8.9.2009 | 10:44
Í boði hjá frænda
Þar sem skap mitt er mjög gott í dag og lund mín mjúk - eins og nýsteikt lifur í sláturstíð ætla ég að segja ykkur frá viðskiptum okkar frænda.
Eitthvað það skemmtilegasta sem kemur fyrir mig er að vera boðinn á gamlárskvöld í mat til frænda og hans elskulegu eiginkonu.
Þau matarboð eru hrein ævintýri þó ég fyllist alltaf einhverjum einkennilegum kvíða í hvert sinn sem við hjónin fáum slíkt boð því ekki tel ég víst að ég komist heill heim eftir slíkan fagnað og hef reyndar reynslu fyrir slíku. Til dæmis þegar ég asnaðist til að skera með honum kjötið og hann með sinni einskæri lagni skar í tvo fingur mína svo það blæddi nokkuð úr sárunum.
Það blæðir úr svíninu sagði hann við konu sína og gerði engan greinarmun á mér og kjötinu. En þegar hann sá að það blæddi úr mér en ekki kjötinu var eins og hann tæki gleði sína aftur. Skoðaði hann síðan sárin og brosti þessu yndislega skakka brosi sínu til konu sinnar og sagði:
Alltaf er frændi jafn laginn og náðu í plástur elskan mín svo þetta vinstrisinnaða blóð spilli ekki lengi gleði heimilisins, það væri illa farið með góða kvöldstund.
Síðan snéri hann sér að mér og hélt áfram;
Frændi sæll, taktu gleði þína aftur því ekki þarf í þetta sinnið að taka putta þína af um öxl.
Í fyrsta sinni sem við hjónin fengum boð frá frænda að mæta til kvöldverðar á gamlársdag, barst okkur með póstinum í byrjun desember og var boð þetta skrifað á einhvern merarsnepil sem hann kallaði boðskort. Og heldur var skriftin klunnaleg enda skrifuð með vinstri hendi því sú hægri var í gifsi, eftir að honum hafði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að hoppa ofan á höndina á sjálfum sér og brotið þrjá fingur. Boðskort þetta geymi ég og varðveiti eins og dýrmætasta frímerki. En boðið var á þessa leið;
Kæri frændi.
Svo þú riðjist ekki óboðinn inn á heimili mitt á gamlárskvöld,
býð ég þér og þinni elskilig eiginkonu til ætis þetta kveld. Matur verður framreiddur klukkan sex og skal því mæting þín vera stundvíslega klukkan fimm, svo mín góða fjölskylda hafi klukkutíma til að jafna sig á að þú ert kominn til stofu.
Í bjóði þessu skulu allir alminniligir menn vera uppáklæddir.
Þú ræður í hvurju þú ert.
Þinn frændi.
Lengi dags sat ég með bréfasniffsi þetta milli handanna og eftir því sem ég las það oftar varð skap mitt verra.
Hvað átti þessi maður við. Var ég máske ekki alminnilegur maður. Var ég ekki eins og annað fólk. Það var hann sem var ekki líkur neinum öðrum mannverum. Svo alltof langur og alltof mjór, með þetta líka mjóva og langa andlit og með þetta skakka og asnalega bros sitt sem fór aldrei af þessu gúmíkenda og teygjanlega andliti. Honum fórst að tala um alminnilegt fólk.
Ég fer ekki fet. kallaði ég til konunnar.
Heyrirðu það frændi sæll? öskra ég út um opinn stofugluggan.
Þú getur sjálfur étið þitt viðbrenda lambalæri í þínu fínu fötum með þinni góðu ...
Hvað gengur á? segir konan um leið og hún reynir að draga mig frá glugganum.
Ertu orðinn vitlaus einu sinni enn.
Ég fer aldrei í þetta bjóð, held ég áfram að hrópa út um gluggan og held svo fast um gluggakistuna að fingur mínir verða stífir sem stálpípur þegar konan beitir mig aflsmunum og dregur mig frá þessum útsýnisstað.
Stilltu þig maður, það eru þrjár vikur til veislunnar eða ætlarðu að vera vitlaus allann þann tíma. Guð hjálpi mér, það er fullt að fólki sem horfir hingað inn.
Svo lætur hún mig setjast og strýkur mér um vangan svo ég róast.
Liðu nú dagarnir fram að veislutíma og hét ég því á hverju degi að fara hvergi í þennann mannfagnað hjá frænda.
En um þrjúleitið á gamlársdag spyr konan hvort ég ætli ekki í bað og klæða mig uppá svo við komumst tímalega til frænda.
Ég fer ekkert, segi ég og gerist hinn fúlasti í skapi og útliti.
Jæja elskan mín, þá förum við ekkert, segir konan; En fötin hanga inn í skáp og hrein nærföt, skyrta og sokkar eru á rúminu. Mundu svo eftir að raka þig og láta á þig rakspíra.
Ég raka mig ekkert, enda er ég ekkert að fara úr mínu húsi, segi ég og geri enga breytingu á fúllyndi mínu.
Á slaginu klukkan fimm hringi ég uppábúinn og nýrakaður dyrabjöllunni hans frænda og umsvifalaust opnast dyrnar og fyrir framan okkur stendur þessi einstaki og langi og þvengmjói maður með þetta elskulega skakka bros sitt og augu hans lýsa aðeins gleði og ánæju yfir komu okkar.
Við erum komin, hrópa ég hátt eins og ég óttaðist að hann heyrði ekki til mín þarna uppi.
Það er óþarfi að öskar framan í mig þótt gleði þín sé mikil, segir hann um leið og þetta einstaka bros hans breiðist með leifturhraða upp og niður og út um allt andlit hans. Og ég fyrirgef honum alla þá ólund sem hann hafði valdið mér í þrjár vikur. Svona getur eitt bros gert mikið.
Þetta gamlárskvöld er mér mjög minnisstætt því ekkert slys henti frænda og var það nýlunda. Enda harðbannaði hans góða kona honum að koma í eldhúsið vegna þeirrar slysahættu sem þar gæti þá skapast. Að vísu hellti hann úr tveim fullum glösum af jólaöli yfir konu mína þegar hann steig á lítinn bíl sem óvart varð undir fótum hans, svo hann gat ekki með nokkru móti hamið þessa löngu fætur sínar. Og með kostulegum tilburðum sentist hann að konu minni þar sem hún sat og féll í kjöltu hennar með þetta langa andlit sitt og lenti einhversstaðar á milli brjósta og læra konunnar með fyrrgreindum afleiðingum. Nú fór í verra, sagði hann, ætli ég hafi eyðilagt bílinn.
En mikil varð gleði hans þegar hann sá að bílinn var óskemmdur.
Þegar klukkan var rétt fyrir miðnætti fóru allir út til að kveðja gamla árið og heilsa því nýja og maður sá angistina og kvíðan skína út úr hverju andliti, því nú var hættulegasta stund sólarhringsins fyrir frænda - þegar hann tók að skjóta flugeldum sínum. En aldrei slíku vant gekk allt stórslysalaust og þega klukkan sló tólf og nýtt ár gekk í garð og allir föðmuðust og kysstust kallaði kona frænda til hans og sagði;
Minn elskulegur, komdu nú og kysstu mig gleðilegt ár meðan þú ert óslasaður.
Hvað liggur á því kona góð, sagði frændi, Ekkert hefst með óðagotinu og er ekki heilt ár framundan til þeirra hluta.
Og svo hélt þessi dæmalausi maður áfram að skjóta upp sínum flugeldum.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.