Þegar frændi kaus Framsókn.

FrændiHafið þið tekið eftir því hversu mikið ólán hvílir á sumum mönnum. Ég á til dæmis frænda sem er með þeim ósköpum gerður, að detti spíta úr lofti dettur hún á hann, hvort sem hann er einn á víðavangi þar sem engrar spítu er von, eða hann er staddur í fjölmennri kröfugöngu um auknar og bættar slysabætur. Og hin undarlegustu slys hafa hent þennan frænda minn. Hann hefur til dæmis tábrotnað við það eitt að fara í skóna sína. Og eitt sinnið hrasaði hann svo illa að báðar axlir hans gengu úr liði bara vegna þess, að hann reyndi að hoppa yfir bananahýði sem hann óttaðist að renna á.

Þessi frændi minn er afskaplega langur og mjór maður á allann vöxt. Hann er svo mjór að í hvert sinni sem hann kaupir sér buxur kvartar hann yfir því við afgreiðslufólkið að þurfa að kaupa báðar skálmanar því efnið í annari dygði í fyrir sig.

Og hæð hans er slík að það veldur oft þeim sem er meðalmaður á hæð, ég ræði nú ekki um þá sem lægri eru, bæði erfiðleikum og þreytu í hálsliðunum að tala lengi við hann í einu. Því frændi er þannig að eigi maður við hann orðaskak verður maður að horfa upp í andlit hans, sem er svo og mjótt og langt að það virðis hvergi ætla að taka enda.

En þrátt fyrir alla þá líkamlegu erfiðleika sem fylgja samræðum við frænda, horfir maður sem dáleiddur á þetta óvenjulega andlit, því þar gerast svo mörg undur þegar hann tjáir sig. Og ég veit um fólk sem hefur átt í hinu mesta basli með að koma höfði sínu í réttar skorður eftir samtal við frænda.

Og þetta andlit hans er eitt stórt undraverk. Því á þessu langa og mjóva andliti er oftast þetta yndislega og lífsglaða bros sem virðist ná langt út fyrir þetta sérstæða andlit í hvert sinn sem hann brosir og þetta bros er þannig að enginn vill missa þess að fá það gefins.

En líf frænda er eitt ólán, hann er nefnilega alltaf að verða fyrir smá óhöppum eða hreinlega stór slysum. Til dæmis sést það ekki á fingrum hans að hann sé smiður að mennt og atvinnu því þeir eru alltaf bólgnir og marðir eftir hamarshögg.

Eitt sinnið þegar hann var allur reifaður á annarri hendinni stóðst ég ekki mátið og spurði hverju það sætti, að hann smiðurinn væri alltaf að lemja hamri á fingur sér?
Hann leit á mig og brosti þessu einstæða brosi sínu og sagði:
„Jú, sjáðu til frændi, það eru naglanir sem ég nota, þeir eru aldrei kjurrir.“

En það er sama hversu oft og alvarlega hann slasast, aldrei er hann öðruvísi en brosandi og sáttur við þá veröld sem hann býr í.

Við frændurnir ræðum oft um pólitík og oftlega hef ég haldið því fram, að einhver mesta ógæfa nokkurs manns sé að kjósa íhaldið og einmitt þar gæti frumorsök óhappa hans legið. Hann kysi alltaf íhaldið. Hann þurfi ekki annað en líta til mín, aldrei er ég innvafinn í plástra eða sárabindi. Hvað þá að ég dvelji langdvölum á slysadeildum spítala enda kysi ég alltaf eitthvað annað en íhaldið.

Hann hefur harðneitað þessari kenningu minni og bent mér á að þótt ég slasist ekki sjálfur þá gæti val mitt í pólitík valdið slíkum stórslysum á allri þjóðinn að ekki sé víst að þau slys yrðu nokkurn tíman bætt, sama hversu vel um þau sár væri búið.
„Eða heldur þú frændi sæll,“ segir hann „að það sé eitthvað skemmtimál að hafa mann eins og þig innan einnar fjölskyldu. Bara það eitt er stórslys.“
Svo brosir hann þessu vinalega og ívið skakka brosi sínu sem fær hvern mann til að þagna, af einskærri undrun yfir því hvað mannsandlitið býr yfir miklum teyjanleika.

Svo var það rétt eftir síðustu þingkosningar að kona frænda hringdi og sagði mér þær fréttir, að þessi ljúfi og lífsglaði frændi minn lægi stórslasaður á spítala. Hann hafði orðið fyrir bíl rétt hjá kjörstað, þaðan sem hann var að koma frá kosningu.

Og það sagði hann sjálfur bætti hún við „Að ekki gætir þú aukið kvöl hans þótt þú kæmi í heimsókn, og væri það til marks um hversu andlegar kvalir hans væru miklar.“

Þegar ég kom til hans á spítalann varð mér brugðið. Þarna hékk þessi lífsglaði frændi minn á báðum fótum í einhvers konar gálga og sneri því höfuð hans niður eða svo til. En ól var strengd um axlir hans og út í vegg og togaði á móti svo nær væri að segja að hann hafi hangið í vinkill.

Þegar ég sá hann hanga svona fylltist brjóst mitt af einkennilegum sársauka og einhver kökkur stíflaði háls minn. Ég ætlaði því að læðast út aftur en heyrði hann þá hvísla;

„Sæll frændi. Loks kemur einhver með litlu viti sem ég get talað við án þess að reyna of mikið á mig. Stattu ekki þarna með svip eins og pækilsaltaður hrútspungur, fáðu þér heldur sæti.“

Ég settist hjá þessum sérstæða manni og vissi ekki hvað ég átti að segja svo ég þagði og horfði bara á þetta einstæða og lífsglaða bros sem lék um þetta allt of langa andlit sem nú hékk á hvolfi fyrir mér og leit því öðruvísi út en ég átti að venjast.

Eftir nokkra þögn segir hann;
„Heyrðu frændi þennan fjanda geri ég ekki aftur.“
Ég sagðist trúa því, „Enda hlypu menn ekki fyrir bíla þótt þeir kysu íhaldið á fjögra ára fresti. Það væri að mínum dómi of langt gengið, þótt hugmyndin væri góð.“
„Ég á ekki við það heldur hitt, að trúa þessu um ólán mitt og íhaldið eins og þú hefur haldið fram. Nú veit ég að það er ekki satt.“
„Hvað er þetta“ segi ég. „Ætlarðu að fara að tala um pólitík, hangandi uppi á afturendanum eins og skreið.“
„Já frændi sæll, því sjáðu nú til, þetta var nefnilega stór pólitískt slys. Því í fyrsta sinni á ævi minni kaus ég ekki íhaldið heldur framsókn - og sjáðu afleiðingarnar.“

Eftir þessi orð frænda þögðum við báðir langa stund og hugleiddum þær afleiðingar sem fylgir því að kjósa framsókn.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki klikkar ritsnilldin og orðfarið hjá þér nafni minn

Halldór Gunnarsson (IP-tala skráð) 2.9.2009 kl. 20:56

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband