Frændi býður til veiða !!!

veidi1Fátt er eins skemmtilegt og hlusta á veiðimenn segja sannar sögur úr veiðiferðum sínum. Í þeim sögum gerast svo ótrúlegir hlutir að hver maður heldur hverja veiðisögu lygasögu. En af eigin reynslu veit ég að svo er ekki, allavega eru mínar veiðisögur allar sannleikanum samkvæmar þó ótrúlegar séu. Til marks um það er hér ein saga úr einni veiðiferð okkar frænda, en veiðitúrar með þeim manni eru hrein ævintýri allavega þegar frá líða stundir og ég hef jafnað mig að nokkru eftir samvistirnar við þennan ótrúlega mann sem hann frændi er.

Það var um fjögurleitið að nóttu og ég í fasta svefni ásamt konu minni, að í gegnum þungan svefninn heyrði ég að mikil hringing gall við. En þegar maður er í svefnrofanum er stundum erfitt að greina á milli vekjaraklukkunnar og símans og því fór sem fór, að ég barðist við klukkuna. Ég ýtti á alla takka tækisins en hún vildi ekki láta af þessum ófriði sínum og hélt áfram að öskra. Ég tróð henni undir koddann en þá virtist hún gjörsamlega brjálast og það var ekki fyrr en ég reyndi að troða henni til fóta hjá konunni, að konan reis upp og spurði hvað ég væri að að gera og dró um leið að sér fæturna.

„Hverslags djöflagangur er þetta um miðja nótt? Þér væri nær að svara í símann en djöflast á fótum mér.“ og við þau orð hennar staulaðist ég fram úr svefnherberginu og hóf leit að þessu þráðlausa friðarspillir. En það var sama hvað hann öskraði hátt og djöflaðist ég fann hann hvergi. En svo þagnaði þetta kvikendi og ég staulaðist aftur inní fletið til konu minnar. En ekki var ég fyrr lagstur á koddann en hann byrjaði að djöflast aftur.

„Hvar er síminn? ég finn hann hvergi.“ Kallaði ég til konunnar sem lá við hlið mér.
„Guð minn góður!“ Sagði konan „Ætli hann sé ekki inn á klósetti. Sastu ekki þar í gærkveldi þegar þú talaðir við prestinn?“ Og þar fann ég símann.
„Halló!“ Hrópaði ég í skapillsku minni inní tólið.
„Góðan daginn frændi!“ Sagði þá hin rólega og sérstæða rödd hans frænda og hann hélt áfram án nokkurs formála.
„Ég býð þér til Borgarfjarðar til veiða með stöng. Brottför verður frá heimili þínu eftir tvo tíma og munda að taka með þér nægilegt æti.“

Við þessi orð hans og það sem undan var gengið fór skap mitt upp um fjöll og firnindi, og í hamlausri reiði yfir þessum dæmalausa manni ætlaði ég að svara honum og segja, að hann væri hinn mesti dóni og að svo tillitslaus maður sem hann hefði aldrei gengið á jörðinni. En áður en það varð lagði hann tólið á svo ég bara öskraði inn í heyrnalausan símann:
„Það er enginn dagur, það er mið nótt. Það veit hver maður með einhverju viti.“ Svo skellti ég hróðugur símtólinu á.

Eftir að konan hafði smurt fyrir mig brauð og tekið til annað nesti til fararinnar og ég fundið flest allt annað sem þarf til svona ferðar, beið ég með nokkurri óþolinmæði eftir komu frænda. Og á slaginu sex hringdi hann dyrabjöllunni og stóð nú fyrir framan mig í allri sinni endalausu og ótrúlegu lengd, full gallaður og allur skreyttur með hinum ýmsu gerðum af flugum og túpum og púpum og öðru því agni sem hann telur nauðsynlegt að hafa til veiðar á fiski.

„Hvað er að sjá þig. Þarftu að klæðast eins og þú sért gerður úr kóngulóarvef.“ Sagði ég og brosti að útliti frænda. Og svo héldum við á vit ævintýranna.

Það var ekki fyrr en undir Hafnarfjalli að ég spurði frænda hvert halda skildi til fiskidráps. Við þessa spurningu mína snarhemlaði kóngulóarvefurinn, sté þegjandi út úr bíl sínum og tók að glápa til allra átta. Fyrst í suður svo í norður svo upp og svo niður og þetta gerði hann nokkrum sinnum. Síðan sté hann aftur inn í bílinn og þagði drjúga stund en leit síðan á mig og sagði:
„Frændi sæll, nú fór í verra. Ég hef gleymt nafni vatnsins en mig minnir að það byrji á einhverju Langsum frekar en Þversum. Og bitti nú.“

Við þessi orð hans var mér öllum lokið og ég sat sem lamaður þar til ég stundi þeirri hugmynd minni fram, að það hlyti að vera Langavatn því ekkert vatn væri svo vitlaust að heita Þversumvatn.

„Mikill snillingur er þú frændi og er ekki amalegt að hafa svona gáfumann í ættinni.“ Sagði hann um leið og hann ók af stað, en bætti síðan við:
„Gættu þess bara að hnjóta ekki um þitt mikla vit í hverju spori. Margur apinn hefur hefur farið flatur á slíku.“

Ég leiddi þessa asnalegu speki hans hjá mér, enda sá ég ekkert samhengi milli mín og apa. Héldum við síðan áfram för okkar.
Þar sem við frændur vorum báðir ókunnugir á tilvonandi veiðislóðum, gerðu við stans á bæ einum til að spyrja til vegar. Við bæ þennan var vatn nokkuð stórt og þegar bóndinn á bænum hafði leyst úr vankvæðum okkar segir frændi:
„Þetta er fallegt vatn og langar mig að reyna við fisk í þessum legi. Munum við fóstbræður fá leyfi til slíkra athafna.“

Bóndi þagði um stund við þessari beiðni en sagði svo, að það væri heimilt og það án greiðslu. Fórum við svo að tígja okkur til veiðanna og hófum svo að lemja vatnið með flugum, spúnum og möðkum. Og þarna var það sem ein veiðiflugan festist í eyra frænda. Stakkst hún í gegnum eyrað svo agnaldið stóð út öðru megin. Hvernig þetta gat gerst er mér hulið því frændi er alltaf með eyrnaskjólshúfu við veiðar. En allt um það, hann bað mig að fjarlægja þetta tilbúna kvikendi úr eyra sér og varð ég að klippa á tauminn og þræða fluguna áfram þá leið sem hún var á, á sinni óútskýranlegu ferð sinni til vatnsins. Þetta var ekki sársaukalaust fyrir eiganda eyrans enda blés hann mikinn yfir hjálpsemi minni og handlagni. Þegar ég hafði lokið þessari læknisfræðilegu aðgerð minni án þess að slíta eyrað af, rétti ég honum veiðarfærið sitt alblóðugt og hann velti því milli fingra sér og skoðaði það um nokkra stund. Leit síðan á mig og sagði:
„Mikið lán er það fyrir þjóðina að þú lærðir ekki til læknis. En ekkert skil ég eftir þessa reynslu mína, hversvegna kvenfólkið vilji vera með eyrnalokka.“

Síðan héldum við áfram að lemja vatnið og hættum ekki fyrr en komið var fram á kvöld. En ekki urðum við fiskjar varir. Þegar við höfðum fengið okkur fullsadda af baráttunni við enga fisk fórum við að búa okkur til heimferðar og vorum heldur þegjandalegir við það starfið. Kom nú bóndinn röltandi til okkar og spurði hvort nokkur fiskur hefði gefið sig? Ég sagði sem var, að vatnið væri steindautt fyrir utan, að frændi hefði sett í einn eyrugga. Bóndi horfði yfir vatnið og sagði með hægð:
„Já, það hvarflaði að mér því í þessu vatni hefur aldrei fiskur verið svo ég viti. En ég gat bara ekki neitað ukkur um að reyna þar sem þið báðuð svo kurteislega um leyfi.“

Síðan snéri hann frá og hélt heim á leið. Þetta var kraftalegur maður og ívið lotinn um herðar. Og þar sem hann fjarlægðist okkur var ekki annað að sjá en hláturkippir færu um sterklegan skrokk mannsins þar sem hann rölti heimleiðis með hendur fyrir aftan bak og leiddi skrattann.

Og þar sem ég stóð þarna hálf lamaður eftir yfirlýsingu mannsins á fiskileysi vatnsins, var með litið upp á þetta langa og mjóva andlit frænda og sá, að um andlit hans breiddist þetta ómóstæðilega breiða og hlýja bros og hann sagði með ódulinni aðdáun í röddinni:
„Mikið ósköp er þetta skemmtilegur maður og fari hann vel, því hann leyfði okkur þó að reyna.“


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband