30.9.2009 | 20:36
Er þetta einhver frétt............
Laun sérfræðinga hafa hækkað | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.9.2009 | 19:35
Guði sé lof eða hvað!
En þótt stýrivextir séu ekki þeir hæstu í heiminum hér á Íslandi,hvernig kemur það þjóðinni til góða?Ekki sé ég þess nein merki á bata hjá okkur þótt aðrar þjóðir beri hærri stýrivexti en við. Þessir háu stýrivextir sem hér eru það eru þeir sem skipta máli en ekki stýrivextir í öðum löndum.En sjálfsagt átti þessi frétt að vera einkvers konar friðþæging,svo þjóðinni liði betur við þá okur vexti sem hér eru.
Vextir ekki hæstir á Íslandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
24.9.2009 | 17:33
Morgunblaðið fremur.....
Davíð og Haraldur ritstjórar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
23.9.2009 | 11:28
Glæpasamtök lögleg vegna...........
Hvernig má það vera að ekki sé hægt að banna með lögum að glæpasamtök starfi hér á landi. Hélt það vera einfalt mál að setja viðbótar ákvæði í lögin um félagafrelsi sem kæmi í veg fyrir að slíkur ófögnuður næði hér fótfestu.Og þau lög sem nú gilda voru samin á þeim tíma þegar íslendingar höfðu aðeins afspurn af slíkum óþjóðalýð en þurftu ekki að lifa við slíkan ófögnuð, sem við gerum í dag. Ég krefst þess að lögunum verði breytt svo þjóðin megi lifa í sæmilegum frið við heimska innbrots- og bílaþjófa.Ég skora á ríkisstjórn og alþingismenn að snúa sér strax að verkefninu og sýna nú ekki sama andvaraleysið og þeir gerðu gagnvart fjárglæpamönnunum.
Margir glæpahópar hér | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.9.2009 | 18:09
Það er ekki vonum seinna!
Það er ekki vonum seinna að framsóknarmenn krefjist tafarlausra úrlausna fyrir fjölskyldurnar í landinu,eftir að þeir stóðu að hruni íslenska fjarmálakerfisins.
Batnandi mönnum er best að lifa - ekki síst framsóknarforustunni.
Framsóknarmenn vilja að gripið verði til aðgerða strax | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
22.9.2009 | 13:29
Ekki meir,ekki meir.
Getgátur eru uppi um að Davíð Oddsson verði næsti ritstjóri á blaði auðjöfranna og kótaeiganda þ.e. Morgunblaðinu.
Gaman verður þá að lesa skrif hans um t.d. um kótamálið.Sjálfsagt mun hann ekki taka við fyrirskipunum frá eigendunum blaðsins um hvað hann lætur á blað, líkt og hann sakaði starfsfólk svokallaðra Baugsmiðla gera.En hann sakaði þá um að ganga bara erinda eigenda þeirra miðla og þyrðu ekki annað en lúta í duftið fyrir eigendavaldinu.Nei,svoleiðis mun Davíð Oddsson ekki starfa.Hann mun verða frír og frjáls frá eigendum Morgunblaðsins.
Eða trúir nokkur maður því?
Og svo mun halda áfram að birtast ritstjórnargreinar og Reykjavíkurbréf þar sem kótakerfið er varið og það dásamað þrátt fyrir að það hafi lagt sjávarútvegsþorpin á landsbyggðinni í rúst. En eins og allir vita eru í þeim greinum birtar skoðanir Morgunblaðsins en ekki ritstjórans(hann gæti þó haft sömu skoðun) eða eiganda blaðsins. Um skoðanir sínar skrifar blaðið sjálft.Merkilegt blað Mogginn .
En Þjóðinni til heilla segi ég:ekki meir,ekki meir af Davíð Oddssyni.
Ekki búið að ráða nýjan ritstjóra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.9.2009 | 20:38
Er maðurinn api?
Eitt að því sem ég þoli illa er þegar fólk hringir í mig og kynnir sig ekki. Slíkt er að mínu áliti hreinn dónaskapur og tillitsleysi gagnvart heiðarlegu fólki sem í mesta grandaleysi svarar í þetta tæki og fær þá umbúðalaust yfir sig einhverja sögu um einhverja heimska Jónu frænku sem er orðin ólétt einu sinni enn eftir einhvern heimskan Palla í næsta húsi, sem hún vill ekkert hafa með að gera því hann er svo ljótur og leiðinlegur.
Og þegar maður öskrar í símann að maður þekki enga Jónu og því síður nokkurn Pál sem væri svo vitlaus að fara að barna einhverja Jónu, þá er bara sagt - fyrirgefðu - ég er að tala við vitlausan mann. Og síst af öllu þoli ég þetta tæki þegar það hringir á fréttatíma sjónvarpsins - þegar ég sit í makindum og gegni húsbóndaskildu minni á heimilinu. Þó hef ég margt reynt og laumast til að taka símann úr sambandi á þessum tíma húsbóndans, en einhverveginn veit konan alltaf af slíku og stingur öllu draslinu í samband aftur og þá með svip sem segir að svona geri maður ekki.
Svo var það eitt sinnið að þetta skaðræðis tól hringdi á umræddum fréttatíma og þar sem Davíð allsherjargoði var að segja eitthvað miður gáfulegt um að menn gerðu ekki svona, heldur framkvæma þeir aðeins helminginn af óréttlætinu í fyrsta skrefi, var skap mitt ekki gott svo ég þaut upp úr húsbóndastólnum og hljóp að símanum. En þá varð ég fyrir því óláni að detta um stólkoll sem lá á gólfinu svo andlit mitt- sem ekki má við miklu, skall í gólfið og hálf vankaður tók ég upp símtólið og það fyrsta sem ég heyrði var;
Sæll frændi, segðu mér er maðurinn api?
Og þótt ég þekkti strax vinalega og sérstæða rödd frænda mín,þess manns sem ég dái umfram aðra menn var mér nóg boðið við þessa asnalegu og ótímabæru spurningu hans og svaraði ég því með röddu sem sagði allt um skaplyndi mitt þá stundina;
Að ef hann væri að leita sér fræðilegrar skýringa á atferli sínu eða útliti skildi hann hringja í Náttúrufræðistofnun en ekki mig.
Síðan skellti ég á - en eftir augnablik gall hvell hringing við aftur og ég reif tækið upp og þessi dæmalausi maður hann frændi sagði eins og ekkert hefði í skorist;
Það þýðir ekkert frændi, það yrði bara fræðilegt tal en engin niðurstaða. Það fæst aldrei niðurstaða ræði maður við fræðimenn, því þeir fara alltaf að tala um líkurnar á hinu og þessu. Nei, best er að hugleiða svona flókin mál við þann sem hefur einfaldan hugsunargang líkt og þú. Mann sem lætur ekki gáfur sínar flækjast fyrir sér að óþörfu og þess vegna spyr ég frændi, er maðurinn api?
Hverslags spurning er þetta um miðja nótt, öskra ég inn í tólið og í eyra hans og bæti við; Fékkstu einhverja tilfinningu fyrir uppruna þínum þegar þú hékkst á löppunum í gálganum uppi á spítala. Fannstu fyrir einhverjum skyldleika með þér og apa?
Taktu tímaskyn þitt til góðrar endurskoðunar frændi, segir rödd hans. Því ekki er nótt heldur er snemma kvelds. En það er aldeilis að það liggur illa á okkur Selfossbúum segir hann og ég heyri glettnina sjóða í hálsi hans. Hann segir alltaf "okkur Selfossbúum, eftir að íhaldið í Reykjavík missti borgina í hendur R-listans.
Já frændi, heldur hann áfram: það var einmitt eftir slysið í gálganum sem ég fór að hugleiða þetta með uppruna okkar. Þú veist máske ekki að ég slasaðist á spítalanum. Taugin sem hélt mér uppi í gálganum gaf sig, þegar ég reyndi að klóra mér neðst á fætinum, sem þá var reyndar orðinn efsti hlutinn af líkama mínum. En við þá tilraun mína slitnaði taugin svo ég slengdist með ógnar krafti til lofts með fæturna og búkurinn sveiflaðist allur til þegar lóðin skullu í gólfið. En lánið leikur alltaf við mig, því það varð mér til happs að konan mín elskuleg var í heimsókn og var einmitt á þeirri stundu að bjástra eitthvað til fóta við rúmið svo ég skall á henni svo hún fór í gólfið og handleggsbrotnaði ásamt öðrum minnihátta áverkum. Annar veit ég ekki hvernig farið hefði. En það merkilegasta er eftir, þegar læknirinn skoðaði taugina sem slitnaði. Sagði hann;
Það þarf meira en meðal Górillu til að slíta þetta ". Og þá frændi sæll fór ég að hugleiða uppruna okkar.
Nú var mér öllu lokið og ég sat sem lamaður og horfði á símtólið og á meðan fann ég hvernig andlitið á mér bólgnaði allt út af reiði og ekki síst eftir að ég skall um stólinn. Og með hjáróma röddu spurði ég hann: Hvort hann þyrfti að hálf drepa sig og konuna svo hann færi að hugsa. Og ef hann vildi vita sannleikann um uppruna sinn, þá sæist hann ábyggilega í öllum þeim aragrúa læknaskýrsla sem ritaðar hafa verið um hann. Og hann fengi sjálfsagt að líta á þær ef hann hefði hálft ár á lausu til lestrar.
Jæja frændi sæll! sagði hann og varð nú hættulega vinalegur í röddinni.
En það er einnig annað sem vakið hefur upp forvitni mína um uppruna okkar. Má ég spyrja í einlægni frændi sæll, hefur þú nokkurn tíma séð sjálfan þig dansa - nei - ekki það. En mér hefur alltaf fundist þegar þú framkvæmir þá fótamennt - að þig vanti einungis bananna í munninn og þá væri hvurjum manni uppruni ættar okkar ljós.
Og þar sem ég sat þarna með símtólið við eyrað lamaður og reiður og orðlaus og íhugaði hvernig ég gæti svarað þessari ósvífni mannsins kallaði konan á mig og sagðist vera búin að smyrja brauð með kvöldkaffinu og það væri með bananaáleggi -
Þá fylltist ég réttlátri reiði og talaði ekki við konu mína í næstu tvo daga.
Frændi | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.9.2009 | 19:39
Þeir kveiktu bálið undir okkur.
Hvernig má það vera að fólk ætli að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Man fólk ekki að það var hann sem kveikti það bál sem enn logar undir fótum okkar og mun loga næstu áratugi. Er fólk svo blint á gerðir þessa flokks að það er tilbúið enn einu sinni að leiða hann til valda þjóðinni til óþurftar.
Nei, gefum honum frí frá valdastólunum í mörg ár og hreinsum til eftir hann.Sópum burt flokksgæðingum hans úr áhrifaembættum og gerum þjóðfélagið á Ísland hreint og opið.
Sjálfstæðisflokkurinn stærstur á ný | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
18.9.2009 | 14:44
Þær norsku óþarfar.
Hér sést vel hversu íslenska kýrin er góð til mjólkurframleiðslu.
En fyrst svo mikil mjólk er framleidd hví lækkar þá ekki verðið til neytanda.Eiga þarna ekki við spekin um framboð og eftirspurn?
Og spyr sá sem ekki veit;til hvers þurfum við ofvaxnar norskar beljur.
En allt um það.
Guð blessi íslensku kýrnar.
Metframleiðsla á mjólk | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
18.9.2009 | 13:47
Gvendur magalausi.
Sumarið var búið, haustið komið og réttirnar búnar. Ég var aftur kominn til Reykjavíkur úr sveitadvöl minni fyrir vestan og beið þess nú þess eins í leiðindum að skólagangan hæfist aftur og þá yrðu ennþá meiri leiðindi .Sláturtíð var hafin. Að vísu þurfti ég ekki að láta mér leiðast þarna í höfuðkaupstaðnum, því fyrir stráka sem voru full frískir og heilbrigðir í anda var nóg að starfa. Til dæmis styttu við strákarnir okkur oft stundir við allskyns strákapör og hrekki. Það var mjög vinsælt hjá okkur t.d. að strjúka korktappa við stofurúðurnar þar sem fólk sat inn og hlustaði á útvarpið. En af viðkomu korksins við glerið ,myndaðist ótrúlegt og eymdarlegt ískrandi hljóð inn í stofu svo ekki var gerlegt að sitja þar í næði og hlusta á útvarpið. Komu þá karlarnir arfavitlausir út og vildu ná okkur til hegninga, en þar sem við þekktum hvern krók og hvern kima í hverfinu og höfðum fyrirfram ákveðið allar flóttaleiðir, sluppum við alltaf nema Siggi langi sem var mjög hægfara á flóttanum og fékk hann því alla þá hegningu sem ætluð var okkur fjórum vinunum. En Siggi langi tók þeim refsingum sem á hann voru lagðar með mestu ró því allt þetta var svo helvíti gaman.
Nú var það svo að Gvendur pabbi Sigga langa var einhver sá grennsti maður sem ég hef augum barið á lífsferli mínum. Og ég held að hann sé einnig einhver þöglasti maður sem búið hefur á landinu frá upphafi, þó var hann ekki mállaus. Aldrei heyrði ég hann segja orð við okkur strákana og var þá sama hvaða djöflagang við framkvæmdum í návist hans. Hann var alltaf jafn þögull og í minningunni man ég ekki eftir hvernig rödd hans hljómaði. En þessi maður var ekki eins og allir aðrir, því í hann vantaði mestan hlutann af maganum sem hafði verið skorinn í burtu. Og þarna er sem sagt komin skýringin á því hvers vegna Gvendur var svona mjósleginn. Enda sagði Siggi sjálfur, að pabbi sinn gæti aðeins borðað hálfa rúgbrauðsneið í einu og þá væri hann saddur:
Já, það er alveg býsn hvað pabbi getur étið lítið. Ef hann étur heila brauðsneið með osti þá sést hún framan á honum. Það er hryllilegt, sagði Siggi og reyndi að skapa samúð með föður sínum.
Það var sem sagt komin sláturtíð og mamma og pabbi höfðu tekið nokkur slátur og stóðu nú að verkun á innmatnum fram í þvottahúsi. Og þar sá ég vambirnar í bala og þá skaut upp þeirri hugsun hjá mér, að ef mér tækist að stela einni vömbinni, þá gæti ég bjargað matarlyst Gvendar magalausa. Og við þessa hugsun mína hló ég inn í mér.
Ég sætti nú færis þegar foreldra mínir tóku sér smá hvíld frá amstrinu læddist fram í þvottahúsið og stal einni vömbinni, stakk henni blautri niður í tóma skólatösku og hljóp sem fætur toguðu til Bigga ofvita vinar míns. Ég sagði honum frá þeim óborganlega hrekk sem ég hafði í bígerð, en til þess að hægt yrði að framkvæma þetta snilldarbragð mitt yrði að skrifa bréf. Og því leitaði ég til hans sem sanns vinar og mætti hann nú ekki bregðast fóstbróður í raun. Enda hefði hann einn okkar vinanna aðgang að ritvél.
Biggi ofviti sem var alltaf tilbúinn í allt sama hversu vitlaust og glæfralegt það var, leit til mín og sagði: Mikið snilldarbragð hefur þú upphugsað og höldu því til verksins og skrifum þetta ódauðlega bréf til Gvendar.
Tókum við síðan til við bréfaskriftirnar og að lokum hljóðaði bréfið til Gvendar magalausa eitthvað í þessa veru:
Herra Gvendur.
Þar sem ég tók óvart of mikið af vömbinni þinni þá sendi ég þér hér með nýjust gerð að varamaga, sem er nýjasta undrið í læknavísindum. Til þess að hann brúkist rétt þá skaltu setja hann fyrir neðan naflann og festa vel með sláturgarni. Hafðu hann samt ekki svo síðan að þú getir ekki mígið. það er von mín að eftir þessa aðgerð getur þú étið meira en hálfa brauðsneið í mál.
Læknirinn.
Ofvitinn renndi augum sínum gáfulega eftir hverju línu bréfsins og sagði síðan:
Mikið andskoti er þetta gott bréf. En heyrðu Dóri, mikið djöfull væri gaman að setja einnig einn hrútspung með vömbinni. Það væri æðislegt að sjá Gvend reyna að festa honum með sláturgarni við sinn gamla, ha-ha-ha. Og þegar Gvendur færi að hátta segði Stína Elsku Gvendur minn magalausi, hvað ertu að gera með þetta. Dugar þér ekki lengur einn?
Ha-ha-ha, hló sá gáfaði og hélt áfram að lýsa draumum sínum um eymdarástand Gvendar magalausa með viðbundinn hrútspunginn milli fóta sér.
Eftir bréfaskriftina var næst á dagskrá að koma vömbinni heim til Gvendar án þess að eftir yrði tekið. Pökkuðum við sendingunni inn í pappakassa, límdum bréfið á kassann og lögðum síðan í þessa hættulegu póstferð. Allt gekk að óskum, úthurðin var opin svo við laumuðum sendingunni inn fyrir dyrnar og hlupum svo í burtu eins og lífið væri í húfi.
Leið nú þessi dagur framundir kvöldmat en þá sé ég hvar sá magalausi kemur út um dyrnar heima hjá sér. Og þegar hann sér mig tekur hann til við að hlaupa í átt til mín og sýnist hann nú mjórri en nokkru sinni fyrr. Auk þess sá ég ekki betur en að maðurinn væri sífellt að skipta um lit í andlitinu. Stelpurnar sem voru í parís hættu leik sínum og horfði í forundri á þennan veiklulega og magalausa mann, sem með ógnarhraða stefndi í átt til mín og var stundum dumbrauður ella helblár í andlitinu. En ég þekkti hverfið betur en hann og var einnig fljótari á fæti og slapp því undan reiði mannsins.
Þegar ég nokkru seinna kom heim var ég ekki fyrr kominn úr gúmmítúttunum en karl faðir minn snaraðist fram á gang, tók ógnar fast um herðar mér og vippaði mér án nokkurra orða fram í þvottahús. Sleppti mér þar á miðju gólfi og sagði mér að setjast. Ég benti honum á, að þarna væri ekkert til að setjast á og því gæti ég ekki sest.
Sestu! sagði pabbi og benti á blautt gólfið.
Það er rennblautt. Ég get ekki sest í bleytuna enda verður mamma þá reið, sagði ég og þóttist hafa snúið á karl föður minn.
Það gerir ekkert til. Ég get þá sagt krökkunum í götunni að þú hafir mígið í buxurnar af hræðslu við að sitja hér í myrkrinu.
Við þessi orð hans var ég viss um að sá gamli væri orðinn jafnvitlaus og Gvendur magalaus. Og settist ég því í bleytuna.
Hvar er gorvömbin sem þú stalst frá mömmu þinni. Og enga lýi hér til að komast hjá hegningu. Og sjáðu til, við hvert ósatt orð skaltu þrífa eina vömb og ekki bara hér heldur einnig hjá Guðmundi og Stínu. Og út með sannleikan, hvar er vömbin?
Ætli Stína sé ekki að reyna að binda vömbina framann á Gvend og kannske líka punginn? sagði ég og vildi ekki sleppa ótuktinni úr mér.
Mér koma engir pungar við, mínir eru allir hér. Og þú litla óhræsi ferð ekki í skólann á morgun. Þú verðu hér og mörhreinsar allan þann ristil sem hreinsa þarf og það eru nokkrir metrar. Og héðan kemur þú ekki fram fyrr en ég segi. Er það skilið?
Ég sagði ekkert því ég fann hve skömm mín var mikil. Að vera látinn sitja rassblautur, matarlaus í myrkvuðu þvottahúsinu, þar sem jafnvel draugar gátu leynst var meiri skömm en nokkur strákur getur þolað. Og ég fann hvernig ég minnkaði úr ósvífnu og hræðilegu hrekkjusvíni í lítinn og hræddan strák. Tíminn í þessu myrkvaða þvottahúsi ætlaði aldrei að líða og ég þorði ekki að standa upp af gólfinu af ótta við, að einhver ósýnileg hönd kæmi út úr myrkrinu og þrýsti mér aftur niður á blautt gólfið.
Svo opnuðust dyrnar og ljósið var kveikt. Pabbi kom inn, horfði á mig og spurði hvernig mér liði og hvort ódámurinn væri farinn úr mér? Ef svo væri ekki þá kæmi ég ekki fram í bráð.
Hann er farinn. Sagði ég heldur lágróma.
Hvert fór hann? Spurði refsivöndurinn.
Vonandi heim til Gvendar magalausa. Sagði ég með nokkru stolti í röddinni.
Já, það vona ég líka. sagði pabbi og brosti og það var eins og hann væri allt í einu orðinn ánægður og stoltur af þessu rassblauta strákóféti sínu. Enda þótti föður mínum lítið varið í þá foreldra sem voru alltaf að klagast yfir hrekkjum og öðru eðlilegu athæfi eðlilegra barna. Og sagði því oftar en ekki, að slíkir foreldrar væru hvimleiðari en öll hrekkjusvínin í Norðurmýrinni. Og hafi hann þökk fyrir þá kennslu sína.
Af mér og fjölskyldu minni | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)