16.9.2009 | 15:10
Að fá kosningarétt.
Þótt ekki séu neinar kosningar í nánd svo vitað sé langar mig að segja hér frá þegar ég öðlaðist kosningarétt í fyrsta sinni.
Mikið öfunda ég allt það unga fólk sem um þessar mundir öðlast kosningarétt. Ég öfunda það vegna þess að í dag er þetta unga fólk miklu upplýstara um stjórnmál en við sem fengum þennan sama rétt á tímum kaldastríðsins og járntjaldsins. En á þeim tíma fékk almenningur alla sína pólitísku uppfræðslu úr niðurnjörvuðum flokksblöðum sem svifust einskis í áróðri sínum. Voru síður þessara flokksblaða uppfullar af hreinum lygum og hálfsannleik um andstæðinganna, sem oftar en ekki voru sagðir slík illmenni og ófreskjur í pólitískum gjörðum sínum, að landi og þjóð stafaði stórhætta af tilvist þeirra og ættu því sumir þeirra að geymast inn á Kleppi og það í spennitreyju. Á þessum tíma var pólitíkin annað hvort blá eða rauð. Í hinu pólitíska litrófi voru aðrir litir ekki til, nema að vera skyldi að það örlaði máske fyrir einhverri grænni slikju á Framsókn.
Já, ég öfunda þá sem um þessar mundir geta myndað sér lífskoðun án þess ofurvalds sem flokksblöðin höfðu á skoðunarmyndun almennings á þessum tíma.
Annars var það mér mikil raun að öðlast kosningarétt og er ég varla búinn að jafna mig á þeim feng mínum enn þá. En þar sem á þessum tíma vantaði alla pólitíska uppfræðslu fyrir okkur unga fólkið, skildi ég t.d. ekki vel hvernig ég ætti að nálgast þennan rétt minn. Hvort hann yrði sendur mér í pósti eða ég sjálfur yrði að fara á einhverja opinbera skrifstofu sem hafði með úthlutun kosningarréttar að gera. Þetta var skiljanleg hugsun því á þessum tíma voru allskyns stofnanir sem gerðu ekki annað en úthluta allskonar leyfum og uppáskriftum. Og oft las maður í blöðunum um þá flokksspillingu sem ríkti á þessum úthlutunarstofnunum og að þar fengu þeir einir úrlausn sinna mála sem þá stundina tilheyrðu réttum flokki. Skildist mér á allri umræðu að oftast fengi fólk neitun við beiðnum sínum á þessum kontórum. Helst að fólk fengi einhverja fyrirgreiðslu ef það væri heildsali ella bóndi og tilheyrðu þá íhaldinu eða framsókn. Kommarnir fengu aldrei nein leyfi.
Í þessum þrengingum mínum um minn eigin kosningarétt sá ég ekki annað ráð en leita mér uppfræðslu hjá mér skynsamari manni og spurði hann því hvort ég fengi bréf?
Bréf, sagði sá skynsami. Til hvurs þarftu bréf. Hver ætli svo sem að skrifi þér bréf og þá til hvurs? Nei, þetta liggur allt í hendi og þú þarft ekkert bréf.
Fer ég þá á úthlutunarkontór?, spurði ég með kvíða í röddinni.
Nei, ætli það. Ekki held ég það nú. Nema þá helst til skömmtunarstjóra, en hann segir nei við öllum beiðnum.
En samkvæmt stjórnarskránni á ég að fá kosningaréttinn núna. Hann getur barasta ekki sagt nei. Það væri brot á rétti mínum.
Brot og já, kannske það. En máske eðlilegt brot ef maður hugar að viti þínu. En svaraðu mér einu. Finnst þér, að strákhvolpur sem þú sem varla örlar á að hafi nokkurn snefil af hvolpaviti eigi að fá að hafa örlög þjóðarinnar í hendi sér með atkvæði sínu á kjördegi?.
Ég velti þessari spurningu hans um stund fyrir mér og sagði síðan:
Þó svo að skömmtunarstjóri meini mér ekki þátttökunnar, þá fæ ég ekki séð að atkvæði mitt skipi miklu máli fyrir örlög þjóðarinnar. Og fyrst þú mynntist á hvolpavit, þá hef ég þau einu kynni að hundhvolpum, að margur þeirra hefur meira vit en sumir sem njóta kosningaréttar.
Jesús María og allir árar andskotans. Hvurslags vanviti ertu? Veistu ekki einu sinni hvað hvolpavit er? En nóg um þetta. Þú ferð bara á kjörstað og kýst og svo er það búið.En eitt vil ég þó segja þér í fyllstu alvöru. Pólitík er samsuða af lygi og sannleika og því gildir það eitt að kjósa bara eftir sinni eigin sannfæringu, en ekki fyrir orð eða vilja annarra. Ef þú gerir það þá verður samviska þín alltaf hrein gagnvart gjörðum þínum við kjörborðið.
Þessi síðustu orð vinar míns hef ég síðan alltaf haft að leiðarljósi við kosningar og því kýs ég alltaf rétt. Og geri aðrir betur.
Flokkur: Af mér og fjölskyldu minni | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.