Selfossbúum,“ eftir að íhaldið í Reykjavík missti borgina í hendur R-listans.
„Já frændi,“ heldur hann áfram: „það var einmitt eftir slysið í gálganum sem ég fór að hugleiða þetta með uppruna okkar. Þú veist máske ekki að ég slasaðist á spítalanum. Taugin sem hélt mér uppi í gálganum gaf sig, þegar ég reyndi að klóra mér neðst á fætinum, sem þá var reyndar orðinn efsti hlutinn af líkama mínum. En við þá tilraun mína slitnaði taugin svo ég slengdist með ógnar krafti til lofts með fæturna og búkurinn sveiflaðist allur til þegar lóðin skullu í gólfið. En lánið leikur alltaf við mig, því það varð mér til happs að konan mín elskuleg var í heimsókn og var einmitt á þeirri stundu að bjástra eitthvað til fóta við rúmið svo ég skall á henni svo hún fór í gólfið og handleggsbrotnaði ásamt öðrum minnihátta áverkum. Annar veit ég ekki hvernig farið hefði. En það merkilegasta er eftir, þegar læknirinn skoðaði taugina sem slitnaði.“ Sagði hann;
„Það þarf meira en meðal Górillu til að slíta þetta ". Og þá frændi sæll fór ég að hugleiða uppruna okkar.“

Nú var mér öllu lokið og ég sat sem lamaður og horfði á símtólið og á meðan fann ég hvernig andlitið á mér bólgnaði allt út af reiði og ekki síst eftir að ég skall um stólinn. Og með hjáróma röddu spurði ég hann: Hvort hann þyrfti að hálf drepa sig og konuna svo hann færi að hugsa. Og ef hann vildi vita sannleikann um uppruna sinn, þá sæist hann ábyggilega í öllum þeim aragrúa læknaskýrsla sem ritaðar hafa verið um hann. Og hann fengi sjálfsagt að líta á þær ef hann hefði hálft ár á lausu til lestrar.

api2„Jæja frændi sæll!“ sagði hann og varð nú hættulega vinalegur í röddinni.
„En það er einnig annað sem vakið hefur upp forvitni mína um uppruna okkar. Má ég spyrja í einlægni frændi sæll, hefur þú nokkurn tíma séð sjálfan þig dansa - nei - ekki það. En mér hefur alltaf fundist þegar þú framkvæmir þá fótamennt - að þig vanti einungis bananna í munninn og þá væri hvurjum manni uppruni ættar okkar ljós.“

Og þar sem ég sat þarna með símtólið við eyrað lamaður og reiður og orðlaus og íhugaði hvernig ég gæti svarað þessari ósvífni mannsins kallaði konan á mig og sagðist vera búin að smyrja brauð með kvöldkaffinu og það væri með bananaáleggi -

Þá fylltist ég réttlátri reiði og talaði ekki við konu mína í næstu tvo daga.


Frændi býður til veiða !!!

veidi1Fátt er eins skemmtilegt og hlusta á veiðimenn segja sannar sögur úr veiðiferðum sínum. Í þeim sögum gerast svo ótrúlegir hlutir að hver maður heldur hverja veiðisögu lygasögu. En af eigin reynslu veit ég að svo er ekki, allavega eru mínar veiðisögur allar sannleikanum samkvæmar þó ótrúlegar séu. Til marks um það er hér ein saga úr einni veiðiferð okkar frænda, en veiðitúrar með þeim manni eru hrein ævintýri allavega þegar frá líða stundir og ég hef jafnað mig að nokkru eftir samvistirnar við þennan ótrúlega mann sem hann frændi er.

Það var um fjögurleitið að nóttu og ég í fasta svefni ásamt konu minni, að í gegnum þungan svefninn heyrði ég að mikil hringing gall við. En þegar maður er í svefnrofanum er stundum erfitt að greina á milli vekjaraklukkunnar og símans og því fór sem fór, að ég barðist við klukkuna. Ég ýtti á alla takka tækisins en hún vildi ekki láta af þessum ófriði sínum og hélt áfram að öskra. Ég tróð henni undir koddann en þá virtist hún gjörsamlega brjálast og það var ekki fyrr en ég reyndi að troða henni til fóta hjá konunni, að konan reis upp og spurði hvað ég væri að að gera og dró um leið að sér fæturna.

„Hverslags djöflagangur er þetta um miðja nótt? Þér væri nær að svara í símann en djöflast á fótum mér.“ og við þau orð hennar staulaðist ég fram úr svefnherberginu og hóf leit að þessu þráðlausa friðarspillir. En það var sama hvað hann öskraði hátt og djöflaðist ég fann hann hvergi. En svo þagnaði þetta kvikendi og ég staulaðist aftur inní fletið til konu minnar. En ekki var ég fyrr lagstur á koddann en hann byrjaði að djöflast aftur.

„Hvar er síminn? ég finn hann hvergi.“ Kallaði ég til konunnar sem lá við hlið mér.
„Guð minn góður!“ Sagði konan „Ætli hann sé ekki inn á klósetti. Sastu ekki þar í gærkveldi þegar þú talaðir við prestinn?“ Og þar fann ég símann.
„Halló!“ Hrópaði ég í skapillsku minni inní tólið.
„Góðan daginn frændi!“ Sagði þá hin rólega og sérstæða rödd hans frænda og hann hélt áfram án nokkurs formála.
„Ég býð þér til Borgarfjarðar til veiða með stöng. Brottför verður frá heimili þínu eftir tvo tíma og munda að taka með þér nægilegt æti.“

Við þessi orð hans og það sem undan var gengið fór skap mitt upp um fjöll og firnindi, og í hamlausri reiði yfir þessum dæmalausa manni ætlaði ég að svara honum og segja, að hann væri hinn mesti dóni og að svo tillitslaus maður sem hann hefði aldrei gengið á jörðinni. En áður en það varð lagði hann tólið á svo ég bara öskraði inn í heyrnalausan símann:
„Það er enginn dagur, það er mið nótt. Það veit hver maður með einhverju viti.“ Svo skellti ég hróðugur símtólinu á.

Eftir að konan hafði smurt fyrir mig brauð og tekið til annað nesti til fararinnar og ég fundið flest allt annað sem þarf til svona ferðar, beið ég með nokkurri óþolinmæði eftir komu frænda. Og á slaginu sex hringdi hann dyrabjöllunni og stóð nú fyrir framan mig í allri sinni endalausu og ótrúlegu lengd, full gallaður og allur skreyttur með hinum ýmsu gerðum af flugum og túpum og púpum og öðru því agni sem hann telur nauðsynlegt að hafa til veiðar á fiski.

„Hvað er að sjá þig. Þarftu að klæðast eins og þú sért gerður úr kóngulóarvef.“ Sagði ég og brosti að útliti frænda. Og svo héldum við á vit ævintýranna.

Það var ekki fyrr en undir Hafnarfjalli að ég spurði frænda hvert halda skildi til fiskidráps. Við þessa spurningu mína snarhemlaði kóngulóarvefurinn, sté þegjandi út úr bíl sínum og tók að glápa til allra átta. Fyrst í suður svo í norður svo upp og svo niður og þetta gerði hann nokkrum sinnum. Síðan sté hann aftur inn í bílinn og þagði drjúga stund en leit síðan á mig og sagði:
„Frændi sæll, nú fór í verra. Ég hef gleymt nafni vatnsins en mig minnir að það byrji á einhverju Langsum frekar en Þversum. Og bitti nú.“

Við þessi orð hans var mér öllum lokið og ég sat sem lamaður þar til ég stundi þeirri hugmynd minni fram, að það hlyti að vera Langavatn því ekkert vatn væri svo vitlaust að heita Þversumvatn.

„Mikill snillingur er þú frændi og er ekki amalegt að hafa svona gáfumann í ættinni.“ Sagði hann um leið og hann ók af stað, en bætti síðan við:
„Gættu þess bara að hnjóta ekki um þitt mikla vit í hverju spori. Margur apinn hefur hefur farið flatur á slíku.“

Ég leiddi þessa asnalegu speki hans hjá mér, enda sá ég ekkert samhengi milli mín og apa. Héldum við síðan áfram för okkar.
Þar sem við frændur vorum báðir ókunnugir á tilvonandi veiðislóðum, gerðu við stans á bæ einum til að spyrja til vegar. Við bæ þennan var vatn nokkuð stórt og þegar bóndinn á bænum hafði leyst úr vankvæðum okkar segir frændi:
„Þetta er fallegt vatn og langar mig að reyna við fisk í þessum legi. Munum við fóstbræður fá leyfi til slíkra athafna.“

Bóndi þagði um stund við þessari beiðni en sagði svo, að það væri heimilt og það án greiðslu. Fórum við svo að tígja okkur til veiðanna og hófum svo að lemja vatnið með flugum, spúnum og möðkum. Og þarna var það sem ein veiðiflugan festist í eyra frænda. Stakkst hún í gegnum eyrað svo agnaldið stóð út öðru megin. Hvernig þetta gat gerst er mér hulið því frændi er alltaf með eyrnaskjólshúfu við veiðar. En allt um það, hann bað mig að fjarlægja þetta tilbúna kvikendi úr eyra sér og varð ég að klippa á tauminn og þræða fluguna áfram þá leið sem hún var á, á sinni óútskýranlegu ferð sinni til vatnsins. Þetta var ekki sársaukalaust fyrir eiganda eyrans enda blés hann mikinn yfir hjálpsemi minni og handlagni. Þegar ég hafði lokið þessari læknisfræðilegu aðgerð minni án þess að slíta eyrað af, rétti ég honum veiðarfærið sitt alblóðugt og hann velti því milli fingra sér og skoðaði það um nokkra stund. Leit síðan á mig og sagði:
„Mikið lán er það fyrir þjóðina að þú lærðir ekki til læknis. En ekkert skil ég eftir þessa reynslu mína, hversvegna kvenfólkið vilji vera með eyrnalokka.“

Síðan héldum við áfram að lemja vatnið og hættum ekki fyrr en komið var fram á kvöld. En ekki urðum við fiskjar varir. Þegar við höfðum fengið okkur fullsadda af baráttunni við enga fisk fórum við að búa okkur til heimferðar og vorum heldur þegjandalegir við það starfið. Kom nú bóndinn röltandi til okkar og spurði hvort nokkur fiskur hefði gefið sig? Ég sagði sem var, að vatnið væri steindautt fyrir utan, að frændi hefði sett í einn eyrugga. Bóndi horfði yfir vatnið og sagði með hægð:
„Já, það hvarflaði að mér því í þessu vatni hefur aldrei fiskur verið svo ég viti. En ég gat bara ekki neitað ukkur um að reyna þar sem þið báðuð svo kurteislega um leyfi.“

Síðan snéri hann frá og hélt heim á leið. Þetta var kraftalegur maður og ívið lotinn um herðar. Og þar sem hann fjarlægðist okkur var ekki annað að sjá en hláturkippir færu um sterklegan skrokk mannsins þar sem hann rölti heimleiðis með hendur fyrir aftan bak og leiddi skrattann.

Og þar sem ég stóð þarna hálf lamaður eftir yfirlýsingu mannsins á fiskileysi vatnsins, var með litið upp á þetta langa og mjóva andlit frænda og sá, að um andlit hans breiddist þetta ómóstæðilega breiða og hlýja bros og hann sagði með ódulinni aðdáun í röddinni:
„Mikið ósköp er þetta skemmtilegur maður og fari hann vel, því hann leyfði okkur þó að reyna.“


Frændi á afmæli

fraendi_i_stigaHann frændi minn á eins og allir aðrir afmæli einu sinni á ári. En ekki er hægt að segja að hann gleðjist yfir þeim tímamótum í lífi sínu og verður hann því heldur kvumpinn á þessum merkis degi.
Oft hefur hann boðið okkur hjónum til sín á þessum píningardegi móður sinnar, eins og hann kallar fæðingardag sinn og þá reyni ég ávalt að færa honum eitthvað smálegt að gjöf. Og þegar hann tekur við þessum gjöfum mínum brosir hann ávalt þessu sérstaka og elskulega brosi sínu og segir;
„Frændi sæll, mikill snillingur ertu að kaupa svo litlar gjafir að þú getur falið í þínum litla lófa“.
En það segi ég satt að ekki er það vandræðalaust að færa honum gjafir, því þær verða að vera þeim eiginleikum búnar að þær valdi honum ekki óvart og af tilefnislausu skaða og þar vandast nú málið.
Einu sinni var mér það á að færa honum mjög svo fagran og hárbeittan bókahníf að gjöf. En hnífur þessi fór síðan á einhvern óskiljanlegan hátt eins og hann orðaði það, upp í munn hans og olli stórskaða á tungunni svo sauma varð í með þeim afleiðingum, að hann gat ekki mælt neina speki í nokkrar vikur án kvala.

Á þessum hátíðisdegi sínum drekkur frændi aldrei annað en te, því það er einhver versti og ómerkilegasti drykkur sem hann þekkir og þetta gerir hann að eigin sögn, eingöngu til friðþægingar vegna fæðingar sinnar.

Svo var það eitt sinnið þegar hann bauð okkur hjónum til afmælistedrykkju og við stóðum uppábúinn og vel tilhöfð fyrir framan útidyrnar á heimili hans að þar blasti við okkur miði með svohljóðandi orðsendingu ;


„Kæri frændi.
Minningartedrykkja móður minnar er frestað- en komdu á stofu 209 á handlækningardeild Landspítalans.

Þinn frændi“.

Þarna stóðum við og ég horfði á þessi skilaboð og vissi ekkert hvað gera skildi. Hafði eitthvað komið fyrir þenna langa og sérstæða mann. Var þetta eitthvað grín. Var hann að hrekkja mig einu sinni enn. Stóð hann kannske hinum meginn við dyrnar og hló af aulalegu andliti mínu þegar ég las á miðann. Var hann að hafa mig að fífli? En það skildi aldrei verða og hringdi ég því dyrabjöllunni án afláts á meðan konan togaði í mig og sagði mér að láta ekki eins og óþekkur krakki, við færum upp á spítala því hver vissi hvað hefði komið fyrir frænda.
„Ég fer ekkert upp á neinn spítala. Ég veit hann stendur fyrir innan dyrnar og brosir þessu bjánalega brosi sínu“, segi ég svo hátt að nágranakonur frænda opna hvern glugga eins og ókeypis skemmtun væri framundan.
„Ég fer heim“ segi ég við konuna þegar ég verð úrkula vonar um að frændi komi til dyra. Og svo legg ég af stað löngum þungum skrefum.
„Hvað er þetta maður“, hrópar konan á eftir mér; „ætlarðu að skilja bílinn eftir. Er allt vit farið úr kollinum á þér“, segir hún um leið og hún stöðvar göngu mína með því að hanga í frakka mínum.

Þegar við komum inná stofu 209 var ekki laust við að ég fengi kökk í hálsinn þegar ég horfði á þetta allt of langa og granna góðmenni, með sitt langa og mjóa andlit sem nú var jafn hvítt og sængurverin sem hann hvíldi undir. Það eina sem færði lit á hvítt rúmið var hár hans, sem er rautt á litin eins og nælonstrákústur og þar að auki jafnt strítt og gisið. En frændi var hressari en hann sýndist vera og heilsaði mér án þess að opna augun og sagði;

„Sæll frændi - það vissi ég að þú stæðir ekki við útidyrnar í allt kvöld. En hvíldu mig nú á einhverju heimskutali, eins og þér einum er lagið. Ég er orðinn svo þreyttur á gáfumönnum.“

Mér rann í skap við þessar aðdróttanir hans að gáfnafari mínu og spurði því nokkuð hvasst hvort hann gæti ekki opnað glyrnurnar þegar hann talaði við heiðarlega menn.
„Jú frændi“, sagði ´ann; „En maður má láta sig dreyma um einhverja fegurð en það er útilokað horfi maður á þig.“ Og svo breiddist þetta yndislega bros hans langt útfyrir andlitið og það var eins og stofan fylltist af sólskini við þetta sérstæða og skakka bros.

Þegar við frændurnir höfðum þagað í drjúga stund setti ég upp heiðarlegt andlit með öngvri forvitni í og spurði eins og út í loftið, hvað komið hefði fyrir, hvursvegna hann væri hér á þessum tedrykkjudegi.

„Ég lenti undir konunni“, sagði hann og opnaði nú fyrst þessi himinbláu og stóru augu sín.
„En gallinn var bara sá að hún stóð efst í lausa stiganum upp á geymsluloft þegar hún hrundi niður. Að vísu studdi ég við stigann svo ekkert ólán gæti hent konu mina, en þá hóf atburðarrás ferð sína og varð ekki stöðvuð. Og þar sem ég stóð og horfði upp til konunnar og bað hana að fara gætilega - duttu gleraugun af andliti mín og fóru innfyrir stigan. Nú get ég ekki gleraugnalaus verið svo ég ég fór innfyrir þessa uppfinningu og reyndi að ná til gleraugnanna en það mistókst - þar til ég sleppti stiganum sem ég átti alls ekki að gera. Og gerðist nú margt í einu. Þar sem ég beygði mig eftir andlitsprýði mínu heyrði ég ógurlegt öskur í konunni og skruðningar miklir fylgdu á eftir og áður en ég vissi skall stiginn með konunni í á baki mér svo ég flattist einhvernveginn út á gólfið og undir hvoru tveggju. En það varð mér til bjargar hversu mjór ég er, því ég passaði nokkurnveginn undir flatann stigann. En mikið getur konan öskrað hátt.“

Aldrei hafði ég heyrt frænda segja jafn mörg orð í einu og þagði því í nokkra stund áður en ég spurði hvort hann væri illa slasaður.
„Einhver himnalitur er á bakinu, gleraugun brotinn og annað eyrað virðist hafa tekið einhvert vaxtaræði. En óslasaður er ég að öðru leiti. Ég bara bíð hérna meðan þeir gera við handleggsbrot konunnar. Það er nú meira ólánið á þessarri konu að vera gift mér“, bætti hann við og úr augum hans skein öll hans ást og virðing sem hann bar til konunnar.

„En hvers vegna fórstu ekki sjálfur upp í stigan og lést konunna halda við, var það ekki gáfulegra“, sagði ég og þóttist hafa náð mér niður á honum vegna orða hans um gáfnafar annarra.
„Frændi sæll, ekki er hægt að segja að vit þitt sé það mikið, að það drjúpi út úr eyrum þér. Þetta kemur alls ekkert gáfum við heldur stálvilja konunnar. En hún heimtaði að fara sjálf í stigan því hún óttaðist eins og hún sagði, að ég færi mér að voða“.


Í boði hjá frænda

bodÞar sem skap mitt er mjög gott í dag og lund mín mjúk - eins og nýsteikt lifur í sláturstíð ætla ég að segja ykkur frá viðskiptum okkar frænda.

Eitthvað það skemmtilegasta sem kemur fyrir mig er að vera boðinn á gamlárskvöld í mat til frænda og hans elskulegu eiginkonu.

Þau matarboð eru hrein ævintýri þó ég fyllist alltaf einhverjum einkennilegum kvíða í hvert sinn sem við hjónin fáum slíkt boð því ekki tel ég víst að ég komist heill heim eftir slíkan fagnað og hef reyndar reynslu fyrir slíku. Til dæmis þegar ég asnaðist til að skera með honum kjötið og hann með sinni einskæri lagni skar í tvo fingur mína svo það blæddi nokkuð úr sárunum.

„Það blæðir úr svíninu“ sagði hann við konu sína og gerði engan greinarmun á mér og kjötinu. En þegar hann sá að það blæddi úr mér en ekki kjötinu var eins og hann tæki gleði sína aftur. Skoðaði hann síðan sárin og brosti þessu yndislega skakka brosi sínu til konu sinnar og sagði:
„Alltaf er frændi jafn laginn og náðu í plástur elskan mín svo þetta vinstrisinnaða blóð spilli ekki lengi gleði heimilisins, það væri illa farið með góða kvöldstund“.

Síðan snéri hann sér að mér og hélt áfram;
„Frændi sæll, taktu gleði þína aftur því ekki þarf í þetta sinnið að taka putta þína af um öxl“.

Í fyrsta sinni sem við hjónin fengum boð frá frænda að mæta til kvöldverðar á gamlársdag, barst okkur með póstinum í byrjun desember og var boð þetta skrifað á einhvern merarsnepil sem hann kallaði boðskort. Og heldur var skriftin klunnaleg enda skrifuð með vinstri hendi því sú hægri var í gifsi, eftir að honum hafði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að hoppa ofan á höndina á sjálfum sér og brotið þrjá fingur. Boðskort þetta geymi ég og varðveiti eins og dýrmætasta frímerki. En boðið var á þessa leið;

 

„Kæri frændi.
Svo þú riðjist ekki óboðinn inn á heimili mitt á gamlárskvöld,
býð ég þér og þinni elskilig eiginkonu til ætis þetta kveld. Matur verður framreiddur klukkan sex og skal því mæting þín vera stundvíslega klukkan fimm, svo mín góða fjölskylda hafi klukkutíma til að jafna sig á að þú ert kominn til stofu.
Í bjóði þessu skulu allir alminniligir menn vera uppáklæddir.
Þú ræður í hvurju þú ert.

Þinn frændi“.


Lengi dags sat ég með bréfasniffsi þetta milli handanna og eftir því sem ég las það oftar varð skap mitt verra.

Hvað átti þessi maður við. Var ég máske ekki alminnilegur maður. Var ég ekki eins og annað fólk. Það var hann sem var ekki líkur neinum öðrum mannverum. Svo alltof langur og alltof mjór, með þetta líka mjóva og langa andlit og með þetta skakka og asnalega bros sitt sem fór aldrei af þessu gúmíkenda og teygjanlega andliti. Honum fórst að tala um alminnilegt fólk.
„Ég fer ekki fet.“ kallaði ég til konunnar.
„Heyrirðu það frændi sæll?“ öskra ég út um opinn stofugluggan.
„Þú getur sjálfur étið þitt viðbrenda lambalæri í þínu fínu fötum með þinni góðu“ ...
„Hvað gengur á?“ segir konan um leið og hún reynir að draga mig frá glugganum.
„Ertu orðinn vitlaus einu sinni enn“.
„Ég fer aldrei í þetta bjóð“, held ég áfram að hrópa út um gluggan og held svo fast um gluggakistuna að fingur mínir verða stífir sem stálpípur þegar konan beitir mig aflsmunum og dregur mig frá þessum útsýnisstað.
„Stilltu þig maður, það eru þrjár vikur til veislunnar eða ætlarðu að vera vitlaus allann þann tíma. Guð hjálpi mér, það er fullt að fólki sem horfir hingað inn“.
Svo lætur hún mig setjast og strýkur mér um vangan svo ég róast.
Liðu nú dagarnir fram að veislutíma og hét ég því á hverju degi að fara hvergi í þennann mannfagnað hjá frænda.

En um þrjúleitið á gamlársdag spyr konan hvort ég ætli ekki í bað og klæða mig uppá svo við komumst tímalega til frænda.
„Ég fer ekkert“, segi ég og gerist hinn fúlasti í skapi og útliti.
„Jæja elskan mín, þá förum við ekkert“, segir konan; „En fötin hanga inn í skáp og hrein nærföt, skyrta og sokkar eru á rúminu. Mundu svo eftir að raka þig og láta á þig rakspíra“.
„Ég raka mig ekkert, enda er ég ekkert að fara úr mínu húsi“, segi ég og geri enga breytingu á fúllyndi mínu.

Á slaginu klukkan fimm hringi ég uppábúinn og nýrakaður dyrabjöllunni hans frænda og umsvifalaust opnast dyrnar og fyrir framan okkur stendur þessi einstaki og langi og þvengmjói maður með þetta elskulega skakka bros sitt og augu hans lýsa aðeins gleði og ánæju yfir komu okkar.
„Við erum komin“, hrópa ég hátt eins og ég óttaðist að hann heyrði ekki til mín þarna uppi“.
„Það er óþarfi að öskar framan í mig þótt gleði þín sé mikil“, segir hann um leið og þetta einstaka bros hans breiðist með leifturhraða upp og niður og út um allt andlit hans. Og ég fyrirgef honum alla þá ólund sem hann hafði valdið mér í þrjár vikur. Svona getur eitt bros gert mikið.

Þetta gamlárskvöld er mér mjög minnisstætt því ekkert slys henti frænda og var það nýlunda. Enda harðbannaði hans góða kona honum að koma í eldhúsið vegna þeirrar slysahættu sem þar gæti þá skapast. Að vísu hellti hann úr tveim fullum glösum af jólaöli yfir konu mína þegar hann steig á lítinn bíl sem óvart varð undir fótum hans, svo hann gat ekki með nokkru móti hamið þessa löngu fætur sínar. Og með kostulegum tilburðum sentist hann að konu minni þar sem hún sat og féll í kjöltu hennar með þetta langa andlit sitt og lenti einhversstaðar á milli brjósta og læra konunnar með fyrrgreindum afleiðingum. „Nú fór í verra“, sagði hann, „ætli ég hafi eyðilagt bílinn“.
En mikil varð gleði hans þegar hann sá að bílinn var óskemmdur.
Þegar klukkan var rétt fyrir miðnætti fóru allir út til að kveðja gamla árið og heilsa því nýja og maður sá angistina og kvíðan skína út úr hverju andliti, því nú var hættulegasta stund sólarhringsins fyrir frænda - þegar hann tók að skjóta flugeldum sínum. En aldrei slíku vant gekk allt stórslysalaust og þega klukkan sló tólf og nýtt ár gekk í garð og allir föðmuðust og kysstust kallaði kona frænda til hans og sagði;
„Minn elskulegur, komdu nú og kysstu mig gleðilegt ár meðan þú ert óslasaður“.
„Hvað liggur á því kona góð“, sagði frændi, „Ekkert hefst með óðagotinu og er ekki heilt ár framundan til þeirra hluta“.

Og svo hélt þessi dæmalausi maður áfram að skjóta upp sínum flugeldum.


Þegar frændi kaus Framsókn.

FrændiHafið þið tekið eftir því hversu mikið ólán hvílir á sumum mönnum. Ég á til dæmis frænda sem er með þeim ósköpum gerður, að detti spíta úr lofti dettur hún á hann, hvort sem hann er einn á víðavangi þar sem engrar spítu er von, eða hann er staddur í fjölmennri kröfugöngu um auknar og bættar slysabætur. Og hin undarlegustu slys hafa hent þennan frænda minn. Hann hefur til dæmis tábrotnað við það eitt að fara í skóna sína. Og eitt sinnið hrasaði hann svo illa að báðar axlir hans gengu úr liði bara vegna þess, að hann reyndi að hoppa yfir bananahýði sem hann óttaðist að renna á.

Þessi frændi minn er afskaplega langur og mjór maður á allann vöxt. Hann er svo mjór að í hvert sinni sem hann kaupir sér buxur kvartar hann yfir því við afgreiðslufólkið að þurfa að kaupa báðar skálmanar því efnið í annari dygði í fyrir sig.

Og hæð hans er slík að það veldur oft þeim sem er meðalmaður á hæð, ég ræði nú ekki um þá sem lægri eru, bæði erfiðleikum og þreytu í hálsliðunum að tala lengi við hann í einu. Því frændi er þannig að eigi maður við hann orðaskak verður maður að horfa upp í andlit hans, sem er svo og mjótt og langt að það virðis hvergi ætla að taka enda.

En þrátt fyrir alla þá líkamlegu erfiðleika sem fylgja samræðum við frænda, horfir maður sem dáleiddur á þetta óvenjulega andlit, því þar gerast svo mörg undur þegar hann tjáir sig. Og ég veit um fólk sem hefur átt í hinu mesta basli með að koma höfði sínu í réttar skorður eftir samtal við frænda.

Og þetta andlit hans er eitt stórt undraverk. Því á þessu langa og mjóva andliti er oftast þetta yndislega og lífsglaða bros sem virðist ná langt út fyrir þetta sérstæða andlit í hvert sinn sem hann brosir og þetta bros er þannig að enginn vill missa þess að fá það gefins.

En líf frænda er eitt ólán, hann er nefnilega alltaf að verða fyrir smá óhöppum eða hreinlega stór slysum. Til dæmis sést það ekki á fingrum hans að hann sé smiður að mennt og atvinnu því þeir eru alltaf bólgnir og marðir eftir hamarshögg.

Eitt sinnið þegar hann var allur reifaður á annarri hendinni stóðst ég ekki mátið og spurði hverju það sætti, að hann smiðurinn væri alltaf að lemja hamri á fingur sér?
Hann leit á mig og brosti þessu einstæða brosi sínu og sagði:
„Jú, sjáðu til frændi, það eru naglanir sem ég nota, þeir eru aldrei kjurrir.“

En það er sama hversu oft og alvarlega hann slasast, aldrei er hann öðruvísi en brosandi og sáttur við þá veröld sem hann býr í.

Við frændurnir ræðum oft um pólitík og oftlega hef ég haldið því fram, að einhver mesta ógæfa nokkurs manns sé að kjósa íhaldið og einmitt þar gæti frumorsök óhappa hans legið. Hann kysi alltaf íhaldið. Hann þurfi ekki annað en líta til mín, aldrei er ég innvafinn í plástra eða sárabindi. Hvað þá að ég dvelji langdvölum á slysadeildum spítala enda kysi ég alltaf eitthvað annað en íhaldið.

Hann hefur harðneitað þessari kenningu minni og bent mér á að þótt ég slasist ekki sjálfur þá gæti val mitt í pólitík valdið slíkum stórslysum á allri þjóðinn að ekki sé víst að þau slys yrðu nokkurn tíman bætt, sama hversu vel um þau sár væri búið.
„Eða heldur þú frændi sæll,“ segir hann „að það sé eitthvað skemmtimál að hafa mann eins og þig innan einnar fjölskyldu. Bara það eitt er stórslys.“
Svo brosir hann þessu vinalega og ívið skakka brosi sínu sem fær hvern mann til að þagna, af einskærri undrun yfir því hvað mannsandlitið býr yfir miklum teyjanleika.

Svo var það rétt eftir síðustu þingkosningar að kona frænda hringdi og sagði mér þær fréttir, að þessi ljúfi og lífsglaði frændi minn lægi stórslasaður á spítala. Hann hafði orðið fyrir bíl rétt hjá kjörstað, þaðan sem hann var að koma frá kosningu.

Og það sagði hann sjálfur bætti hún við „Að ekki gætir þú aukið kvöl hans þótt þú kæmi í heimsókn, og væri það til marks um hversu andlegar kvalir hans væru miklar.“

Þegar ég kom til hans á spítalann varð mér brugðið. Þarna hékk þessi lífsglaði frændi minn á báðum fótum í einhvers konar gálga og sneri því höfuð hans niður eða svo til. En ól var strengd um axlir hans og út í vegg og togaði á móti svo nær væri að segja að hann hafi hangið í vinkill.

Þegar ég sá hann hanga svona fylltist brjóst mitt af einkennilegum sársauka og einhver kökkur stíflaði háls minn. Ég ætlaði því að læðast út aftur en heyrði hann þá hvísla;

„Sæll frændi. Loks kemur einhver með litlu viti sem ég get talað við án þess að reyna of mikið á mig. Stattu ekki þarna með svip eins og pækilsaltaður hrútspungur, fáðu þér heldur sæti.“

Ég settist hjá þessum sérstæða manni og vissi ekki hvað ég átti að segja svo ég þagði og horfði bara á þetta einstæða og lífsglaða bros sem lék um þetta allt of langa andlit sem nú hékk á hvolfi fyrir mér og leit því öðruvísi út en ég átti að venjast.

Eftir nokkra þögn segir hann;
„Heyrðu frændi þennan fjanda geri ég ekki aftur.“
Ég sagðist trúa því, „Enda hlypu menn ekki fyrir bíla þótt þeir kysu íhaldið á fjögra ára fresti. Það væri að mínum dómi of langt gengið, þótt hugmyndin væri góð.“
„Ég á ekki við það heldur hitt, að trúa þessu um ólán mitt og íhaldið eins og þú hefur haldið fram. Nú veit ég að það er ekki satt.“
„Hvað er þetta“ segi ég. „Ætlarðu að fara að tala um pólitík, hangandi uppi á afturendanum eins og skreið.“
„Já frændi sæll, því sjáðu nú til, þetta var nefnilega stór pólitískt slys. Því í fyrsta sinni á ævi minni kaus ég ekki íhaldið heldur framsókn - og sjáðu afleiðingarnar.“

Eftir þessi orð frænda þögðum við báðir langa stund og hugleiddum þær afleiðingar sem fylgir því að kjósa framsókn.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband