6.9.2009 | 19:46
Hún Emerentíana frænka
Hún Emerantíana frænka mín er engum öðrum konum lík enda er hún systir hans frænda sem ég hef skrifað um. Þó eru þau systkinin á engan hátt lík hvorki í geði eða útliti. Hann svona ógnar mjór og himinn langur og með þetta bros sem enginn vill missa af, á þessu langa andliti sem hvergi ætlar að enda. En hún lávaxin, frekar þykk um allan búkinn og hefur þetta yndislega bústna og hringlótta andlit sem sjaldan sýnir bros. Helst að maður sjái gleði hennar eða gáska speglast í þessum sérstæðu augum hennar sem eru kringlótt og nærri því svört að lit.
Hér eftir kalla ég Emerantíönu frænku aldrei annað en Tíu nema mikið liggi við, þá kalla ég hana fullu nafni svo hún móðgist ekki. En Tía frænka er alltaf að móðgast enda er hún kona með skap, stærilæti og þótta og er því eins og þið sjáið á allan hátt andstæða hans bróður síns bæði í geði og háttu.
Tíu frænku er ákaflega ólagið að hemja skap sitt enda kona fljótfær og fasmikil bæði í hugsun og hreyfingum. Og þegar hún hreyfir sig og er í sínum besta ham er eins og maður horfi á dýralífsmynd þar sem heil fílahjörð er á hlaupum og veit ekkert hvert hún stefnir.
Það var eitt sinn um vetur ekki fyrir löngu síðan og úti geisaði norðan rok með grimmdargaddi og skafrenningi að frænka hringdi í mig og sagði, að ég yrði að koma til sín og það núna strax. Og þegar Tía segir strax er eins gott að vera ekkert með hangs eða dútl og því þaut ég af stað illa klæddur til handa og fóta og barðist á móti storminum, gaddinum og skafrenningnum og var innan stundar farinn að skjálfa úr kulda.
Eftir mikinn barning í þessu aftaka veðri komst ég loks heim til hennar og hringdi dyrabjöllunni og sá um leið að hún var búin að fá sér dyrasíma. En það var sama hvað ég hringdi bjöllunni hún hvorki svaraði í þetta tæki sitt eða opnaði dyrnar. Þarna stóð ég blár og helkaldur og óveðrið gnauðaði í andliti mínu, en frænka lét ekkert heyra í sér og ég var kominn að því að snúa frá þegar ég studdi frosnum fingrum mínum einu sinni enn á bjölluhnappinn og viti menn, dyrasíminn vælir og frænka öskrar beint framan í mig úr tólinu:
Þetta er hér.
Ég veit það. Opnaðu helvítis hurðina. Ég er að drepast úr kulda. Ég er að verða úti, öskra ég á móti og reyni að yfirgnæfa hávaðan í rokinu.
Ég opna ekki fyrir ókunnugum, kallar þá Tía frænka frama í mig og dyrasíminn þagnar og ég stend og gapi framan í þetta þögla tæki.
Og þar sem ég norpa þarna verð ég magnþrota af reiði og kulda og vissi, að mér hafði orðið eitthvað á. En hvað? Jú ég hafði ekki kynnt mig. En Tía frænka lifir í þeirri kenningu að maður eigi aldrei að tala við þá sem ekki kunna lámarks mannasiði, eins og til dæmis að kynna sig í síma. Og þess vegna skellir hún því tæki á með þjósti og látum ef maður segir ekki til nafns. Ég hringdi því bjöllunni einu sinni enn og og hún öskrar sem aldrei fyrr í tækið.
Þetta er hér.
Hvar í ósköpunum gæti þetta verið annars staðar, hrópa ég á móti og segi síðan hver sé nærri dauða en lífi við dyr hennar. Því sagðir þú það ekki fyrr, kallar hún á móti og opnar nú loksins dyrnar.
Þótt mér sé kalt er skap mitt við suðumark, en ég veit ekki hvort ég skelf af kulda eða reiði, nema skjálfti minn stafi að hvoru tveggja, sem er öllu trúlegra. Og þegar ég stend stuttu seinna fyrir framan þessa kringlóttu og sérstæðu konu þá held ég áfram að öskra framan í hana og spyr með röddu sem einnig er hálf frosin.
Hverslags framkoma er þetta. Er það virkilega meiningin að drepa mig frá fjölskyldunni. Láta mig verða hér úti við dyr hennar sem hvern annan flækingskött.
Hún horfir á mig þessum svörtu augum sínum og segir svo með þjósti:
Ekki vissi ég hver var hér á ferð og þar að auki var ég að fá þetta tól í dag. Og í hvert sinn sem það hringdi hljóp ég í símann. Hvernig átti ég að muna eftir þessu tæki, ekki setti ég það upp. Og reyndu nú einu sinni frændi að hafa hemil á ofsa þínum og skapbrestum og segðu ekkert fleira með andlitið svona gaddfreðið, það gæti rifnað og finnst þér bætandi á fríðleika þinn. Þýðum það frekar og skap þitt með heitum Chocolatesopa og nýbökuðum vöfflum, og hún leggur hefðarfrúaráherslu á orðið Chocolate um leið og hún gengur inn ganginn með handarsveiflum sem minna á enskar yfirstéttarmaddömur.
Tía frænka drekkur aldrei í eldhúsinu heldur leggur hún ávalt á borð í borðstofunni, og þegar ég segi að mér dugi að fá sopann í drykkjarfanti í eldhúsinu móðgast hún stórlega, roðnar og keyrir höfuðið aftur fyrir herðar og segir:
Viljirðu matast eins og skeppna skaltu gera það á öðrum stað en hér. Þetta er ekkert hrosshús heldur heimili.
Svo lítur hún á mig þeim augum sem fær hvern mann til að skammast sín, þó hann sé saklaus af allri synd eða öðru verra. En þegar ég segist þiggja góðgerðir hennar á viðeigandi stað brosir hún og leggur fína Chocolatestellið sitt á borðið í borðstofunni, nær síðan í feikistóran vönd af afskornum blómum og setur hann á mitt borðið. Þvínæst ber hún tvo þriggja arma kertastjaka á borðið og kveikir á kertunum. Fer síðan fram og kemur inn með eftirlætis drykk sinn og háan bunka af vöfflum og ílát full af sultutaui og annað með þeyttum rjóma. Og þessu ekur inn í borðstofu á silfurfægðum fjórhjólafyrirmannahjólbörum og leggur það sem drekka skal og éta á sitthvorn enda borðsins og segir með röddu eins og um fjölmenna stórveislu sé að ræða Gjörið þið svo vel.
Og þarna sem við sátum við hvorn enda borðsins sá ég ekkert til frænku. Hvergi sá ég svo mikið sem glitta í hana vegna þess ægistóra blómvandar sem milli okkar var. Það var sama hvað ég starði inn í þetta litskrúðuga blómahaf, Tía frænka var mér algjörlega horfin. Og þegar ég kallaði inn í þennan blómarunna, hvort ekki mætti færa þetta gras til, fann ég en sá ekki hvernig þessi kona reisti sig við í stólnum og rödd hennar barst hvell og móðguð gegnum blómaþykknið. Og þessi rödd sagði allt um þá fyrirlitningu sem hún hafði á fegurðarsmekk mínum. Og hún hjó hvert orð og meitlaði svo mér yrði meining hennar skiljanleg. Þú hefur aldrei haft vit fyrir smekk. Hvernig eiga líka menn eins og þú að skilja fegurð blóma og matar. Þvílíkur ruddi. Svo sátum við þegjandi og ekki neita ég því að skap mitt fór batnandi við heitan drykkinn og vildi ég því hrósa frænku fyrir hvað hún gerði gott Kakó. En við þau orð mín sá ég hvar höfuð hennar birtist með feiknar hraða uppfyrir blómatorfuna og hékk þar sem sjálfstæður hlutur án tengsla við nokkurn búk. Og þetta höfuð sem nú var jafn litskrúðugt og blómvöndurinn á borðinu, horfði á mig með öllu sínu stærilæti og þótta og sagði:
Aldrei hef ég boðið fólki Kakó þegar ég get boðið því ekta Chocolate. Og þú frændi sæll skalt ekki dirfast, að bera mig fyrir slíkum kálfsdrukk.
Síðan birtist öll þessi kringlótta og lávaxna kona og var nú andlit hennar sem litarkort frá Hörpu á litinn, og hún stormaði fram á gang í allri sinni kvenlegu hefðarkonureisn og flumbrugangi og vissi ekkert hvert för sinni var heitið, heldur æddi um gang og herbergi sem rammvillt kú.
Ekki stóð þessi helför hennar lengi og þegar skap hennar hafði lægt og var orðið henni viðráðanlegt kom hún inn aftur með handarsveiflum hefðarkvenna og bauð mér innvirðulega að setjast til stofu og bætti við:
Og reyndu nú einu sinni að haga þér sem alminnilegur maður sem hefur einhver lífsstíl og getur haldið uppi samræðum um alvarleg málefni.
Þegar við höfðum setið drjúga stund í stássstofu frænku og rætt hin sundurlausustu mál og jafnað okkur á því sem á undan var gengið, bjóst ég til heimferðar. En ekki var annað viðkomandi en ég færi í leigubíl sem Tía frænka heimtaði að borga með þeim orðum, að ekki léti hún það spyrjast um bæinn, að hún hafi reynt að drepa mig á báðum leiðum mín, og úr augum hennar skein tvíræð glettni.
Þegar heim kom spurði mín elskulega eiginkona hvað hefði verið svo aðkallandi, að ég hefði rokið út í þetta foráttuveður illa klæddur og vanbúinn. En þá setti mig hljóðan, því aldrei spurði ég frænku til hver hún ætlaðist af mér. Og í einhverri fljótfærni sem mér er í engan stað eðlileg rauk ég áleiðis út og ætlaði aftur í þetta foráttu veður og berjast heim til Tíu. En þá kallaði konan og benti mér á, að betra væri fyrir mig að nota bæði skynsemina og símann. Ég notaði því hennar ráð og hringdi í snarheitum til frænku, kynnti mig virðulega og spurði hvað ég hefði átt að hjálpa henni með. Ég hefði ekkert gert og hún einskis beðið. Jú frændi góður, sagði Emerantíana frænka, þú hringdir dyrasímanum, en ég vildi bara vita hvort þetta nýja tækniundur virkaði og það gerði það.
Frænka | Breytt s.d. kl. 20:11 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2009 | 21:51
Farið til veiða. (Seinni hluti)
Seinni hluti.
Ég sat hljóður og fáskiptinn undir stýri bílsins allt þar til við komum á áfangastað. En þegar á áfangastað er komið er það mitt fyrsta verk að velja gott tjaldstæði og hefja tjöldun. En nú verð ég að játa, að það verk vefst stundum fyrir mér, því fyrir ekki mörgum árum síðan keypti ég okkur hjónum forláta sænskt tjald. Tjald þetta leit ákaflega vel og fallega út á mynd og var sagt vera svo einfalt og fljótlegt í uppsetningu að hver meðal auli gæti tjaldað því á fimm mínútum. Og þar sem það væri einnig með sérstakri gerð af súlum stæðist það mikinn veðurham. En það eru einmitt þessar sérstaklegu gerðu súlur sem urðu þess valdandi að í fyrstu tók það mig um einn og hálfan tíma að reisa þetta einfalda tjald. Og sjá því allir að ég er enginn meðalauli eins og sagði í auglýsingunni. Einhvern veginn var mér fyrirmunað að koma þessum tuttugu og þrem súlubitum saman, annað hvort urðu súlunnar alltof langar eða helmingi of stuttar. Stundum urðu þær bognar til endana eða tók einhverskonar u-beygju í miðjunni. Og í hvert sinn sem ég hélt mig búinn að koma þessu einfalda drasli saman, skreið ég inn í tjaldið með allt byggingarefnið á eftir mér og þar inni barðist ég vonlausri baráttu bæði við tjaldið og við þessa vitlausu sænsku súluhönnun.
En meðan ég baslaði við þetta óskiljanlega og flókna verk í byggingarlist stóð konan álengdar og sá ég ekki betur, en að um huga hennar færu mjög svo skemmtilegar hugsanir, því um andlit hennar lék öðru hvoru líka þetta stóra og glettna bros eða dillandi hlátur hennar barst út í sumarkyrrðina. En að lokum fór þó svo að tjaldið komst upp og var það sameiginlegu átaki okkar hjóna að þakka. Konan raðaði saman súlunum og rétti mér síðan inn í tjaldið og þar setti ég hverja súlu á sinn stað eftir fyrirmælum konunnar. Og alltaf hef ég dáðs af því síðan hversu fljót hún var að sjá út hina flóknu byggingarlist tjaldsins. Í dag get ég hjálparlaust komið þessu einfalda tjaldi upp því konan pakkar hverja súlu fyrir sig og merkti hvern súlubita með tölunum 1-2-3-4 - svo nú er það leikur einn fyrir mig að tjalda hjálpi konan mér við verkið.
Eftir góðan snæðing og ilmandi kaffi sem við hjón útbúum í sameiningu á meðan ég tek til veiðiáhöldin, höldum til veiðanna. Ég ber allar birgðir mínar í bakpoka og í plastpoka og í sérhannaðri og rándýrri veiðitösku, og stangirnar þrjár rísa tignarlega upp úr festingum sínum á bakpokanum. Og ekki skemmir það fyrir þeim sem mig sjá, að ég er fullklæddur í forlátan veiðigalla sem er í felulitum, og sérstaklega hannaður svo fiskurinn sjái mig ekki. Og svo er ég með veiðihatt á höfði sem er alsettur skrautlegum flugum af öllum stærðum og gerðum, litum og lögun. En konan heldur bara á þessari einu stöng sinni og á hana hefur hún fest einn spún eða flot og neðst á taumnum hangir öngull. Þegar kemur að vatninu skyggi ég vatnið með sérslípuðum veiðimannagleraugum og reyni að sjá hvar fiskurinn gæti haldið sig, en konan labbar barasta beint af augum niður á vatnsbakkann og sveiflar stöng sinn á sinn eigin hátt sem er án alls veiðistíls.
Ekki finnst mér líkur á að hann haldi sig hér, segi ég og horfi með speki og þekkingu hins sanna veiðimanns til botns í vatninu.
Ætli ég rölti ekki inn á tangann sem skagar þarna út í vatnið. Ég held að hann sé að vaka þar. Kemur þú með kona?
Æi nei, segir mín elskilig, Ég nenni ekki þessu sífeldu rápi um bakkann. Farðu bar einn í þessa Bjarmalandsför þína, en gættu þín á dýpinu svo ekki fari sem síðast þegar ég varð að vaða út í vatnið upp að brjóstum, krækja í þig með spúninum og draga þig að landi því þú hafðir asnast út í dýpið og flaust svo ósjálfbjarga á vatninu eins og útblásinn plastpoki frá kaupfélaginu.
Eftir þessa frásögn hennar af fyrrgreindu óhappi mínu segi ég bara:
Jæja, og lít til lofts og síðan á klukkuna:
Það er nú orðið svo framorðið.Ætli maður verði ekki bara hér en fari hitt á morgun. Já, ætli ekki það. Enda erum við þá saman við veiðar og ég get hjálpað þér ástin mín ef þú lendir í nokkrum vandræðum. Síðan legg ég allt dótið frá mér og vel stöng og spún og byrja veiðar.
Það eru svo sem tuttugu metrar á milli okkar hjóna þar sem við stöndum á vatnbakkanum og sé ég því stuttu seinna, að konan verður vör fiskjar og innan skamms er hún komin með væna bleikju á land og eftir nokkur köst landar hún annarri og svo þeirri þriðju.
Hér er allt fullt af fiski, kallar hún. Hann tekur svartan Tobý.
Ég skipti um agn og læt 15 gramma svartan Tobý á tauminn en það er sama, ég verð ekki var við neinn fisk, sama hvað ég grýti beitu minni oft og langt út í vatnið. En á meðan landar kona þrem bleikjum í viðbót. Ég reyni að láta þetta ekki fara í skap mér en skipti þó um agn og læt nú maðk á og horfi svo vökulum augum á flotið en ekkert gerist, það bara flýtur á yfirborði vatnsins. Ekki nart að sjá, þar til allt í einu að það hverfur undir yfirborð vatnsins og ég finn hinu einu sönnu veiðitilfinningu hríslast um allan skrokkinn:
Ég er með ´ann!, hrópa ég stoltur til konunnar og byrja að berjast við fiskinn sem heldur fast á móti í byrjun en gefst síðan upp fyrir kunnáttu minni og veiðitækni.
Já, þarna náði ég þér, segi ég við fiskinn úr djúpinu um leið og ég dreg hann á land. En stærð þessa fisks var ekki mikil, eiginlega er ekki hægt að tala um stærð heldur um smæð hans. Og þegar ég hef náð veiðinni af önglinum kasta ég aftur og sé þá að konan er að landa einni bleikjunni enn. Og eftir sínar óveiðimannslegu tilburði leggur hún frá sér stöngina og stikar síðan af stað í átt til mín.
Hvert ertu að fara, kalla ég til hennar, en hún heyrir ekkert og er óðar komin til mín.
Hvar er bleikjan, spyr hún og lítur á fiskinn þar sem hann liggur falinn milli steina.
Óskapar kríli er þetta, heldur frúin áfram og bætir við;
Ég er búinn að landa átta stykkjum og engin undir tveim pundum og allt upp í þrjú pund.
Minn fiskur er ekkert lítil, segi ég og gerist svolítið fúll vegna þarflausu athugasemda konunnar.
Ég sé ekki betur en hann sé mjög stór eftir aldri. Já, meira að segja frekar stór eftir aldri, bæti ég við um leið og ég dreg færið að landi.
Mínir eru stærri og eru þeir þó nokkrum árum yngri, segir konan og reynir að vera fyndin.
En verum nú saman þar sem ég hef staðið. Má vera að þú fáir þar stærri þumlung en þetta, segir hún brosandi. Eftir nokkra þögn svara ég henni með þeim orðum:
Að máske sé það best, því það sé styttra til höfuðstöðva okkar þaðan en héðan.
Og svo færði ég mig til konunnar og byrja veiðiskapinn að nýju. En það er sama þótt ég standi við hlið hennar, notaði sama agn og hún, kastaði sömu vegalengd út í vatnið og hún, hún veiðir en ég ekki. Þótt ég sé yfirleitt ánægður með konu mína þá gat ekki hjá því farið, að með þessu framferði sínu færi hún nokkuð í skap mitt og gerðist ég því fámáll og þögull þarna á vatnsbakkanum, og það um langan tíma. En á meðan dró hún bara fleiri fiska og var óþolandi ánægð með sjálfa sig. Að endingu stóðst ég ekki mátið og sagði:
Þarftu ekki að fara að huga að kvöldverði kona. Er það virkilega meiningin að ég svelta í hel á meðan þú stundar þessa rányrkju þína.
Nú horfði konan á mig þeim augum sem ekki verða misskilin og sagði:
Herra veiðisár og veiðifúll, ef þú er svangur skalt bara éta þinn eina fisk. Ekki verður það stærð hans að kenna, þótt hann standi í þér eins og eplið stóð forðum í kerlingunni.
Svo þagði hún nokkra stund og bætti við með röddu sem var einkennilega blíð;
En elskan mín ef þú vilt ekki borðar þessa dagsveiði þína þá skal ég bera hana heim að tjaldi. Þú hefur víst nóg með að bera allan þinn sérstaka og sérhannaða veiðiútbúnað. Og ef þú verður á undan heim í tjaldstæði þá heltu upp á kaffidreitil. svo máttu smyrja brauð og taka upp kex og kökur, flatkökur, skonsur og þess háttar.
Ég greindi þessa upptalningu hennar í fjarska því ég var lagður á stað í náttstað og þar sem ég gekk út úr þessari upptalningu, þá skildi ég vel alla þá veiðimenn sem fara einir af stað til veiða á laugardagsmorgnum.
Af mér og fjölskyldu minni | Breytt 6.9.2009 kl. 22:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2009 | 20:26
Farið til veiða. (Fyrri hluti)
Fyrri hluti.
Eitt að því allra skemmtilegasta sem ég tek mér fyrir hendur, er að fara á heiðar upp og veiða mér silung til matar. Og þegar ég tala um veiðar er ég ekki að tala um veiðar í net, heldur um veiðar á stöng eins og sannir veiðimenn ástunda af mestu hógværð og lítillæti í veiðiáráttu sinni. En allar slíkar fjalla- og veiðiferðir kosta sérhvern sannan veiðimann langan og nákvæman undirbúning, því illgerlegt er að hlaupa heim ofan af háfjöllum hafi konan t.d. gleymt einhverjum nauðsynlegum fatnaði, sem hún átti að setja fyrir mig niður í tösku.
Allar mínar veiðiferðir skipulegg ég af mikilli kostgæfni og mikilli vandvirkni. Fer ekki til veiða nema að vel íhuguðu máli. Til dæmis er ég ekki einn þeirra manna sem segir við konu sína á laugardagsmorgni:
Heyrðu, ég þarf að fara til veiða í dag. Þarft þú ekki að vera heima og þurka af og skúra, setja í þvottavélina, brjóta saman og strauja þvottinn. Já og þarftu ekki einnig að bóna stofugólfið. Mér sýnist það. Já, mér datt það í hug. Heyrðu, ég fer þá barasta einn einu sinni enn.
Og svo er viðkomandi veiðibesefi farinn frá konu sinni og ógerðum heimilisverkum. Nei,ég kem ekki þannig fram við konu mina. Ég sýni henni ekki slíka karlrembu.
Ætli ég til veiða fer ég strax í byrjun vikunnar að undirbúa fyrirhugaða veiðiferð með því að segja konu minni, að hella nú upp á kaffidreitil og koma svo með bolla, mjólk og annað meðlæti til mín inn í stofu, því ég þurfi að ræða við hana um frábæra hugmynd sem skotið hefði rótum í huga mér og ég þurfi að bera undir hana.
Þegar hún hefur gert sem henni var boðið sest hún ánægð og sæl við hlið mér og þá segi ég gjarnan við hana:
Mín yndisleg - hvernig er ástandið hjá þér um næstu helgi, ertu að vinna, getum við farið fram til heiða og notið náttúrunnar við svanasöng og ilm grasa um leið og við göngum hönd í hönd um ósnortnar víðlendur landsins. Er nokkuð því til fyrirstöðu að við fáum notið samvistar í tjaldi í tvær eða þrjár nætur.
Og alltaf þykist hún vera jafn undrandi á tillitsemi minni og jákvæðni og hún horfir á mig líka þessum ástríku og stóru augum og segir:
Ætli ég reyni ekki að bögglast með þér í eina veiðiferðina enn svo þú komist án allra áverka aftur heim.
Já, alltaf fellur hún fyrir þeirri rómatísku stemmingu sem ég skapa í kringum okkur og sem mér tekst svo vel að viðhalda í hjónabandinu.
Eftir að konan hefur samþykkt uppástungu mína um komandi veiðiferð byrja ég strax á undirbúningi ferðarinnar með því að fara fram í bílskúr til að finna og yfirfara veiðidótið. En þá bregður oftar við en ekki, að veiðidótið hefur á einhvern óskiljanlegan hátt horfið og virðist þá sama þótt veiðiboxið, veiðitaskan og veiðihjólin eigi alltaf að vera í þriðju hillu lengst til vinstri. Þaðan er það horfið og þótt ég umsnúi öllu í skúrnum svo enginn hlutur verður lengur á sínum stað þá finn ég ekkert af þessum bráðnauðsynlegu hlutum nema veiðistangirnar mínar níu sem ég geymi í þar tilgerðum hólki. Svona hvörf hluta, hluta sem ég læt ávalt sjálfur á vísan stað eru ofaukið mínum skarpa skilningi og þegar ég spyr konuna veit hún ekkert, horfir bara á mig með einhverjum vorkunnarsvip og segir:
Hvar léstu draslið síðast?
Á sinn stað!, segi ég og ítreka hvar sá staður er ásamt því, að þetta sé ekkert drasl heldur nauðsynlegir hlutir í ferð okkar fram til heiða.
Við þessi orð mín stendur konan þegjandi upp, fer fram í bílskúr og eftir mjög skamman tíma þar kemur hún með stóran og þungan pappakassa í fanginu og segir:
Hérna er dótið - það var þar sem þú settir það síðast.
Ég þegi og þori ekki að spyrja neins. Ég lít ekki upp en finn glöggt til vanmáttar gegn fundvísi konunnar en segi þó að lokum:
Þú hefur falið þetta fyrir mér.
Jæja, segir mín yndisleg, Hafðu það bara svoleiðis en reyndu nú samt að brosa og næst þegar þú kemur úr veiðiferð, mundu þá að taka dótið úr bílnum og láta það í þriðju hilluna til vinstri og farðu nú að leika þér að þessu dóti þínu, og svo gengur hún í burtu með sigurvissu í hverri hreyfingu.
Svo að morgni þess dags þegar hefja skal ferðalagið og ég er kominn í fullan veiðiskrúða og hef komið öllu veiðidótinu mjög svo vel í fyrir í bílnum og er tilbúinn í ferðina fullur óþolinmæði, þá virðist konan eiga allt eftir. Láta fatnað niður, fara í verslun og kaupa nesti til fararinnar, láta niður diska, hnífapör og glös og ekki má hún gleyma kaffinu. Svo á hún eftir að finna til tjaldið og yfirfara það, prímusinn, grillið og gasið. Hún á eftir að yfirfara allt skótau, finna regn- og kuldagallanna. Og þegar hér er komið er þolinmæði mín þrotin og ég sé að geri ég ekki eitthvað sjálfur í málinu verður ekkert úr veiðiferðinni. Fer ég því úr veiðigallanum, fer og kaupi í matinn, yfirfer allt sem fara þarf yfir og þetta geri ég í mikilli þögn og fálæti en segi þó að lokum með rödd sem ekki verður misskilin;
Nú förum við kona, það hlýtur allt að vera komið eftir viku undirbúning.
Svo höldum við á stað. En eftir slíkar óþolandi og óþarfa tafir getur ýmislegt gerst, eins og þegar við hjónin höfðum ekið í þrjá klukkutíma og voru óðum að nálgast ákvörðunarstað, að konan snéri sér að mér og sagði undarlega blíðmælt:
Ástin mín, hvar er veiðigallinn sem þú fórst úr í morgun. Settirðu hann ekki örugglega í skottið á bílnum.
Við þessi orð hennar snarhemlaði ég, leit niður eftir grönnum og fallegum líkama mínum en við það fylltist brjóst mitt algjöru vonleysi. Ég hafði í allri óþolinmæði minn við að komast af stað gleymt að klæðast aftur veiðigallanum:
Hann er heima, sagði ég svo lágt að varla heyrðist. Við verðum að snúa við því ekki fer ég til veiða í venjulegum fötum. Hugsaðu þér kona ef aðrir veiðimenn eru þarna uppábúnir sínum fallegu veiðigöllum með flugur, túpur og spúna hangandi utan á sér til skrauts. Ég verð sem hirðfífl við hlið þeirra. Þvílík skömm, ég sný við.
Konan þegir en út um allt andlit hennar breiðist einhverskonar gleðibros sem endar í leiðinlegum hlátri. Hlátri sem mér finnst aldrei ætla að þagna. Hlátri sem gerir grín að mér og minni veiðiveröld. Og loks þegar hún nær aftur andanum fyrir þessum asnalega hlátri sínum og gleði segir hún:
Vinur minn, þú þarft ekkert að óttast, því ég tók veiðigallann, vöðlurnar, veiðigleraugun og húfuna og vettlinganna og maðkaboxið og stangirnar. Já, ég tók allt sem þú gleymdir að taka með eftir viku undirbúning. Og þetta setti ég allt í bílinn. Svo, elskan mín, þegar þú ferð að sveifla þessum prikum þínum getur þú verið klæddur sem sannur veiðimaður og höldum nú áfram ferð okkar á vit svanasöngs og ilmandi grasa.
Svo strýkur hún mér um vangann líkt og þegar foreldrar þurka tár af hvörmum barna sinna.
Af mér og fjölskyldu minni | Breytt 6.9.2009 kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.9.2009 | 19:14
N1,hvar eru 9 miljónirnar?
Strax eftir að ríkisstjórnin hækkaði vörugjald á eldsneyti snemma árs, ruku olíufélögin til og hækkuðu útsöluverð sitt strax þrátt fyrir að augljóst væri að slíkt væri bannað samkv lögum.Eftir nokkuð þóf ákvað Skeljungur að greiða viðskiptavinum sínum sem framvísað gátu afgreiðslustrimli ella nótu þann mismun sem tekinn hafði verið ólöglega.Hinsvegar tilkynnti N1að þeir myndu ekki gera slíkt hið sama heldur gefa mismuninn til góðgerðastarfa og sögðu þá upphæð vera um 9miljónir.Segjum það í lagi þótt ekki hafi verið leitað til réttra eigenda fjársins sem voru viðskiptavinir N1 um ráðstöfun þessa.
Nú er spurt:Hefur N1 staðið við orð sín eða liggja þeir enn með þessar 9miljónir?
Hafi þessum peningum verið ráðstafað til hjálparstarfa, hvað hjálparsamtök fengu þá þessar 9miljónir til ráðstöfunar?
Gott væri ef fjölmiðlar gæfu sér tíma til að kanna þetta mál og krefja N1 svara um hvar þessar 9miljónir hafi lent hafi þeim verið úthlutað.
Ég vona innilega að þessir peningar hafi komist í hendur einhverrar hjálparsamtaka en verði ekki notaðir uppí arðgreiðslur hjá N1.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2009 | 23:00
Þegar frændi kaus Framsókn.
Hafið þið tekið eftir því hversu mikið ólán hvílir á sumum mönnum. Ég á til dæmis frænda sem er með þeim ósköpum gerður, að detti spíta úr lofti dettur hún á hann, hvort sem hann er einn á víðavangi þar sem engrar spítu er von, eða hann er staddur í fjölmennri kröfugöngu um auknar og bættar slysabætur. Og hin undarlegustu slys hafa hent þennan frænda minn. Hann hefur til dæmis tábrotnað við það eitt að fara í skóna sína. Og eitt sinnið hrasaði hann svo illa að báðar axlir hans gengu úr liði bara vegna þess, að hann reyndi að hoppa yfir bananahýði sem hann óttaðist að renna á.
Þessi frændi minn er afskaplega langur og mjór maður á allann vöxt. Hann er svo mjór að í hvert sinni sem hann kaupir sér buxur kvartar hann yfir því við afgreiðslufólkið að þurfa að kaupa báðar skálmanar því efnið í annari dygði í fyrir sig.
Og hæð hans er slík að það veldur oft þeim sem er meðalmaður á hæð, ég ræði nú ekki um þá sem lægri eru, bæði erfiðleikum og þreytu í hálsliðunum að tala lengi við hann í einu. Því frændi er þannig að eigi maður við hann orðaskak verður maður að horfa upp í andlit hans, sem er svo og mjótt og langt að það virðis hvergi ætla að taka enda.
En þrátt fyrir alla þá líkamlegu erfiðleika sem fylgja samræðum við frænda, horfir maður sem dáleiddur á þetta óvenjulega andlit, því þar gerast svo mörg undur þegar hann tjáir sig. Og ég veit um fólk sem hefur átt í hinu mesta basli með að koma höfði sínu í réttar skorður eftir samtal við frænda.
Og þetta andlit hans er eitt stórt undraverk. Því á þessu langa og mjóva andliti er oftast þetta yndislega og lífsglaða bros sem virðist ná langt út fyrir þetta sérstæða andlit í hvert sinn sem hann brosir og þetta bros er þannig að enginn vill missa þess að fá það gefins.
En líf frænda er eitt ólán, hann er nefnilega alltaf að verða fyrir smá óhöppum eða hreinlega stór slysum. Til dæmis sést það ekki á fingrum hans að hann sé smiður að mennt og atvinnu því þeir eru alltaf bólgnir og marðir eftir hamarshögg.
Eitt sinnið þegar hann var allur reifaður á annarri hendinni stóðst ég ekki mátið og spurði hverju það sætti, að hann smiðurinn væri alltaf að lemja hamri á fingur sér?
Hann leit á mig og brosti þessu einstæða brosi sínu og sagði:
Jú, sjáðu til frændi, það eru naglanir sem ég nota, þeir eru aldrei kjurrir.
En það er sama hversu oft og alvarlega hann slasast, aldrei er hann öðruvísi en brosandi og sáttur við þá veröld sem hann býr í.
Við frændurnir ræðum oft um pólitík og oftlega hef ég haldið því fram, að einhver mesta ógæfa nokkurs manns sé að kjósa íhaldið og einmitt þar gæti frumorsök óhappa hans legið. Hann kysi alltaf íhaldið. Hann þurfi ekki annað en líta til mín, aldrei er ég innvafinn í plástra eða sárabindi. Hvað þá að ég dvelji langdvölum á slysadeildum spítala enda kysi ég alltaf eitthvað annað en íhaldið.
Hann hefur harðneitað þessari kenningu minni og bent mér á að þótt ég slasist ekki sjálfur þá gæti val mitt í pólitík valdið slíkum stórslysum á allri þjóðinn að ekki sé víst að þau slys yrðu nokkurn tíman bætt, sama hversu vel um þau sár væri búið.
Eða heldur þú frændi sæll, segir hann að það sé eitthvað skemmtimál að hafa mann eins og þig innan einnar fjölskyldu. Bara það eitt er stórslys.
Svo brosir hann þessu vinalega og ívið skakka brosi sínu sem fær hvern mann til að þagna, af einskærri undrun yfir því hvað mannsandlitið býr yfir miklum teyjanleika.
Svo var það rétt eftir síðustu þingkosningar að kona frænda hringdi og sagði mér þær fréttir, að þessi ljúfi og lífsglaði frændi minn lægi stórslasaður á spítala. Hann hafði orðið fyrir bíl rétt hjá kjörstað, þaðan sem hann var að koma frá kosningu.
Og það sagði hann sjálfur bætti hún við Að ekki gætir þú aukið kvöl hans þótt þú kæmi í heimsókn, og væri það til marks um hversu andlegar kvalir hans væru miklar.
Þegar ég kom til hans á spítalann varð mér brugðið. Þarna hékk þessi lífsglaði frændi minn á báðum fótum í einhvers konar gálga og sneri því höfuð hans niður eða svo til. En ól var strengd um axlir hans og út í vegg og togaði á móti svo nær væri að segja að hann hafi hangið í vinkill.
Þegar ég sá hann hanga svona fylltist brjóst mitt af einkennilegum sársauka og einhver kökkur stíflaði háls minn. Ég ætlaði því að læðast út aftur en heyrði hann þá hvísla;
Sæll frændi. Loks kemur einhver með litlu viti sem ég get talað við án þess að reyna of mikið á mig. Stattu ekki þarna með svip eins og pækilsaltaður hrútspungur, fáðu þér heldur sæti.
Ég settist hjá þessum sérstæða manni og vissi ekki hvað ég átti að segja svo ég þagði og horfði bara á þetta einstæða og lífsglaða bros sem lék um þetta allt of langa andlit sem nú hékk á hvolfi fyrir mér og leit því öðruvísi út en ég átti að venjast.
Eftir nokkra þögn segir hann;
Heyrðu frændi þennan fjanda geri ég ekki aftur.
Ég sagðist trúa því, Enda hlypu menn ekki fyrir bíla þótt þeir kysu íhaldið á fjögra ára fresti. Það væri að mínum dómi of langt gengið, þótt hugmyndin væri góð.
Ég á ekki við það heldur hitt, að trúa þessu um ólán mitt og íhaldið eins og þú hefur haldið fram. Nú veit ég að það er ekki satt.
Hvað er þetta segi ég. Ætlarðu að fara að tala um pólitík, hangandi uppi á afturendanum eins og skreið.
Já frændi sæll, því sjáðu nú til, þetta var nefnilega stór pólitískt slys. Því í fyrsta sinni á ævi minni kaus ég ekki íhaldið heldur framsókn - og sjáðu afleiðingarnar.
Eftir þessi orð frænda þögðum við báðir langa stund og hugleiddum þær afleiðingar sem fylgir því að kjósa framsókn.
Frændi | Breytt 3.9.2009 kl. 21:53 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)