21.9.2009 | 20:38
Er maðurinn api?
Eitt að því sem ég þoli illa er þegar fólk hringir í mig og kynnir sig ekki. Slíkt er að mínu áliti hreinn dónaskapur og tillitsleysi gagnvart heiðarlegu fólki sem í mesta grandaleysi svarar í þetta tæki og fær þá umbúðalaust yfir sig einhverja sögu um einhverja heimska Jónu frænku sem er orðin ólétt einu sinni enn eftir einhvern heimskan Palla í næsta húsi, sem hún vill ekkert hafa með að gera því hann er svo ljótur og leiðinlegur.
Og þegar maður öskrar í símann að maður þekki enga Jónu og því síður nokkurn Pál sem væri svo vitlaus að fara að barna einhverja Jónu, þá er bara sagt - fyrirgefðu - ég er að tala við vitlausan mann. Og síst af öllu þoli ég þetta tæki þegar það hringir á fréttatíma sjónvarpsins - þegar ég sit í makindum og gegni húsbóndaskildu minni á heimilinu. Þó hef ég margt reynt og laumast til að taka símann úr sambandi á þessum tíma húsbóndans, en einhverveginn veit konan alltaf af slíku og stingur öllu draslinu í samband aftur og þá með svip sem segir að svona geri maður ekki.
Svo var það eitt sinnið að þetta skaðræðis tól hringdi á umræddum fréttatíma og þar sem Davíð allsherjargoði var að segja eitthvað miður gáfulegt um að menn gerðu ekki svona, heldur framkvæma þeir aðeins helminginn af óréttlætinu í fyrsta skrefi, var skap mitt ekki gott svo ég þaut upp úr húsbóndastólnum og hljóp að símanum. En þá varð ég fyrir því óláni að detta um stólkoll sem lá á gólfinu svo andlit mitt- sem ekki má við miklu, skall í gólfið og hálf vankaður tók ég upp símtólið og það fyrsta sem ég heyrði var;
Sæll frændi, segðu mér er maðurinn api?
Og þótt ég þekkti strax vinalega og sérstæða rödd frænda mín,þess manns sem ég dái umfram aðra menn var mér nóg boðið við þessa asnalegu og ótímabæru spurningu hans og svaraði ég því með röddu sem sagði allt um skaplyndi mitt þá stundina;
Að ef hann væri að leita sér fræðilegrar skýringa á atferli sínu eða útliti skildi hann hringja í Náttúrufræðistofnun en ekki mig.
Síðan skellti ég á - en eftir augnablik gall hvell hringing við aftur og ég reif tækið upp og þessi dæmalausi maður hann frændi sagði eins og ekkert hefði í skorist;
Það þýðir ekkert frændi, það yrði bara fræðilegt tal en engin niðurstaða. Það fæst aldrei niðurstaða ræði maður við fræðimenn, því þeir fara alltaf að tala um líkurnar á hinu og þessu. Nei, best er að hugleiða svona flókin mál við þann sem hefur einfaldan hugsunargang líkt og þú. Mann sem lætur ekki gáfur sínar flækjast fyrir sér að óþörfu og þess vegna spyr ég frændi, er maðurinn api?
Hverslags spurning er þetta um miðja nótt, öskra ég inn í tólið og í eyra hans og bæti við; Fékkstu einhverja tilfinningu fyrir uppruna þínum þegar þú hékkst á löppunum í gálganum uppi á spítala. Fannstu fyrir einhverjum skyldleika með þér og apa?
Taktu tímaskyn þitt til góðrar endurskoðunar frændi, segir rödd hans. Því ekki er nótt heldur er snemma kvelds. En það er aldeilis að það liggur illa á okkur Selfossbúum segir hann og ég heyri glettnina sjóða í hálsi hans. Hann segir alltaf "okkur Selfossbúum, eftir að íhaldið í Reykjavík missti borgina í hendur R-listans.
Já frændi, heldur hann áfram: það var einmitt eftir slysið í gálganum sem ég fór að hugleiða þetta með uppruna okkar. Þú veist máske ekki að ég slasaðist á spítalanum. Taugin sem hélt mér uppi í gálganum gaf sig, þegar ég reyndi að klóra mér neðst á fætinum, sem þá var reyndar orðinn efsti hlutinn af líkama mínum. En við þá tilraun mína slitnaði taugin svo ég slengdist með ógnar krafti til lofts með fæturna og búkurinn sveiflaðist allur til þegar lóðin skullu í gólfið. En lánið leikur alltaf við mig, því það varð mér til happs að konan mín elskuleg var í heimsókn og var einmitt á þeirri stundu að bjástra eitthvað til fóta við rúmið svo ég skall á henni svo hún fór í gólfið og handleggsbrotnaði ásamt öðrum minnihátta áverkum. Annar veit ég ekki hvernig farið hefði. En það merkilegasta er eftir, þegar læknirinn skoðaði taugina sem slitnaði. Sagði hann;
Það þarf meira en meðal Górillu til að slíta þetta ". Og þá frændi sæll fór ég að hugleiða uppruna okkar.
Nú var mér öllu lokið og ég sat sem lamaður og horfði á símtólið og á meðan fann ég hvernig andlitið á mér bólgnaði allt út af reiði og ekki síst eftir að ég skall um stólinn. Og með hjáróma röddu spurði ég hann: Hvort hann þyrfti að hálf drepa sig og konuna svo hann færi að hugsa. Og ef hann vildi vita sannleikann um uppruna sinn, þá sæist hann ábyggilega í öllum þeim aragrúa læknaskýrsla sem ritaðar hafa verið um hann. Og hann fengi sjálfsagt að líta á þær ef hann hefði hálft ár á lausu til lestrar.
Jæja frændi sæll! sagði hann og varð nú hættulega vinalegur í röddinni.
En það er einnig annað sem vakið hefur upp forvitni mína um uppruna okkar. Má ég spyrja í einlægni frændi sæll, hefur þú nokkurn tíma séð sjálfan þig dansa - nei - ekki það. En mér hefur alltaf fundist þegar þú framkvæmir þá fótamennt - að þig vanti einungis bananna í munninn og þá væri hvurjum manni uppruni ættar okkar ljós.
Og þar sem ég sat þarna með símtólið við eyrað lamaður og reiður og orðlaus og íhugaði hvernig ég gæti svarað þessari ósvífni mannsins kallaði konan á mig og sagðist vera búin að smyrja brauð með kvöldkaffinu og það væri með bananaáleggi -
Þá fylltist ég réttlátri reiði og talaði ekki við konu mína í næstu tvo daga.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.