Færsluflokkur: Frænka

Hún Emerentíana frænka

tiaHún Emerantíana frænka mín er engum öðrum konum lík enda er hún systir hans frænda sem ég hef skrifað um. Þó eru þau systkinin á engan hátt lík hvorki í geði eða útliti. Hann svona ógnar mjór og himinn langur og með þetta bros sem enginn vill missa af, á þessu langa andliti sem hvergi ætlar að enda. En hún lávaxin, frekar þykk um allan búkinn og hefur þetta yndislega bústna og hringlótta andlit sem sjaldan sýnir bros. Helst að maður sjái gleði hennar eða gáska speglast í þessum sérstæðu augum hennar sem eru kringlótt og nærri því svört að lit.

Hér eftir kalla ég Emerantíönu frænku aldrei annað en Tíu nema mikið liggi við, þá kalla ég hana fullu nafni svo hún móðgist ekki. En Tía frænka er alltaf að móðgast enda er hún kona með skap, stærilæti og þótta og er því eins og þið sjáið á allan hátt andstæða hans bróður síns bæði í geði og háttu.

Tíu frænku er ákaflega ólagið að hemja skap sitt enda kona fljótfær og fasmikil bæði í hugsun og hreyfingum. Og þegar hún hreyfir sig og er í sínum besta ham er eins og maður horfi á dýralífsmynd þar sem heil fílahjörð er á hlaupum og veit ekkert hvert hún stefnir.

Það var eitt sinn um vetur ekki fyrir löngu síðan og úti geisaði norðan rok með grimmdargaddi og skafrenningi að frænka hringdi í mig og sagði, að ég yrði að koma til sín og það „núna strax“. Og þegar Tía segir strax er eins gott að vera ekkert með hangs eða dútl og því þaut ég af stað illa klæddur til handa og fóta og barðist á móti storminum, gaddinum og skafrenningnum og var innan stundar farinn að skjálfa úr kulda.

Eftir mikinn barning í þessu aftaka veðri komst ég loks heim til hennar og hringdi dyrabjöllunni og sá um leið að hún var búin að fá sér dyrasíma. En það var sama hvað ég hringdi bjöllunni hún hvorki svaraði í þetta tæki sitt eða opnaði dyrnar. Þarna stóð ég blár og helkaldur og óveðrið gnauðaði í andliti mínu, en frænka lét ekkert heyra í sér og ég var kominn að því að snúa frá þegar ég studdi frosnum fingrum mínum einu sinni enn á bjölluhnappinn og viti menn, dyrasíminn vælir og frænka öskrar beint framan í mig úr tólinu:
„Þetta er hér“.
„Ég veit það. Opnaðu helvítis hurðina. Ég er að drepast úr kulda. Ég er að verða úti“, öskra ég á móti og reyni að yfirgnæfa hávaðan í rokinu.
„Ég opna ekki fyrir ókunnugum“, kallar þá Tía frænka frama í mig og dyrasíminn þagnar og ég stend og gapi framan í þetta þögla tæki.
Og þar sem ég norpa þarna verð ég magnþrota af reiði og kulda og vissi, að mér hafði orðið eitthvað á. En hvað? Jú ég hafði ekki kynnt mig. En Tía frænka lifir í þeirri kenningu að maður eigi aldrei að tala við þá sem ekki kunna lámarks mannasiði, eins og til dæmis að kynna sig í síma. Og þess vegna skellir hún því tæki á með þjósti og látum ef maður segir ekki til nafns. Ég hringdi því bjöllunni einu sinni enn og og hún öskrar sem aldrei fyrr í tækið.
„Þetta er hér“.
„Hvar í ósköpunum gæti þetta verið annars staðar“, hrópa ég á móti og segi síðan hver sé nærri dauða en lífi við dyr hennar. „Því sagðir þú það ekki fyrr“, kallar hún á móti og opnar nú loksins dyrnar.

Þótt mér sé kalt er skap mitt við suðumark, en ég veit ekki hvort ég skelf af kulda eða reiði, nema skjálfti minn stafi að hvoru tveggja, sem er öllu trúlegra. Og þegar ég stend stuttu seinna fyrir framan þessa kringlóttu og sérstæðu konu þá held ég áfram að öskra framan í hana og spyr með röddu sem einnig er hálf frosin.
„Hverslags framkoma er þetta. Er það virkilega meiningin að drepa mig frá fjölskyldunni. Láta mig verða hér úti við dyr hennar sem hvern annan flækingskött“.
Hún horfir á mig þessum svörtu augum sínum og segir svo með þjósti:
„Ekki vissi ég hver var hér á ferð og þar að auki var ég að fá þetta tól í dag. Og í hvert sinn sem það hringdi hljóp ég í símann. Hvernig átti ég að muna eftir þessu tæki, ekki setti ég það upp. Og reyndu nú einu sinni frændi að hafa hemil á ofsa þínum og skapbrestum og segðu ekkert fleira með andlitið svona gaddfreðið, það gæti rifnað og finnst þér bætandi á fríðleika þinn. Þýðum það frekar og skap þitt með heitum Chocolatesopa og nýbökuðum vöfflum“, og hún leggur hefðarfrúaráherslu á orðið Chocolate um leið og hún gengur inn ganginn með handarsveiflum sem minna á enskar yfirstéttarmaddömur.

Tía frænka drekkur aldrei í eldhúsinu heldur leggur hún ávalt á borð í borðstofunni, og þegar ég segi að mér dugi að fá sopann í drykkjarfanti í eldhúsinu móðgast hún stórlega, roðnar og keyrir höfuðið aftur fyrir herðar og segir:
„Viljirðu matast eins og skeppna skaltu gera það á öðrum stað en hér. Þetta er ekkert hrosshús heldur heimili“.
Svo lítur hún á mig þeim augum sem fær hvern mann til að skammast sín, þó hann sé saklaus af allri synd eða öðru verra. En þegar ég segist þiggja góðgerðir hennar á viðeigandi stað brosir hún og leggur fína Chocolatestellið sitt á borðið í borðstofunni, nær síðan í feikistóran vönd af afskornum blómum og setur hann á mitt borðið. Þvínæst ber hún tvo þriggja arma kertastjaka á borðið og kveikir á kertunum. Fer síðan fram og kemur inn með eftirlætis drykk sinn og háan bunka af vöfflum og ílát full af sultutaui og annað með þeyttum rjóma. Og þessu ekur inn í borðstofu á silfurfægðum fjórhjólafyrirmannahjólbörum og leggur það sem drekka skal og éta á sitthvorn enda borðsins og segir með röddu eins og um fjölmenna stórveislu sé að ræða “Gjörið þið svo vel“.

Og þarna sem við sátum við hvorn enda borðsins sá ég ekkert til frænku. Hvergi sá ég svo mikið sem glitta í hana vegna þess ægistóra blómvandar sem milli okkar var. Það var sama hvað ég starði inn í þetta litskrúðuga blómahaf, Tía frænka var mér algjörlega horfin. Og þegar ég kallaði inn í þennan blómarunna, hvort ekki mætti færa þetta gras til, fann ég en sá ekki hvernig þessi kona reisti sig við í stólnum og rödd hennar barst hvell og móðguð gegnum blómaþykknið. Og þessi rödd sagði allt um þá fyrirlitningu sem hún hafði á fegurðarsmekk mínum. Og hún hjó hvert orð og meitlaði svo mér yrði meining hennar skiljanleg. “Þú hefur aldrei haft vit fyrir smekk. Hvernig eiga líka menn eins og þú að skilja fegurð blóma og matar. Þvílíkur ruddi“. Svo sátum við þegjandi og ekki neita ég því að skap mitt fór batnandi við heitan drykkinn og vildi ég því hrósa frænku fyrir hvað hún gerði gott Kakó. En við þau orð mín sá ég hvar höfuð hennar birtist með feiknar hraða uppfyrir blómatorfuna og hékk þar sem sjálfstæður hlutur án tengsla við nokkurn búk. Og þetta höfuð sem nú var jafn litskrúðugt og blómvöndurinn á borðinu, horfði á mig með öllu sínu stærilæti og þótta og sagði:
„Aldrei hef ég boðið fólki Kakó þegar ég get boðið því ekta Chocolate. Og þú frændi sæll skalt ekki dirfast, að bera mig fyrir slíkum kálfsdrukk“.

Síðan birtist öll þessi kringlótta og lávaxna kona og var nú andlit hennar sem litarkort frá Hörpu á litinn, og hún stormaði fram á gang í allri sinni kvenlegu hefðarkonureisn og flumbrugangi og vissi ekkert hvert för sinni var heitið, heldur æddi um gang og herbergi sem rammvillt kú.

Ekki stóð þessi helför hennar lengi og þegar skap hennar hafði lægt og var orðið henni viðráðanlegt kom hún inn aftur með handarsveiflum hefðarkvenna og bauð mér innvirðulega að setjast til stofu og bætti við:
„Og reyndu nú einu sinni að haga þér sem alminnilegur maður sem hefur einhver lífsstíl og getur haldið uppi samræðum um alvarleg málefni“.

Þegar við höfðum setið drjúga stund í stássstofu frænku og rætt hin sundurlausustu mál og jafnað okkur á því sem á undan var gengið, bjóst ég til heimferðar. En ekki var annað viðkomandi en ég færi í leigubíl sem Tía frænka heimtaði að borga með þeim orðum, „að ekki léti hún það spyrjast um bæinn, að hún hafi reynt að drepa mig á báðum leiðum mín“, og úr augum hennar skein tvíræð glettni.

Þegar heim kom spurði mín elskulega eiginkona hvað hefði verið svo aðkallandi, að ég hefði rokið út í þetta foráttuveður illa klæddur og vanbúinn. En þá setti mig hljóðan, því aldrei spurði ég frænku til hver hún ætlaðist af mér. Og í einhverri fljótfærni sem mér er í engan stað eðlileg rauk ég áleiðis út og ætlaði aftur í þetta foráttu veður og berjast heim til Tíu. En þá kallaði konan og benti mér á, að betra væri fyrir mig að nota bæði skynsemina og símann. Ég notaði því hennar ráð og hringdi í snarheitum til frænku, kynnti mig virðulega og spurði hvað ég hefði átt að hjálpa henni með. Ég hefði ekkert gert og hún einskis beðið. „Jú frændi góður“, sagði Emerantíana frænka, „þú hringdir dyrasímanum, en ég vildi bara vita hvort þetta nýja tækniundur virkaði“ og það gerði það“.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband