Símagabb í þá gömlu góðu daga.

Þegar maður hugsar til baka og íhugar allar þær tæknibreytingar sem orðið hafa hjá þjóðinni á síðustu fimmtíu árum liggur við að maður gefist upp á þeirri hugsun, því svo miklar hafa breytingarnar orðið og sem betur fer eru þær flestar til góðs.

Tökum til dæmis símann þennan friðarspillir þegar ég var að alast upp og dvaldi á sumrin hjá góðu fólki vestur á Snæfellssnesi var enginn sími á bæjunum heldur var sím- og póststöð á einum bænum. Og þegar einhver þurfti að hringja eða í hann var hringt þurfti viðkomandi að rölta sér heila bæjarleið eða margar til að tala í þetta mikla undratæki sem síminn var. En svo breyttist þetta allt saman og gamli góði sveitasíminn kom á hvern bæ og þá var nú fyrst gaman að lifa. En sá kostur var við þessa gömlu sveitasíma að allir gátu hlustað á það sem þar var sagt og var slíkt ekki látið ónotað. Til dæmis var hún Steinselja í Koti all drjúg við hlerun og það áttu strákarnir í sveitinni til (ég tek fram að ég var ekki í þeim hópi enda bæði hrekklaus og kjarklaus fram á þennan dag) Já þeir áttu það til að ljúga svo hressilega í símann að ég efast um að séra Árni þórarinsson eða Þórbergur Þórðarson hefðu trúað þeim sögum þótt þeir hefðu mátt heyra og var Helgi vinur minn á Hólsmýri og bræður hans  drýgstir við símahrekkina. En Steinka trúði og bar sögurnar um allt. Og stundum fór allt í háaloft í sveitinni vegna þessa. Til dæmis setti Brandur gamli hreppstjóri eitt sinn upp hreppstjórahúfuna og fór á stjá þegar hann frétti eftir Steinku í Koti – að strákódámanir á Hólsmýri og heimskinginn í Völlum (en það var ég) ætluðu að fara á skyttirí og skjóta alla þá hunda í innsveitinni sem væru af erlendu bergi brotnir en ekki íslenskir. Og bændurnir sögðu að strákandskotunum væri vel trúandi til verknaðarins, enda væru þeir allir hernámsandstæðingar og kommúnistar og var helst að skilja að slíkir skaðræðismenn væru hættulegir öllu lífríki í landinu og ættu því að vera í tukthúsi við harðan kost.

Eftir að saga þessi fór hamförum um sveitina þorðu viðkomandi bændur ekki annað en geyma hundana sína innivið og það í tæpar tvær vikur af einskærum ótta við aftöku þeirra, það er að segja hundanna en ekki bændanna. Og voru hundarnir þeim vita gagnlausir á meðan og var það bændunum mjög bagalegt því þetta var einmitt á rúningstímanum og hundarnir þar að auki ýlfrandi og gólandi af vanlíðan allan daginn en þó mest á nóttunni. Og eftir að Brandur hreppstjóri var knúinn af bændum innsveitarinnar til aðgerða gegn tilvonandi hundamorðingjum hóf hann rannsókn í málinu og vitanlega byrjaði hann yfirheyrslur sínar á mér og síðan ræddi hann við annað heimilisfólk hvað það vissi um fyrirhugað hundaskyttirí. Ég sagði sem var að helvítið hann Helgi á Hólsmýri hefði logið þessu í símann,ég væri saklaus af þessari synd enda væri ég gull af unglingi að vera. Ekki veit ég hvort Brandur hreppstjóri trúði þessu sjálfsáliti mínu mér er það hreinlega til efs, því hann sagði að góðir unglingar hegðu sér ekki eins og fullorðin fífl. Reið Brandur síðan að Hólsmýri og hundskammaði Helga vin minn fyrir að standa fyrir símalygum um sveitina.”Já og láttu það vera hænsnið þitt að ljúga athæfi þínu upp á heimskingjann á Völlum því það vita allir hér um sveit að hann hefur hvorki hugmyndaflug né getu til svoddan hrekkjabragða”.

En þegar sannleikurinn var kominn í ljós þá urðu bændurnir í innsveitinni allir sem einn alveg hrútvitlausir og hundóðir útí okkur strákana og sögðu, að það hefði þó verið skárra að sagan hefði reynst sönn, því nú væru þeir sjálfir hafðir að athlægi um allar nálægar sveitir en stráka djöflarnir væru dáðir fyrir hrekkinn.

Í dag er það skoðun mín að allar þær tækniframfarir á símum sé afturför frá gamla góða sveitasímanum.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband