Færsluflokkur: Af mér og fjölskyldu minni

Gvendur magalausi.

gvendu_magalausiSumarið var búið, haustið komið og réttirnar búnar. Ég var aftur kominn til Reykjavíkur úr sveitadvöl minni fyrir vestan og beið þess nú þess eins í leiðindum að skólagangan hæfist aftur og þá yrðu ennþá meiri leiðindi .Sláturtíð var hafin. Að vísu þurfti ég ekki að láta mér leiðast þarna í höfuðkaupstaðnum, því fyrir stráka sem voru full frískir og heilbrigðir í anda var nóg að starfa. Til dæmis styttu við strákarnir okkur oft stundir við allskyns strákapör og hrekki. Það var mjög vinsælt hjá okkur t.d. að strjúka korktappa við stofurúðurnar þar sem fólk sat inn og hlustaði á útvarpið. En af viðkomu korksins við glerið ,myndaðist ótrúlegt og eymdarlegt ískrandi hljóð inn í stofu svo ekki var gerlegt að sitja þar í næði og hlusta á útvarpið. Komu þá karlarnir arfavitlausir út og vildu ná okkur til hegninga, en þar sem við þekktum hvern krók og hvern kima í hverfinu og höfðum fyrirfram ákveðið allar flóttaleiðir, sluppum við alltaf nema Siggi langi sem var mjög hægfara á flóttanum og fékk hann því alla þá hegningu sem ætluð var okkur fjórum vinunum. En Siggi langi tók þeim refsingum sem á hann voru lagðar með mestu ró því allt þetta var svo helvíti gaman.

Nú var það svo að Gvendur pabbi Sigga langa var einhver sá grennsti maður sem ég hef augum barið á lífsferli mínum. Og ég held að hann sé einnig einhver þöglasti maður sem búið hefur á landinu frá upphafi, þó var hann ekki mállaus. Aldrei heyrði ég hann segja orð við okkur strákana og var þá sama hvaða djöflagang við framkvæmdum í návist hans. Hann var alltaf jafn þögull og í minningunni man ég ekki eftir hvernig rödd hans hljómaði. En þessi maður var ekki eins og allir aðrir, því í hann vantaði mestan hlutann af maganum sem hafði verið skorinn í burtu. Og þarna er sem sagt komin skýringin á því hvers vegna Gvendur var svona mjósleginn. Enda sagði Siggi sjálfur, að pabbi sinn gæti aðeins borðað hálfa rúgbrauðsneið í einu og þá væri hann saddur:

„Já, það er alveg býsn hvað pabbi getur étið lítið. Ef hann étur heila brauðsneið með osti þá sést hún framan á honum. Það er hryllilegt,“ sagði Siggi og reyndi að skapa samúð með föður sínum.

Það var sem sagt komin sláturtíð og mamma og pabbi höfðu tekið nokkur slátur og stóðu nú að verkun á innmatnum fram í þvottahúsi. Og þar sá ég vambirnar í bala og þá skaut upp þeirri hugsun hjá mér, að ef mér tækist að stela einni vömbinni, þá gæti ég bjargað matarlyst Gvendar magalausa. Og við þessa hugsun mína hló ég inn í mér.

Ég sætti nú færis þegar foreldra mínir tóku sér smá hvíld frá amstrinu  læddist fram í þvottahúsið og stal einni vömbinni, stakk henni blautri niður í tóma skólatösku og hljóp sem fætur toguðu til Bigga ofvita vinar míns. Ég sagði honum frá þeim óborganlega hrekk sem ég hafði í bígerð, en til þess að hægt yrði að framkvæma þetta snilldarbragð mitt yrði að skrifa bréf. Og því leitaði ég til hans sem sanns vinar og mætti hann nú ekki bregðast fóstbróður í raun. Enda hefði hann einn okkar vinanna aðgang að ritvél.

Biggi ofviti sem var alltaf tilbúinn í allt sama hversu vitlaust og glæfralegt það var, leit til mín og sagði: „Mikið snilldarbragð hefur þú upphugsað og höldu því til verksins og skrifum þetta ódauðlega bréf til Gvendar.“

Tókum við síðan til við bréfaskriftirnar og að lokum hljóðaði bréfið til Gvendar magalausa eitthvað í þessa veru:

„Herra Gvendur.
Þar sem ég tók óvart of mikið af vömbinni þinni þá sendi ég þér hér með nýjust gerð að varamaga, sem er nýjasta undrið í læknavísindum. Til þess að hann brúkist rétt þá skaltu setja hann fyrir neðan naflann og festa vel með sláturgarni. Hafðu hann samt ekki svo síðan að þú getir ekki mígið. það er von mín að eftir þessa aðgerð getur þú étið meira en hálfa brauðsneið í mál.“
Læknirinn.

Ofvitinn renndi augum sínum gáfulega eftir hverju línu bréfsins og sagði síðan:

„Mikið andskoti er þetta gott bréf. En heyrðu Dóri, mikið djöfull væri gaman að setja einnig einn hrútspung með vömbinni. Það væri æðislegt að sjá Gvend reyna að festa honum með sláturgarni við sinn gamla, ha-ha-ha. Og þegar Gvendur færi að hátta segði Stína „Elsku Gvendur minn magalausi, hvað ertu að gera með þetta. Dugar þér ekki lengur einn?“
„Ha-ha-ha,“ hló sá gáfaði og hélt áfram að lýsa draumum sínum um eymdarástand Gvendar magalausa með viðbundinn hrútspunginn milli fóta sér.

Eftir bréfaskriftina var næst á dagskrá að koma vömbinni heim til Gvendar án þess að eftir yrði tekið. Pökkuðum við sendingunni inn í pappakassa, límdum bréfið á kassann og lögðum síðan í þessa hættulegu póstferð. Allt gekk að óskum, úthurðin var opin svo við laumuðum sendingunni inn fyrir dyrnar og hlupum svo í burtu eins og lífið væri í húfi.

Leið nú þessi dagur framundir kvöldmat en þá sé ég hvar sá magalausi kemur út um dyrnar heima hjá sér. Og þegar hann sér mig tekur hann til við að hlaupa í átt til mín og sýnist hann nú mjórri en nokkru sinni fyrr. Auk þess sá ég ekki betur en að maðurinn væri sífellt að skipta um lit í andlitinu. Stelpurnar sem voru í parís hættu leik sínum og horfði í forundri á þennan veiklulega og magalausa mann, sem með ógnarhraða stefndi í átt til mín og var stundum dumbrauður ella helblár í andlitinu. En ég þekkti hverfið betur en hann og var einnig fljótari á fæti og slapp því undan reiði mannsins.

Þegar ég nokkru seinna kom heim var ég ekki fyrr kominn úr gúmmítúttunum en karl faðir minn snaraðist fram á gang, tók ógnar fast um herðar mér og vippaði mér án nokkurra orða fram í þvottahús. Sleppti mér þar á miðju gólfi og sagði mér að setjast. Ég benti honum á, að þarna væri ekkert til að setjast á og því gæti ég ekki sest.
„Sestu!“ sagði pabbi og benti á blautt gólfið.
„Það er rennblautt. Ég get ekki sest í bleytuna enda verður mamma þá reið,“ sagði ég og þóttist hafa snúið á karl föður minn.
„Það gerir ekkert til. Ég get þá sagt krökkunum í götunni að þú hafir mígið í buxurnar af hræðslu við að sitja hér í myrkrinu.“

Við þessi orð hans var ég viss um að sá gamli væri orðinn jafnvitlaus og Gvendur magalaus. Og settist ég því í bleytuna.

„Hvar er gorvömbin sem þú stalst frá mömmu þinni. Og enga lýi hér til að komast hjá hegningu. Og sjáðu til, við hvert ósatt orð skaltu þrífa eina vömb og ekki bara hér heldur einnig hjá Guðmundi og Stínu. Og út með sannleikan, hvar er vömbin?“

„Ætli Stína sé ekki að reyna að binda vömbina framann á Gvend og kannske líka punginn?“ sagði ég og vildi ekki sleppa ótuktinni úr mér.

„Mér koma engir pungar við, mínir eru allir hér. Og þú litla óhræsi ferð ekki í skólann á morgun. Þú verðu hér og mörhreinsar allan þann ristil sem hreinsa þarf og það eru nokkrir metrar. Og héðan kemur þú ekki fram fyrr en ég segi. Er það skilið?“

Ég sagði ekkert því ég fann hve skömm mín var mikil. Að vera látinn sitja rassblautur, matarlaus í myrkvuðu þvottahúsinu, þar sem jafnvel draugar gátu leynst var meiri skömm en nokkur strákur getur þolað. Og ég fann hvernig ég minnkaði úr ósvífnu og hræðilegu hrekkjusvíni í lítinn og hræddan strák. Tíminn í þessu myrkvaða þvottahúsi ætlaði aldrei að líða og ég þorði ekki að standa upp af gólfinu af ótta við, að einhver ósýnileg hönd kæmi út úr myrkrinu og þrýsti mér aftur niður á blautt gólfið.

Svo opnuðust dyrnar og ljósið var kveikt. Pabbi kom inn, horfði á mig og spurði hvernig mér liði og hvort ódámurinn væri farinn úr mér? Ef svo væri ekki þá kæmi ég ekki fram í bráð.

„Hann er farinn.“ Sagði ég heldur lágróma.
„Hvert fór hann?“ Spurði refsivöndurinn.
„Vonandi heim til Gvendar magalausa.“ Sagði ég með nokkru stolti í röddinni.
„Já, það vona ég líka.“ sagði pabbi og brosti og það var eins og hann væri allt í einu orðinn ánægður og stoltur af þessu rassblauta strákóféti sínu. Enda þótti föður mínum lítið varið í þá foreldra sem voru alltaf að klagast yfir hrekkjum og öðru eðlilegu athæfi eðlilegra barna. Og sagði því oftar en ekki, að slíkir foreldrar væru hvimleiðari en öll hrekkjusvínin í Norðurmýrinni. Og hafi hann þökk fyrir þá kennslu sína.


Að fá kosningarétt.

Þótt ekki séu neinar kosningar í nánd svo vitað sé langar mig að segja hér frá þegar ég öðlaðist kosningarétt í fyrsta sinni.

 

Mikið öfunda ég allt það unga fólk sem um þessar mundir öðlast kosningarétt. Ég öfunda það vegna þess að í dag er þetta unga fólk miklu upplýstara um stjórnmál en við sem fengum þennan sama rétt á tímum kaldastríðsins og járntjaldsins. En á þeim tíma fékk almenningur alla sína pólitísku uppfræðslu úr niðurnjörvuðum flokksblöðum sem svifust einskis í áróðri sínum. Voru síður þessara flokksblaða uppfullar af hreinum lygum og hálfsannleik um andstæðinganna, sem oftar en ekki voru sagðir slík illmenni og ófreskjur í pólitískum gjörðum sínum, að landi og þjóð stafaði stórhætta af tilvist þeirra og ættu því sumir þeirra að geymast inn á Kleppi og það í spennitreyju. Á þessum tíma var pólitíkin annað hvort blá eða rauð. Í hinu pólitíska litrófi voru aðrir litir ekki til, nema að vera skyldi að það örlaði máske fyrir einhverri grænni slikju á Framsókn.

Já, ég öfunda þá sem um þessar mundir geta myndað sér lífskoðun án þess ofurvalds sem flokksblöðin höfðu á skoðunarmyndun almennings á þessum tíma.

 

Annars var það mér mikil raun að öðlast kosningarétt og er ég varla búinn að jafna mig á þeim feng mínum enn þá. En þar sem á þessum tíma vantaði alla pólitíska uppfræðslu fyrir okkur unga fólkið, skildi ég t.d. ekki vel hvernig ég ætti að nálgast þennan rétt minn. Hvort hann yrði sendur mér í pósti eða ég sjálfur yrði að fara á einhverja opinbera skrifstofu sem hafði með úthlutun kosningarréttar að gera. Þetta var skiljanleg hugsun því á þessum tíma voru allskyns stofnanir sem gerðu ekki annað en úthluta allskonar leyfum og uppáskriftum. Og oft las maður í blöðunum um þá flokksspillingu sem ríkti á þessum úthlutunarstofnunum og að þar fengu þeir einir úrlausn sinna mála sem þá stundina tilheyrðu réttum flokki. Skildist mér á allri umræðu að oftast fengi fólk neitun við beiðnum sínum á þessum kontórum. Helst að fólk fengi einhverja fyrirgreiðslu ef það væri heildsali ella bóndi og tilheyrðu þá íhaldinu eða framsókn. Kommarnir fengu aldrei nein leyfi.

Í þessum þrengingum mínum um minn eigin kosningarétt sá ég ekki annað ráð en leita mér uppfræðslu hjá mér skynsamari manni og spurði hann því hvort ég fengi bréf?

 

“Bréf”, sagði sá skynsami. “Til hvurs þarftu bréf. Hver ætli svo sem að skrifi þér bréf og þá til hvurs? Nei, þetta liggur allt í hendi og þú þarft ekkert bréf”.

“Fer ég þá á úthlutunarkontór?”, spurði ég með kvíða í röddinni.

“Nei, ætli það. Ekki held ég það nú. Nema þá helst til skömmtunarstjóra, en hann segir nei við öllum beiðnum”.

“En samkvæmt stjórnarskránni á ég að fá kosningaréttinn núna. Hann getur barasta ekki sagt nei. Það væri brot á rétti mínum”.

“ Brot og já, kannske það. En máske eðlilegt brot ef maður hugar að viti þínu. En svaraðu mér einu. Finnst þér, að strákhvolpur sem þú sem varla örlar á að hafi nokkurn snefil af hvolpaviti eigi að fá að hafa örlög þjóðarinnar í hendi sér með atkvæði sínu á kjördegi?”.

 

Ég velti þessari spurningu hans um stund fyrir mér og sagði síðan:

“Þó svo að skömmtunarstjóri meini mér ekki þátttökunnar, þá fæ ég ekki séð að atkvæði mitt skipi miklu máli fyrir örlög þjóðarinnar. Og fyrst þú mynntist á hvolpavit, þá hef ég þau einu kynni að hundhvolpum, að margur þeirra hefur meira vit en sumir sem njóta kosningaréttar”.

 

“Jesús María og allir árar andskotans. Hvurslags vanviti ertu? Veistu ekki einu sinni hvað hvolpavit er? En nóg um þetta. Þú ferð bara á kjörstað og kýst og svo er það búið.En eitt vil ég þó segja þér í fyllstu alvöru. Pólitík er samsuða af lygi og sannleika og því gildir það eitt að kjósa bara eftir sinni eigin sannfæringu, en ekki fyrir orð eða vilja annarra. Ef þú gerir það þá verður samviska þín alltaf hrein gagnvart gjörðum þínum við kjörborðið”.

Þessi síðustu orð vinar míns hef ég síðan alltaf haft að leiðarljósi við kosningar og því kýs ég alltaf rétt. Og geri aðrir betur.

 

 


Símagabb í þá gömlu góðu daga.

Þegar maður hugsar til baka og íhugar allar þær tæknibreytingar sem orðið hafa hjá þjóðinni á síðustu fimmtíu árum liggur við að maður gefist upp á þeirri hugsun, því svo miklar hafa breytingarnar orðið og sem betur fer eru þær flestar til góðs.

Tökum til dæmis símann þennan friðarspillir þegar ég var að alast upp og dvaldi á sumrin hjá góðu fólki vestur á Snæfellssnesi var enginn sími á bæjunum heldur var sím- og póststöð á einum bænum. Og þegar einhver þurfti að hringja eða í hann var hringt þurfti viðkomandi að rölta sér heila bæjarleið eða margar til að tala í þetta mikla undratæki sem síminn var. En svo breyttist þetta allt saman og gamli góði sveitasíminn kom á hvern bæ og þá var nú fyrst gaman að lifa. En sá kostur var við þessa gömlu sveitasíma að allir gátu hlustað á það sem þar var sagt og var slíkt ekki látið ónotað. Til dæmis var hún Steinselja í Koti all drjúg við hlerun og það áttu strákarnir í sveitinni til (ég tek fram að ég var ekki í þeim hópi enda bæði hrekklaus og kjarklaus fram á þennan dag) Já þeir áttu það til að ljúga svo hressilega í símann að ég efast um að séra Árni þórarinsson eða Þórbergur Þórðarson hefðu trúað þeim sögum þótt þeir hefðu mátt heyra og var Helgi vinur minn á Hólsmýri og bræður hans  drýgstir við símahrekkina. En Steinka trúði og bar sögurnar um allt. Og stundum fór allt í háaloft í sveitinni vegna þessa. Til dæmis setti Brandur gamli hreppstjóri eitt sinn upp hreppstjórahúfuna og fór á stjá þegar hann frétti eftir Steinku í Koti – að strákódámanir á Hólsmýri og heimskinginn í Völlum (en það var ég) ætluðu að fara á skyttirí og skjóta alla þá hunda í innsveitinni sem væru af erlendu bergi brotnir en ekki íslenskir. Og bændurnir sögðu að strákandskotunum væri vel trúandi til verknaðarins, enda væru þeir allir hernámsandstæðingar og kommúnistar og var helst að skilja að slíkir skaðræðismenn væru hættulegir öllu lífríki í landinu og ættu því að vera í tukthúsi við harðan kost.

Eftir að saga þessi fór hamförum um sveitina þorðu viðkomandi bændur ekki annað en geyma hundana sína innivið og það í tæpar tvær vikur af einskærum ótta við aftöku þeirra, það er að segja hundanna en ekki bændanna. Og voru hundarnir þeim vita gagnlausir á meðan og var það bændunum mjög bagalegt því þetta var einmitt á rúningstímanum og hundarnir þar að auki ýlfrandi og gólandi af vanlíðan allan daginn en þó mest á nóttunni. Og eftir að Brandur hreppstjóri var knúinn af bændum innsveitarinnar til aðgerða gegn tilvonandi hundamorðingjum hóf hann rannsókn í málinu og vitanlega byrjaði hann yfirheyrslur sínar á mér og síðan ræddi hann við annað heimilisfólk hvað það vissi um fyrirhugað hundaskyttirí. Ég sagði sem var að helvítið hann Helgi á Hólsmýri hefði logið þessu í símann,ég væri saklaus af þessari synd enda væri ég gull af unglingi að vera. Ekki veit ég hvort Brandur hreppstjóri trúði þessu sjálfsáliti mínu mér er það hreinlega til efs, því hann sagði að góðir unglingar hegðu sér ekki eins og fullorðin fífl. Reið Brandur síðan að Hólsmýri og hundskammaði Helga vin minn fyrir að standa fyrir símalygum um sveitina.”Já og láttu það vera hænsnið þitt að ljúga athæfi þínu upp á heimskingjann á Völlum því það vita allir hér um sveit að hann hefur hvorki hugmyndaflug né getu til svoddan hrekkjabragða”.

En þegar sannleikurinn var kominn í ljós þá urðu bændurnir í innsveitinni allir sem einn alveg hrútvitlausir og hundóðir útí okkur strákana og sögðu, að það hefði þó verið skárra að sagan hefði reynst sönn, því nú væru þeir sjálfir hafðir að athlægi um allar nálægar sveitir en stráka djöflarnir væru dáðir fyrir hrekkinn.

Í dag er það skoðun mín að allar þær tækniframfarir á símum sé afturför frá gamla góða sveitasímanum.

 


Farið til veiða. (Seinni hluti)

Seinni hluti.

fiskurÉg sat hljóður og fáskiptinn undir stýri bílsins allt þar til við komum á áfangastað. En þegar á áfangastað er komið er það mitt fyrsta verk að velja gott tjaldstæði og hefja tjöldun. En nú verð ég að játa, að það verk vefst stundum fyrir mér, því fyrir ekki mörgum árum síðan keypti ég okkur hjónum forláta sænskt tjald. Tjald þetta leit ákaflega vel og fallega út á mynd og var sagt vera svo einfalt og fljótlegt í uppsetningu að hver meðal auli gæti tjaldað því á fimm mínútum. Og þar sem það væri einnig með sérstakri gerð af súlum stæðist það mikinn veðurham. En það eru einmitt þessar sérstaklegu gerðu súlur sem urðu þess valdandi að í fyrstu tók það mig um einn og hálfan tíma að reisa þetta einfalda tjald. Og sjá því allir að ég er enginn meðalauli eins og sagði í auglýsingunni. Einhvern veginn var mér fyrirmunað að koma þessum tuttugu og þrem súlubitum saman, annað hvort urðu súlunnar alltof langar eða helmingi of stuttar. Stundum urðu þær bognar til endana eða tók einhverskonar u-beygju í miðjunni. Og í hvert sinn sem ég hélt mig búinn að koma þessu einfalda drasli saman, skreið ég inn í tjaldið með allt byggingarefnið á eftir mér og þar inni barðist ég vonlausri baráttu bæði við tjaldið og við þessa vitlausu sænsku súluhönnun.

En meðan ég baslaði við þetta óskiljanlega og flókna verk í byggingarlist stóð konan álengdar og sá ég ekki betur, en að um huga hennar færu mjög svo skemmtilegar hugsanir, því um andlit hennar lék öðru hvoru líka þetta stóra og glettna bros eða dillandi hlátur hennar barst út í sumarkyrrðina. En að lokum fór þó svo að tjaldið komst upp og var það sameiginlegu átaki okkar hjóna að þakka. Konan raðaði saman súlunum og rétti mér síðan inn í tjaldið og þar setti ég hverja súlu á sinn stað eftir fyrirmælum konunnar. Og alltaf hef ég dáðs af því síðan hversu fljót hún var að sjá út hina flóknu byggingarlist tjaldsins. Í dag get ég hjálparlaust komið þessu einfalda tjaldi upp því konan pakkar hverja súlu fyrir sig og merkti hvern súlubita með tölunum 1-2-3-4 - svo nú er það leikur einn fyrir mig að tjalda hjálpi konan mér við verkið.

Eftir góðan snæðing og ilmandi kaffi sem við hjón útbúum í sameiningu á meðan ég tek til veiðiáhöldin, höldum til veiðanna. Ég ber allar birgðir mínar í bakpoka og í plastpoka og í sérhannaðri og rándýrri veiðitösku, og stangirnar þrjár rísa tignarlega upp úr festingum sínum á bakpokanum. Og ekki skemmir það fyrir þeim sem mig sjá, að ég er fullklæddur í forlátan veiðigalla sem er í felulitum, og sérstaklega hannaður svo fiskurinn sjái mig ekki. Og svo er ég með veiðihatt á höfði sem er alsettur skrautlegum flugum af öllum stærðum og gerðum, litum og lögun. En konan heldur bara á þessari einu stöng sinni og á hana hefur hún fest einn spún eða flot og neðst á taumnum hangir öngull. Þegar kemur að vatninu skyggi ég vatnið með sérslípuðum veiðimannagleraugum og reyni að sjá hvar fiskurinn gæti haldið sig, en konan labbar barasta beint af augum niður á vatnsbakkann og sveiflar stöng sinn á sinn eigin hátt sem er án alls veiðistíls.

„Ekki finnst mér líkur á að hann haldi sig hér“, segi ég og horfi með speki og þekkingu hins sanna veiðimanns til botns í vatninu.
„Ætli ég rölti ekki inn á tangann sem skagar þarna út í vatnið. Ég held að hann sé að vaka þar. Kemur þú með kona?“

„Æi nei“, segir mín elskilig, „Ég nenni ekki þessu sífeldu rápi um bakkann. Farðu bar einn í þessa Bjarmalandsför þína, en gættu þín á dýpinu svo ekki fari sem síðast þegar ég varð að vaða út í vatnið upp að brjóstum, krækja í þig með spúninum og draga þig að landi því þú hafðir asnast út í dýpið og flaust svo ósjálfbjarga á vatninu eins og útblásinn plastpoki frá kaupfélaginu.“

Eftir þessa frásögn hennar af fyrrgreindu óhappi mínu segi ég bara:
„Jæja“, og lít til lofts og síðan á klukkuna:
„Það er nú orðið svo framorðið.Ætli maður verði ekki bara hér en fari hitt á morgun. Já, ætli ekki það. Enda erum við þá saman við veiðar og ég get hjálpað þér ástin mín ef þú lendir í nokkrum vandræðum.“ Síðan legg ég allt dótið frá mér og vel stöng og spún og byrja veiðar.
Það eru svo sem tuttugu metrar á milli okkar hjóna þar sem við stöndum á vatnbakkanum og sé ég því stuttu seinna, að konan verður vör fiskjar og innan skamms er hún komin með væna bleikju á land og eftir nokkur köst landar hún annarri og svo þeirri þriðju.

kona„Hér er allt fullt af fiski“, kallar hún. „Hann tekur svartan Tobý.“

Ég skipti um agn og læt 15 gramma svartan Tobý á tauminn en það er sama, ég verð ekki var við neinn fisk, sama hvað ég grýti beitu minni oft og langt út í vatnið. En á meðan landar kona þrem bleikjum í viðbót. Ég reyni að láta þetta ekki fara í skap mér en skipti þó um agn og læt nú maðk á og horfi svo vökulum augum á flotið en ekkert gerist, það bara flýtur á yfirborði vatnsins. Ekki nart að sjá, þar til allt í einu að það hverfur undir yfirborð vatnsins og ég finn hinu einu sönnu veiðitilfinningu hríslast um allan skrokkinn:
„Ég er með ´ann!“, hrópa ég stoltur til konunnar og byrja að berjast við fiskinn sem heldur fast á móti í byrjun en gefst síðan upp fyrir kunnáttu minni og veiðitækni.

veidimadur„Já, þarna náði ég þér“, segi ég við fiskinn úr djúpinu um leið og ég dreg hann á land. En stærð þessa fisks var ekki mikil, eiginlega er ekki hægt að tala um stærð heldur um smæð hans. Og þegar ég hef náð veiðinni af önglinum kasta ég aftur og sé þá að konan er að landa einni bleikjunni enn. Og eftir sínar óveiðimannslegu tilburði leggur hún frá sér stöngina og stikar síðan af stað í átt til mín.
„Hvert ertu að fara“, kalla ég til hennar, en hún heyrir ekkert og er óðar komin til mín.
„Hvar er bleikjan“, spyr hún og lítur á fiskinn þar sem hann liggur falinn milli steina.
„Óskapar kríli er þetta“, heldur frúin áfram og bætir við;
„Ég er búinn að landa átta stykkjum og engin undir tveim pundum og allt upp í þrjú pund.“
„Minn fiskur er ekkert lítil“, segi ég og gerist svolítið fúll vegna þarflausu athugasemda konunnar.
„Ég sé ekki betur en hann sé mjög stór eftir aldri. Já, meira að segja frekar stór eftir aldri“, bæti ég við um leið og ég dreg færið að landi.
„Mínir eru stærri og eru þeir þó nokkrum árum yngri“, segir konan og reynir að vera fyndin.
„En verum nú saman þar sem ég hef staðið. Má vera að þú fáir þar stærri þumlung en þetta“, segir hún brosandi. Eftir nokkra þögn svara ég henni með þeim orðum:
„Að máske sé það best, því það sé styttra til höfuðstöðva okkar þaðan en héðan.“

Og svo færði ég mig til konunnar og byrja veiðiskapinn að nýju. En það er sama þótt ég standi við hlið hennar, notaði sama agn og hún, kastaði sömu vegalengd út í vatnið og hún, hún veiðir en ég ekki. Þótt ég sé yfirleitt ánægður með konu mína þá gat ekki hjá því farið, að með þessu framferði sínu færi hún nokkuð í skap mitt og gerðist ég því fámáll og þögull þarna á vatnsbakkanum, og það um langan tíma. En á meðan dró hún bara fleiri fiska og var óþolandi ánægð með sjálfa sig. Að endingu stóðst ég ekki mátið og sagði:
„Þarftu ekki að fara að huga að kvöldverði kona. Er það virkilega meiningin að ég svelta í hel á meðan þú stundar þessa rányrkju þína.“

Nú horfði konan á mig þeim augum sem ekki verða misskilin og sagði:
„Herra veiðisár og veiðifúll, ef þú er svangur skalt bara éta þinn eina fisk. Ekki verður það stærð hans að kenna, þótt hann standi í þér eins og eplið stóð forðum í kerlingunni.“
Svo þagði hún nokkra stund og bætti við með röddu sem var einkennilega blíð;
„En elskan mín ef þú vilt ekki borðar þessa dagsveiði þína þá skal ég bera hana heim að tjaldi. Þú hefur víst nóg með að bera allan þinn sérstaka og sérhannaða veiðiútbúnað. Og ef þú verður á undan heim í tjaldstæði þá heltu upp á kaffidreitil. svo máttu smyrja brauð og taka upp kex og kökur, flatkökur, skonsur og þess háttar.“

Ég greindi þessa upptalningu hennar í fjarska því ég var lagður á stað í náttstað og þar sem ég gekk út úr þessari upptalningu, þá skildi ég vel alla þá veiðimenn sem fara einir af stað til veiða á laugardagsmorgnum.


Farið til veiða. (Fyrri hluti)

 Fyrri hluti.

veidi2Eitt að því allra skemmtilegasta sem ég tek mér fyrir hendur, er að fara á heiðar upp og veiða mér silung til matar. Og þegar ég tala um veiðar er ég ekki að tala um veiðar í net, heldur um veiðar á stöng eins og sannir veiðimenn ástunda af mestu hógværð og lítillæti í veiðiáráttu sinni. En allar slíkar fjalla- og veiðiferðir kosta sérhvern sannan veiðimann langan og nákvæman undirbúning, því illgerlegt er að hlaupa heim ofan af háfjöllum hafi konan t.d. gleymt einhverjum nauðsynlegum fatnaði, sem hún átti að setja fyrir mig niður í tösku.

Allar mínar veiðiferðir skipulegg ég af mikilli kostgæfni og mikilli vandvirkni. Fer ekki til veiða nema að vel íhuguðu máli. Til dæmis er ég ekki einn þeirra manna sem segir við konu sína á laugardagsmorgni:
„Heyrðu, ég þarf að fara til veiða í dag. Þarft þú ekki að vera heima og þurka af og skúra, setja í þvottavélina, brjóta saman og strauja þvottinn. Já og þarftu ekki einnig að bóna stofugólfið. Mér sýnist það. Já, mér datt það í hug. Heyrðu, ég fer þá barasta einn einu sinni enn.“
Og svo er viðkomandi veiðibesefi farinn frá konu sinni og ógerðum heimilisverkum. Nei,ég kem ekki þannig fram við konu mina. Ég sýni henni ekki slíka karlrembu.

Ætli ég til veiða fer ég strax í byrjun vikunnar að undirbúa fyrirhugaða veiðiferð með því að segja konu minni, að hella nú upp á kaffidreitil og koma svo með bolla, mjólk og annað meðlæti til mín inn í stofu, því ég þurfi að ræða við hana um frábæra hugmynd sem skotið hefði rótum í huga mér og ég þurfi að bera undir hana.
Þegar hún hefur gert sem henni var boðið sest hún ánægð og sæl við hlið mér og þá segi ég gjarnan við hana:
„Mín yndisleg - hvernig er ástandið hjá þér um næstu helgi, ertu að vinna, getum við farið fram til heiða og notið náttúrunnar við svanasöng og ilm grasa um leið og við göngum hönd í hönd um ósnortnar víðlendur landsins. Er nokkuð því til fyrirstöðu að við fáum notið samvistar í tjaldi í tvær eða þrjár nætur.“

Og alltaf þykist hún vera jafn undrandi á tillitsemi minni og jákvæðni og hún horfir á mig líka þessum ástríku og stóru augum og segir:
„Ætli ég reyni ekki að bögglast með þér í eina veiðiferðina enn svo þú komist án allra áverka aftur heim.“

Já, alltaf fellur hún fyrir þeirri rómatísku stemmingu sem ég skapa í kringum okkur og sem mér tekst svo vel að viðhalda í hjónabandinu.

Eftir að konan hefur samþykkt uppástungu mína um komandi veiðiferð byrja ég strax á undirbúningi ferðarinnar með því að fara fram í bílskúr til að finna og yfirfara veiðidótið. En þá bregður oftar við en ekki, að veiðidótið hefur á einhvern óskiljanlegan hátt horfið og virðist þá sama þótt veiðiboxið, veiðitaskan og veiðihjólin eigi alltaf að vera í þriðju hillu lengst til vinstri. Þaðan er það horfið og þótt ég umsnúi öllu í skúrnum svo enginn hlutur verður lengur á sínum stað þá finn ég ekkert af þessum bráðnauðsynlegu hlutum nema veiðistangirnar mínar níu sem ég geymi í þar tilgerðum hólki. Svona hvörf hluta, hluta sem ég læt ávalt sjálfur á vísan stað eru ofaukið mínum skarpa skilningi og þegar ég spyr konuna veit hún ekkert, horfir bara á mig með einhverjum vorkunnarsvip og segir:
„Hvar léstu draslið síðast?“
„Á sinn stað!“, segi ég og ítreka hvar sá staður er ásamt því, að þetta sé ekkert drasl heldur nauðsynlegir hlutir í ferð okkar fram til heiða.
Við þessi orð mín stendur konan þegjandi upp, fer fram í bílskúr og eftir mjög skamman tíma þar kemur hún með stóran og þungan pappakassa í fanginu og segir:
„Hérna er dótið - það var þar sem þú settir það síðast.“

Ég þegi og þori ekki að spyrja neins. Ég lít ekki upp en finn glöggt til vanmáttar gegn fundvísi konunnar en segi þó að lokum:
„Þú hefur falið þetta fyrir mér.“
„Jæja“, segir mín yndisleg, „Hafðu það bara svoleiðis en reyndu nú samt að brosa og næst þegar þú kemur úr veiðiferð, mundu þá að taka dótið úr bílnum og láta það í þriðju hilluna til vinstri og farðu nú að leika þér að þessu dóti þínu“, og svo gengur hún í burtu með sigurvissu í hverri hreyfingu.

Svo að morgni þess dags þegar hefja skal ferðalagið og ég er kominn í fullan veiðiskrúða og hef komið öllu veiðidótinu mjög svo vel í fyrir í bílnum og er tilbúinn í ferðina fullur óþolinmæði, þá virðist konan eiga allt eftir. Láta fatnað niður, fara í verslun og kaupa nesti til fararinnar, láta niður diska, hnífapör og glös og ekki má hún gleyma kaffinu. Svo á hún eftir að finna til tjaldið og yfirfara það, prímusinn, grillið og gasið. Hún á eftir að yfirfara allt skótau, finna regn- og kuldagallanna. Og þegar hér er komið er þolinmæði mín þrotin og ég sé að geri ég ekki eitthvað sjálfur í málinu verður ekkert úr veiðiferðinni. Fer ég því úr veiðigallanum, fer og kaupi í matinn, yfirfer allt sem fara þarf yfir og þetta geri ég í mikilli þögn og fálæti en segi þó að lokum með rödd sem ekki verður misskilin;
„Nú förum við kona, það hlýtur allt að vera komið eftir viku undirbúning.“

Svo höldum við á stað. En eftir slíkar óþolandi og óþarfa tafir getur ýmislegt gerst, eins og þegar við hjónin höfðum ekið í þrjá klukkutíma og voru óðum að nálgast ákvörðunarstað, að konan snéri sér að mér og sagði undarlega blíðmælt:
„Ástin mín, hvar er veiðigallinn sem þú fórst úr í morgun. Settirðu hann ekki örugglega í skottið á bílnum.“

Við þessi orð hennar snarhemlaði ég, leit niður eftir grönnum og fallegum líkama mínum en við það fylltist brjóst mitt algjöru vonleysi. Ég hafði í allri óþolinmæði minn við að komast af stað gleymt að klæðast aftur veiðigallanum:
„Hann er heima“, sagði ég svo lágt að varla heyrðist. „Við verðum að snúa við því ekki fer ég til veiða í venjulegum fötum. Hugsaðu þér kona ef aðrir veiðimenn eru þarna uppábúnir sínum fallegu veiðigöllum með flugur, túpur og spúna hangandi utan á sér til skrauts. Ég verð sem hirðfífl við hlið þeirra. Þvílík skömm, ég sný við.“

Konan þegir en út um allt andlit hennar breiðist einhverskonar gleðibros sem endar í leiðinlegum hlátri. Hlátri sem mér finnst aldrei ætla að þagna. Hlátri sem gerir grín að mér og minni veiðiveröld. Og loks þegar hún nær aftur andanum fyrir þessum asnalega hlátri sínum og gleði segir hún:
„Vinur minn, þú þarft ekkert að óttast, því ég tók veiðigallann, vöðlurnar, veiðigleraugun og húfuna og vettlinganna og maðkaboxið og stangirnar. Já, ég tók allt sem þú gleymdir að taka með eftir viku undirbúning. Og þetta setti ég allt í bílinn. Svo, elskan mín, þegar þú ferð að sveifla þessum prikum þínum getur þú verið klæddur sem sannur veiðimaður og höldum nú áfram ferð okkar á vit svanasöngs og ilmandi grasa.“

Svo strýkur hún mér um vangann líkt og þegar foreldrar þurka tár af hvörmum barna sinna.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband