Farið til veiða. (Fyrri hluti)

 Fyrri hluti.

veidi2Eitt að því allra skemmtilegasta sem ég tek mér fyrir hendur, er að fara á heiðar upp og veiða mér silung til matar. Og þegar ég tala um veiðar er ég ekki að tala um veiðar í net, heldur um veiðar á stöng eins og sannir veiðimenn ástunda af mestu hógværð og lítillæti í veiðiáráttu sinni. En allar slíkar fjalla- og veiðiferðir kosta sérhvern sannan veiðimann langan og nákvæman undirbúning, því illgerlegt er að hlaupa heim ofan af háfjöllum hafi konan t.d. gleymt einhverjum nauðsynlegum fatnaði, sem hún átti að setja fyrir mig niður í tösku.

Allar mínar veiðiferðir skipulegg ég af mikilli kostgæfni og mikilli vandvirkni. Fer ekki til veiða nema að vel íhuguðu máli. Til dæmis er ég ekki einn þeirra manna sem segir við konu sína á laugardagsmorgni:
„Heyrðu, ég þarf að fara til veiða í dag. Þarft þú ekki að vera heima og þurka af og skúra, setja í þvottavélina, brjóta saman og strauja þvottinn. Já og þarftu ekki einnig að bóna stofugólfið. Mér sýnist það. Já, mér datt það í hug. Heyrðu, ég fer þá barasta einn einu sinni enn.“
Og svo er viðkomandi veiðibesefi farinn frá konu sinni og ógerðum heimilisverkum. Nei,ég kem ekki þannig fram við konu mina. Ég sýni henni ekki slíka karlrembu.

Ætli ég til veiða fer ég strax í byrjun vikunnar að undirbúa fyrirhugaða veiðiferð með því að segja konu minni, að hella nú upp á kaffidreitil og koma svo með bolla, mjólk og annað meðlæti til mín inn í stofu, því ég þurfi að ræða við hana um frábæra hugmynd sem skotið hefði rótum í huga mér og ég þurfi að bera undir hana.
Þegar hún hefur gert sem henni var boðið sest hún ánægð og sæl við hlið mér og þá segi ég gjarnan við hana:
„Mín yndisleg - hvernig er ástandið hjá þér um næstu helgi, ertu að vinna, getum við farið fram til heiða og notið náttúrunnar við svanasöng og ilm grasa um leið og við göngum hönd í hönd um ósnortnar víðlendur landsins. Er nokkuð því til fyrirstöðu að við fáum notið samvistar í tjaldi í tvær eða þrjár nætur.“

Og alltaf þykist hún vera jafn undrandi á tillitsemi minni og jákvæðni og hún horfir á mig líka þessum ástríku og stóru augum og segir:
„Ætli ég reyni ekki að bögglast með þér í eina veiðiferðina enn svo þú komist án allra áverka aftur heim.“

Já, alltaf fellur hún fyrir þeirri rómatísku stemmingu sem ég skapa í kringum okkur og sem mér tekst svo vel að viðhalda í hjónabandinu.

Eftir að konan hefur samþykkt uppástungu mína um komandi veiðiferð byrja ég strax á undirbúningi ferðarinnar með því að fara fram í bílskúr til að finna og yfirfara veiðidótið. En þá bregður oftar við en ekki, að veiðidótið hefur á einhvern óskiljanlegan hátt horfið og virðist þá sama þótt veiðiboxið, veiðitaskan og veiðihjólin eigi alltaf að vera í þriðju hillu lengst til vinstri. Þaðan er það horfið og þótt ég umsnúi öllu í skúrnum svo enginn hlutur verður lengur á sínum stað þá finn ég ekkert af þessum bráðnauðsynlegu hlutum nema veiðistangirnar mínar níu sem ég geymi í þar tilgerðum hólki. Svona hvörf hluta, hluta sem ég læt ávalt sjálfur á vísan stað eru ofaukið mínum skarpa skilningi og þegar ég spyr konuna veit hún ekkert, horfir bara á mig með einhverjum vorkunnarsvip og segir:
„Hvar léstu draslið síðast?“
„Á sinn stað!“, segi ég og ítreka hvar sá staður er ásamt því, að þetta sé ekkert drasl heldur nauðsynlegir hlutir í ferð okkar fram til heiða.
Við þessi orð mín stendur konan þegjandi upp, fer fram í bílskúr og eftir mjög skamman tíma þar kemur hún með stóran og þungan pappakassa í fanginu og segir:
„Hérna er dótið - það var þar sem þú settir það síðast.“

Ég þegi og þori ekki að spyrja neins. Ég lít ekki upp en finn glöggt til vanmáttar gegn fundvísi konunnar en segi þó að lokum:
„Þú hefur falið þetta fyrir mér.“
„Jæja“, segir mín yndisleg, „Hafðu það bara svoleiðis en reyndu nú samt að brosa og næst þegar þú kemur úr veiðiferð, mundu þá að taka dótið úr bílnum og láta það í þriðju hilluna til vinstri og farðu nú að leika þér að þessu dóti þínu“, og svo gengur hún í burtu með sigurvissu í hverri hreyfingu.

Svo að morgni þess dags þegar hefja skal ferðalagið og ég er kominn í fullan veiðiskrúða og hef komið öllu veiðidótinu mjög svo vel í fyrir í bílnum og er tilbúinn í ferðina fullur óþolinmæði, þá virðist konan eiga allt eftir. Láta fatnað niður, fara í verslun og kaupa nesti til fararinnar, láta niður diska, hnífapör og glös og ekki má hún gleyma kaffinu. Svo á hún eftir að finna til tjaldið og yfirfara það, prímusinn, grillið og gasið. Hún á eftir að yfirfara allt skótau, finna regn- og kuldagallanna. Og þegar hér er komið er þolinmæði mín þrotin og ég sé að geri ég ekki eitthvað sjálfur í málinu verður ekkert úr veiðiferðinni. Fer ég því úr veiðigallanum, fer og kaupi í matinn, yfirfer allt sem fara þarf yfir og þetta geri ég í mikilli þögn og fálæti en segi þó að lokum með rödd sem ekki verður misskilin;
„Nú förum við kona, það hlýtur allt að vera komið eftir viku undirbúning.“

Svo höldum við á stað. En eftir slíkar óþolandi og óþarfa tafir getur ýmislegt gerst, eins og þegar við hjónin höfðum ekið í þrjá klukkutíma og voru óðum að nálgast ákvörðunarstað, að konan snéri sér að mér og sagði undarlega blíðmælt:
„Ástin mín, hvar er veiðigallinn sem þú fórst úr í morgun. Settirðu hann ekki örugglega í skottið á bílnum.“

Við þessi orð hennar snarhemlaði ég, leit niður eftir grönnum og fallegum líkama mínum en við það fylltist brjóst mitt algjöru vonleysi. Ég hafði í allri óþolinmæði minn við að komast af stað gleymt að klæðast aftur veiðigallanum:
„Hann er heima“, sagði ég svo lágt að varla heyrðist. „Við verðum að snúa við því ekki fer ég til veiða í venjulegum fötum. Hugsaðu þér kona ef aðrir veiðimenn eru þarna uppábúnir sínum fallegu veiðigöllum með flugur, túpur og spúna hangandi utan á sér til skrauts. Ég verð sem hirðfífl við hlið þeirra. Þvílík skömm, ég sný við.“

Konan þegir en út um allt andlit hennar breiðist einhverskonar gleðibros sem endar í leiðinlegum hlátri. Hlátri sem mér finnst aldrei ætla að þagna. Hlátri sem gerir grín að mér og minni veiðiveröld. Og loks þegar hún nær aftur andanum fyrir þessum asnalega hlátri sínum og gleði segir hún:
„Vinur minn, þú þarft ekkert að óttast, því ég tók veiðigallann, vöðlurnar, veiðigleraugun og húfuna og vettlinganna og maðkaboxið og stangirnar. Já, ég tók allt sem þú gleymdir að taka með eftir viku undirbúning. Og þetta setti ég allt í bílinn. Svo, elskan mín, þegar þú ferð að sveifla þessum prikum þínum getur þú verið klæddur sem sannur veiðimaður og höldum nú áfram ferð okkar á vit svanasöngs og ilmandi grasa.“

Svo strýkur hún mér um vangann líkt og þegar foreldrar þurka tár af hvörmum barna sinna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband