3.9.2009 | 21:51
Farið til veiða. (Seinni hluti)
Seinni hluti.
Ég sat hljóður og fáskiptinn undir stýri bílsins allt þar til við komum á áfangastað. En þegar á áfangastað er komið er það mitt fyrsta verk að velja gott tjaldstæði og hefja tjöldun. En nú verð ég að játa, að það verk vefst stundum fyrir mér, því fyrir ekki mörgum árum síðan keypti ég okkur hjónum forláta sænskt tjald. Tjald þetta leit ákaflega vel og fallega út á mynd og var sagt vera svo einfalt og fljótlegt í uppsetningu að hver meðal auli gæti tjaldað því á fimm mínútum. Og þar sem það væri einnig með sérstakri gerð af súlum stæðist það mikinn veðurham. En það eru einmitt þessar sérstaklegu gerðu súlur sem urðu þess valdandi að í fyrstu tók það mig um einn og hálfan tíma að reisa þetta einfalda tjald. Og sjá því allir að ég er enginn meðalauli eins og sagði í auglýsingunni. Einhvern veginn var mér fyrirmunað að koma þessum tuttugu og þrem súlubitum saman, annað hvort urðu súlunnar alltof langar eða helmingi of stuttar. Stundum urðu þær bognar til endana eða tók einhverskonar u-beygju í miðjunni. Og í hvert sinn sem ég hélt mig búinn að koma þessu einfalda drasli saman, skreið ég inn í tjaldið með allt byggingarefnið á eftir mér og þar inni barðist ég vonlausri baráttu bæði við tjaldið og við þessa vitlausu sænsku súluhönnun.
En meðan ég baslaði við þetta óskiljanlega og flókna verk í byggingarlist stóð konan álengdar og sá ég ekki betur, en að um huga hennar færu mjög svo skemmtilegar hugsanir, því um andlit hennar lék öðru hvoru líka þetta stóra og glettna bros eða dillandi hlátur hennar barst út í sumarkyrrðina. En að lokum fór þó svo að tjaldið komst upp og var það sameiginlegu átaki okkar hjóna að þakka. Konan raðaði saman súlunum og rétti mér síðan inn í tjaldið og þar setti ég hverja súlu á sinn stað eftir fyrirmælum konunnar. Og alltaf hef ég dáðs af því síðan hversu fljót hún var að sjá út hina flóknu byggingarlist tjaldsins. Í dag get ég hjálparlaust komið þessu einfalda tjaldi upp því konan pakkar hverja súlu fyrir sig og merkti hvern súlubita með tölunum 1-2-3-4 - svo nú er það leikur einn fyrir mig að tjalda hjálpi konan mér við verkið.
Eftir góðan snæðing og ilmandi kaffi sem við hjón útbúum í sameiningu á meðan ég tek til veiðiáhöldin, höldum til veiðanna. Ég ber allar birgðir mínar í bakpoka og í plastpoka og í sérhannaðri og rándýrri veiðitösku, og stangirnar þrjár rísa tignarlega upp úr festingum sínum á bakpokanum. Og ekki skemmir það fyrir þeim sem mig sjá, að ég er fullklæddur í forlátan veiðigalla sem er í felulitum, og sérstaklega hannaður svo fiskurinn sjái mig ekki. Og svo er ég með veiðihatt á höfði sem er alsettur skrautlegum flugum af öllum stærðum og gerðum, litum og lögun. En konan heldur bara á þessari einu stöng sinni og á hana hefur hún fest einn spún eða flot og neðst á taumnum hangir öngull. Þegar kemur að vatninu skyggi ég vatnið með sérslípuðum veiðimannagleraugum og reyni að sjá hvar fiskurinn gæti haldið sig, en konan labbar barasta beint af augum niður á vatnsbakkann og sveiflar stöng sinn á sinn eigin hátt sem er án alls veiðistíls.
Ekki finnst mér líkur á að hann haldi sig hér, segi ég og horfi með speki og þekkingu hins sanna veiðimanns til botns í vatninu.
Ætli ég rölti ekki inn á tangann sem skagar þarna út í vatnið. Ég held að hann sé að vaka þar. Kemur þú með kona?
Æi nei, segir mín elskilig, Ég nenni ekki þessu sífeldu rápi um bakkann. Farðu bar einn í þessa Bjarmalandsför þína, en gættu þín á dýpinu svo ekki fari sem síðast þegar ég varð að vaða út í vatnið upp að brjóstum, krækja í þig með spúninum og draga þig að landi því þú hafðir asnast út í dýpið og flaust svo ósjálfbjarga á vatninu eins og útblásinn plastpoki frá kaupfélaginu.
Eftir þessa frásögn hennar af fyrrgreindu óhappi mínu segi ég bara:
Jæja, og lít til lofts og síðan á klukkuna:
Það er nú orðið svo framorðið.Ætli maður verði ekki bara hér en fari hitt á morgun. Já, ætli ekki það. Enda erum við þá saman við veiðar og ég get hjálpað þér ástin mín ef þú lendir í nokkrum vandræðum. Síðan legg ég allt dótið frá mér og vel stöng og spún og byrja veiðar.
Það eru svo sem tuttugu metrar á milli okkar hjóna þar sem við stöndum á vatnbakkanum og sé ég því stuttu seinna, að konan verður vör fiskjar og innan skamms er hún komin með væna bleikju á land og eftir nokkur köst landar hún annarri og svo þeirri þriðju.
Hér er allt fullt af fiski, kallar hún. Hann tekur svartan Tobý.
Ég skipti um agn og læt 15 gramma svartan Tobý á tauminn en það er sama, ég verð ekki var við neinn fisk, sama hvað ég grýti beitu minni oft og langt út í vatnið. En á meðan landar kona þrem bleikjum í viðbót. Ég reyni að láta þetta ekki fara í skap mér en skipti þó um agn og læt nú maðk á og horfi svo vökulum augum á flotið en ekkert gerist, það bara flýtur á yfirborði vatnsins. Ekki nart að sjá, þar til allt í einu að það hverfur undir yfirborð vatnsins og ég finn hinu einu sönnu veiðitilfinningu hríslast um allan skrokkinn:
Ég er með ´ann!, hrópa ég stoltur til konunnar og byrja að berjast við fiskinn sem heldur fast á móti í byrjun en gefst síðan upp fyrir kunnáttu minni og veiðitækni.
Já, þarna náði ég þér, segi ég við fiskinn úr djúpinu um leið og ég dreg hann á land. En stærð þessa fisks var ekki mikil, eiginlega er ekki hægt að tala um stærð heldur um smæð hans. Og þegar ég hef náð veiðinni af önglinum kasta ég aftur og sé þá að konan er að landa einni bleikjunni enn. Og eftir sínar óveiðimannslegu tilburði leggur hún frá sér stöngina og stikar síðan af stað í átt til mín.
Hvert ertu að fara, kalla ég til hennar, en hún heyrir ekkert og er óðar komin til mín.
Hvar er bleikjan, spyr hún og lítur á fiskinn þar sem hann liggur falinn milli steina.
Óskapar kríli er þetta, heldur frúin áfram og bætir við;
Ég er búinn að landa átta stykkjum og engin undir tveim pundum og allt upp í þrjú pund.
Minn fiskur er ekkert lítil, segi ég og gerist svolítið fúll vegna þarflausu athugasemda konunnar.
Ég sé ekki betur en hann sé mjög stór eftir aldri. Já, meira að segja frekar stór eftir aldri, bæti ég við um leið og ég dreg færið að landi.
Mínir eru stærri og eru þeir þó nokkrum árum yngri, segir konan og reynir að vera fyndin.
En verum nú saman þar sem ég hef staðið. Má vera að þú fáir þar stærri þumlung en þetta, segir hún brosandi. Eftir nokkra þögn svara ég henni með þeim orðum:
Að máske sé það best, því það sé styttra til höfuðstöðva okkar þaðan en héðan.
Og svo færði ég mig til konunnar og byrja veiðiskapinn að nýju. En það er sama þótt ég standi við hlið hennar, notaði sama agn og hún, kastaði sömu vegalengd út í vatnið og hún, hún veiðir en ég ekki. Þótt ég sé yfirleitt ánægður með konu mína þá gat ekki hjá því farið, að með þessu framferði sínu færi hún nokkuð í skap mitt og gerðist ég því fámáll og þögull þarna á vatnsbakkanum, og það um langan tíma. En á meðan dró hún bara fleiri fiska og var óþolandi ánægð með sjálfa sig. Að endingu stóðst ég ekki mátið og sagði:
Þarftu ekki að fara að huga að kvöldverði kona. Er það virkilega meiningin að ég svelta í hel á meðan þú stundar þessa rányrkju þína.
Nú horfði konan á mig þeim augum sem ekki verða misskilin og sagði:
Herra veiðisár og veiðifúll, ef þú er svangur skalt bara éta þinn eina fisk. Ekki verður það stærð hans að kenna, þótt hann standi í þér eins og eplið stóð forðum í kerlingunni.
Svo þagði hún nokkra stund og bætti við með röddu sem var einkennilega blíð;
En elskan mín ef þú vilt ekki borðar þessa dagsveiði þína þá skal ég bera hana heim að tjaldi. Þú hefur víst nóg með að bera allan þinn sérstaka og sérhannaða veiðiútbúnað. Og ef þú verður á undan heim í tjaldstæði þá heltu upp á kaffidreitil. svo máttu smyrja brauð og taka upp kex og kökur, flatkökur, skonsur og þess háttar.
Ég greindi þessa upptalningu hennar í fjarska því ég var lagður á stað í náttstað og þar sem ég gekk út úr þessari upptalningu, þá skildi ég vel alla þá veiðimenn sem fara einir af stað til veiða á laugardagsmorgnum.
Flokkur: Af mér og fjölskyldu minni | Breytt 6.9.2009 kl. 22:40 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.