18.9.2009 | 13:47
Gvendur magalausi.
Sumarið var búið, haustið komið og réttirnar búnar. Ég var aftur kominn til Reykjavíkur úr sveitadvöl minni fyrir vestan og beið þess nú þess eins í leiðindum að skólagangan hæfist aftur og þá yrðu ennþá meiri leiðindi .Sláturtíð var hafin. Að vísu þurfti ég ekki að láta mér leiðast þarna í höfuðkaupstaðnum, því fyrir stráka sem voru full frískir og heilbrigðir í anda var nóg að starfa. Til dæmis styttu við strákarnir okkur oft stundir við allskyns strákapör og hrekki. Það var mjög vinsælt hjá okkur t.d. að strjúka korktappa við stofurúðurnar þar sem fólk sat inn og hlustaði á útvarpið. En af viðkomu korksins við glerið ,myndaðist ótrúlegt og eymdarlegt ískrandi hljóð inn í stofu svo ekki var gerlegt að sitja þar í næði og hlusta á útvarpið. Komu þá karlarnir arfavitlausir út og vildu ná okkur til hegninga, en þar sem við þekktum hvern krók og hvern kima í hverfinu og höfðum fyrirfram ákveðið allar flóttaleiðir, sluppum við alltaf nema Siggi langi sem var mjög hægfara á flóttanum og fékk hann því alla þá hegningu sem ætluð var okkur fjórum vinunum. En Siggi langi tók þeim refsingum sem á hann voru lagðar með mestu ró því allt þetta var svo helvíti gaman.
Nú var það svo að Gvendur pabbi Sigga langa var einhver sá grennsti maður sem ég hef augum barið á lífsferli mínum. Og ég held að hann sé einnig einhver þöglasti maður sem búið hefur á landinu frá upphafi, þó var hann ekki mállaus. Aldrei heyrði ég hann segja orð við okkur strákana og var þá sama hvaða djöflagang við framkvæmdum í návist hans. Hann var alltaf jafn þögull og í minningunni man ég ekki eftir hvernig rödd hans hljómaði. En þessi maður var ekki eins og allir aðrir, því í hann vantaði mestan hlutann af maganum sem hafði verið skorinn í burtu. Og þarna er sem sagt komin skýringin á því hvers vegna Gvendur var svona mjósleginn. Enda sagði Siggi sjálfur, að pabbi sinn gæti aðeins borðað hálfa rúgbrauðsneið í einu og þá væri hann saddur:
Já, það er alveg býsn hvað pabbi getur étið lítið. Ef hann étur heila brauðsneið með osti þá sést hún framan á honum. Það er hryllilegt, sagði Siggi og reyndi að skapa samúð með föður sínum.
Það var sem sagt komin sláturtíð og mamma og pabbi höfðu tekið nokkur slátur og stóðu nú að verkun á innmatnum fram í þvottahúsi. Og þar sá ég vambirnar í bala og þá skaut upp þeirri hugsun hjá mér, að ef mér tækist að stela einni vömbinni, þá gæti ég bjargað matarlyst Gvendar magalausa. Og við þessa hugsun mína hló ég inn í mér.
Ég sætti nú færis þegar foreldra mínir tóku sér smá hvíld frá amstrinu læddist fram í þvottahúsið og stal einni vömbinni, stakk henni blautri niður í tóma skólatösku og hljóp sem fætur toguðu til Bigga ofvita vinar míns. Ég sagði honum frá þeim óborganlega hrekk sem ég hafði í bígerð, en til þess að hægt yrði að framkvæma þetta snilldarbragð mitt yrði að skrifa bréf. Og því leitaði ég til hans sem sanns vinar og mætti hann nú ekki bregðast fóstbróður í raun. Enda hefði hann einn okkar vinanna aðgang að ritvél.
Biggi ofviti sem var alltaf tilbúinn í allt sama hversu vitlaust og glæfralegt það var, leit til mín og sagði: Mikið snilldarbragð hefur þú upphugsað og höldu því til verksins og skrifum þetta ódauðlega bréf til Gvendar.
Tókum við síðan til við bréfaskriftirnar og að lokum hljóðaði bréfið til Gvendar magalausa eitthvað í þessa veru:
Herra Gvendur.
Þar sem ég tók óvart of mikið af vömbinni þinni þá sendi ég þér hér með nýjust gerð að varamaga, sem er nýjasta undrið í læknavísindum. Til þess að hann brúkist rétt þá skaltu setja hann fyrir neðan naflann og festa vel með sláturgarni. Hafðu hann samt ekki svo síðan að þú getir ekki mígið. það er von mín að eftir þessa aðgerð getur þú étið meira en hálfa brauðsneið í mál.
Læknirinn.
Ofvitinn renndi augum sínum gáfulega eftir hverju línu bréfsins og sagði síðan:
Mikið andskoti er þetta gott bréf. En heyrðu Dóri, mikið djöfull væri gaman að setja einnig einn hrútspung með vömbinni. Það væri æðislegt að sjá Gvend reyna að festa honum með sláturgarni við sinn gamla, ha-ha-ha. Og þegar Gvendur færi að hátta segði Stína Elsku Gvendur minn magalausi, hvað ertu að gera með þetta. Dugar þér ekki lengur einn?
Ha-ha-ha, hló sá gáfaði og hélt áfram að lýsa draumum sínum um eymdarástand Gvendar magalausa með viðbundinn hrútspunginn milli fóta sér.
Eftir bréfaskriftina var næst á dagskrá að koma vömbinni heim til Gvendar án þess að eftir yrði tekið. Pökkuðum við sendingunni inn í pappakassa, límdum bréfið á kassann og lögðum síðan í þessa hættulegu póstferð. Allt gekk að óskum, úthurðin var opin svo við laumuðum sendingunni inn fyrir dyrnar og hlupum svo í burtu eins og lífið væri í húfi.
Leið nú þessi dagur framundir kvöldmat en þá sé ég hvar sá magalausi kemur út um dyrnar heima hjá sér. Og þegar hann sér mig tekur hann til við að hlaupa í átt til mín og sýnist hann nú mjórri en nokkru sinni fyrr. Auk þess sá ég ekki betur en að maðurinn væri sífellt að skipta um lit í andlitinu. Stelpurnar sem voru í parís hættu leik sínum og horfði í forundri á þennan veiklulega og magalausa mann, sem með ógnarhraða stefndi í átt til mín og var stundum dumbrauður ella helblár í andlitinu. En ég þekkti hverfið betur en hann og var einnig fljótari á fæti og slapp því undan reiði mannsins.
Þegar ég nokkru seinna kom heim var ég ekki fyrr kominn úr gúmmítúttunum en karl faðir minn snaraðist fram á gang, tók ógnar fast um herðar mér og vippaði mér án nokkurra orða fram í þvottahús. Sleppti mér þar á miðju gólfi og sagði mér að setjast. Ég benti honum á, að þarna væri ekkert til að setjast á og því gæti ég ekki sest.
Sestu! sagði pabbi og benti á blautt gólfið.
Það er rennblautt. Ég get ekki sest í bleytuna enda verður mamma þá reið, sagði ég og þóttist hafa snúið á karl föður minn.
Það gerir ekkert til. Ég get þá sagt krökkunum í götunni að þú hafir mígið í buxurnar af hræðslu við að sitja hér í myrkrinu.
Við þessi orð hans var ég viss um að sá gamli væri orðinn jafnvitlaus og Gvendur magalaus. Og settist ég því í bleytuna.
Hvar er gorvömbin sem þú stalst frá mömmu þinni. Og enga lýi hér til að komast hjá hegningu. Og sjáðu til, við hvert ósatt orð skaltu þrífa eina vömb og ekki bara hér heldur einnig hjá Guðmundi og Stínu. Og út með sannleikan, hvar er vömbin?
Ætli Stína sé ekki að reyna að binda vömbina framann á Gvend og kannske líka punginn? sagði ég og vildi ekki sleppa ótuktinni úr mér.
Mér koma engir pungar við, mínir eru allir hér. Og þú litla óhræsi ferð ekki í skólann á morgun. Þú verðu hér og mörhreinsar allan þann ristil sem hreinsa þarf og það eru nokkrir metrar. Og héðan kemur þú ekki fram fyrr en ég segi. Er það skilið?
Ég sagði ekkert því ég fann hve skömm mín var mikil. Að vera látinn sitja rassblautur, matarlaus í myrkvuðu þvottahúsinu, þar sem jafnvel draugar gátu leynst var meiri skömm en nokkur strákur getur þolað. Og ég fann hvernig ég minnkaði úr ósvífnu og hræðilegu hrekkjusvíni í lítinn og hræddan strák. Tíminn í þessu myrkvaða þvottahúsi ætlaði aldrei að líða og ég þorði ekki að standa upp af gólfinu af ótta við, að einhver ósýnileg hönd kæmi út úr myrkrinu og þrýsti mér aftur niður á blautt gólfið.
Svo opnuðust dyrnar og ljósið var kveikt. Pabbi kom inn, horfði á mig og spurði hvernig mér liði og hvort ódámurinn væri farinn úr mér? Ef svo væri ekki þá kæmi ég ekki fram í bráð.
Hann er farinn. Sagði ég heldur lágróma.
Hvert fór hann? Spurði refsivöndurinn.
Vonandi heim til Gvendar magalausa. Sagði ég með nokkru stolti í röddinni.
Já, það vona ég líka. sagði pabbi og brosti og það var eins og hann væri allt í einu orðinn ánægður og stoltur af þessu rassblauta strákóféti sínu. Enda þótti föður mínum lítið varið í þá foreldra sem voru alltaf að klagast yfir hrekkjum og öðru eðlilegu athæfi eðlilegra barna. Og sagði því oftar en ekki, að slíkir foreldrar væru hvimleiðari en öll hrekkjusvínin í Norðurmýrinni. Og hafi hann þökk fyrir þá kennslu sína.
Flokkur: Af mér og fjölskyldu minni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.